Einungis 8,8 prósent kynferðisbrotamála sem bárust Stígamótum í fyrra voru kærð til lögreglu. Af 468 málum voru 41 kærð. Þetta er lægra hlutfall heldur en árið áður, en þá voru rúmlega 13 prósent mála kærð, eða 56 mál af 423.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sagði á kynningarfundi á ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2015 í morgun að ein möguleg ástæða þessa lága hlutfalls kærðra mála væri sú að léleg meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu hafi verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið ár. En það sé þó ekkert nýtt að fá mál séu kærð.
Ekki eins mörg viðtöl síðan í Karls Vignis-málunum
Fjöldi nýrra mála hjá Stígamótum 2015 var 330 og voru brotaþolar 302 og svo 28 í gegn um aðstandendur. Heildarfjöldi einstaklinga sem kom til Stígamóta var 677. Ofbeldismenn voru 507, þar af 30 konur. Árið 2014 var heildarfjöldi kynferðisbrotamála 306.
Heildarfjöldi viðtala var 2.209 og er hvert viðtal klukkutími. Guðrún sagði að ekki hafi verið gerð svo mörg viðtöl síðan 2013 þegar málin sem voru tengd Karli Vigni Þorsteinssyni voru öll að koma upp á yfirborðið.
Karlar nauðga í langflestum tilvikum
Flest málin hjá Stígamótum í fyrra voru nauðganir, eða 155 af 464. Sifjaspellsmál voru 125, kynferðisleg áreitni taldi 99 mál, nauðgunartilraunir voru 39, mál tengd klámi voru 19 og vændismál voru fimm.
245 konur leituðu til Stígamóta vegna nauðgana og 37 karlar. Karlar voru ofbeldismenn í 95,5 prósent tilvika þegar kom að konum og í 76 prósent tilvika hjá körlum.
Alltaf fá mál kærð
Séu ársskýrslur Stígamóta frá árunum 1992 til 2014 skoðaðar kemur fram að um fjögur prósent til 17 prósent mála ár hvert hafi verið kærð til lögreglu. Í ársskýrslunni segir að ástæður fyrir að mál eru ekki kærð eru margar, en oft eru mál fyrnd þegar þau berast Stígamótum.
„Algengt er líka að fólk treystir sér ekki lengur í gegn um yfirheyrslur og hefur ekki trúa á að það nái fram rétti sínum fyrir dómstólum. Enn önnur skýring og ef til vill algengari en marga grunar er að þau sem beitt eru kynbundnu ofbeldi eru svo þjökuð af skömm, sektarkennd og lélegri sjálfsmyn að þau treysta sér ekki til þess að kæra og finnst þau jafnvel bera ábyrgð á ofbeldinu sjálf, annað hvort að hluta til eða alveg,” segir í ársskýrslunni.
Þá kom fram í rannsókn sem gerð var af Hildigunni Magnúsdóttur og Katrínu Erlingsdóttur árið 2007 að um 85 prósent þeirra sem leituðu til Stígamóta nefndu skömm sem ástæðu þess að kæra ekki og að 75 prósent kvenna litu svo á að nauðgunin hafi verið þeim sjálfum að kenna.