Tillögur stjórna þriggja stærstu tryggingafélaga landsins, VÍS, Tryggingarmiðstöð (TM) og Sjóvá, um að greiða eigendum sínum samanlagt 9,6 milljarða króna í arð og kaupa af þeim hlutabréf upp á 3,5 milljarða króna, hefur vægast sagt mælst illa fyrir. Sérstaklega þar sem hagnaður tveggja þeirra, VÍS og Sjóvár, er mun lægri en fyrirhuguð arðgreiðsla. VÍS hagnaðist nefnilega um 2,1 milljarð króna í fyrra en ætlar að greiða hluthöfum sínum út fimm milljarða króna í arð. Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir króna en ætlar að greiða út 3,1 milljarð króna í arð. TM hagnaðist hins vegar um 2,5 milljarða króna og ætlar að greiða hluthöfum sínum út 1,5 milljarð króna.
Ástæða hinna miklu arðgreiðslna er að finna í breyttum reikniskilareglum, sem lækka vátryggingarskuld félaganna, hinn svokallaða bótasjóð, en eykur eigið fé þeirra. Það fé sem „verður til“ vegna þess er því ekki raunverulegur hagnaður heldur tilkomið vegna talnakúnstna sem færa fé úr bótasjóðnum í eigið fé tryggingafélaganna, og þar af leiðandi til hluthafanna. Í tilfelli VÍS er vátryggingaskuldin/bótasjóðurinn til að mynda lækkuð um fimm milljarða króna en eigið féð aukið um 3,7 milljarða króna vegna þessarra breyttu reikniskilaaðferða.
Gagnrýnin á þessa fyrirhögun stjórna tryggingafélaganna hefur verið gríðarleg undanfarna daga og mikill þrýstingur á að tillögurnar verði dregnar til baka. Mörgum sem gagnrýna þykir eðlilegra að iðgjöld þeirra sem þurfa samkvæmt lögum að kaupa tryggingar af félögunum verði lækkuð, og viðskiptavinum þeirra því skilað umræddri arðsemi, fremur en að hluthafar njóti hennar einir. FÍB, félag íslenskra bifreiðaeigenda, fór reyndar ekki svona fínt í hlutina. Í áskorun sem það sendi frá sér um liðna helgi sagði að tryggingafélög stundi sjálftöku og gripdeildir úr sjóðum sem séu í raun í eigu viðskiptavina þeirra. Félögin, VÍS, TM og Sjóvá, séu að fara að tæma bótasjóði til að greiða út arð til hluthafa sinna.
Ljóst er að gagnrýnin er farin að hafa áhrif. Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, skrifaði harðorðan pistil á heimasíðu stéttarfélagsins þar sem hún sagði félagsmönnum vera misboðið vegna arðgreiðslnanna. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti eigandi bæði TM og VÍS og sjöundi stærsti eigandi Sjóvar. VR skipar fjóra af átta stjórnarmönnum í Lífeyrissjóði verzlunarmanna á móti atvinnurekendum, sem skipa hina fjóra. Og í dag greindi Morgunblaðið frá því að stærstu hluthafar VÍS, stærstu lífeyrissjóðir landsins, ætli ekki að styðja arðgreiðslu félagsins og muni kjósa gegn henni á aðalfundi ef hún verði ekki dregin til baka. Þá ætlar efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að ræða arðgreiðslur tryggingafélaganna á fundi sínum í dag.
En þau rök sem eru hvað sterkust fyrir því að fara varlega í arðgreiðslum úr tryggingafélögum er að finna í eftirhrunssögunni. Það er nefnilega ekki nema nokkur ár frá því að íslenska ríkið þurfti að stíga inn og bjarga tryggingafélagi sem farið var á hliðina eftir að bótasjóður þess hafði verið tæmdur. Tryggingafélagið, Sjóvá, var talið „of stórt til að falla“. Þ.e. ríkið taldi það kerfislega ekki forsvaranlegt að láta það fara á hausinn, vegna þeirra afleiðinga sem það myndi hafa fyrir viðskiptavinina sem greitt höfðu iðgjöld samviskusamlega og ætluðust til þess að fá þjónustu í samræmi við þau.
Það félag sem lenti í höndunum á íslenska ríkinu árið 2009 var Sjóvá. Og eigendur þess höfðu greitt sér út 19,4 milljarða króna í arð síðustu þrjú árin áður en það féll.
Greiddu sér 19,4 milljarða króna í arð á þremur árum
Fyrir hrun vildu öll stærstu fjárfestingafélög landsins eiga hlut í tryggingafélögum. Ástæðan er einföld: Tryggingafélög eiga gríðarlega sjóði sem þau þurfa að fjárfesta úr. Þau skipta samfélagið afar miklu máli. Allt það fé sem venjulegt fólk borgar í iðgjöld fer annars vegar í að borga út tjónagreiðslur og hins vegar í fjárfestingar til að gera félögunum kleift að mæta framtíðarskuldbindingum sínum.
Ef tækist að stýra fjárfestingum þessara sjóða þá væri það mikið vopn í vopnabúri þeirrar samsteypu sem hefði yfirráð yfir þeim. Þess vegna átti Milestone Sjóvá, Exista átti VÍS og FL Group átti Tryggingamiðstöðina.
Milestone, fjárfestingafélag sem var að mestu leyti í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona, eignaðist Sjóvá að fullu í byrjun árs 2006. Á næstu tveimur árum voru færðar fjárfestingaeignir inn á efnahagsreikning félagsins sem bókfærðar voru sem 50 milljarða króna virði. Eignirnar voru færðar frá Milestone til Sjóvá til að gera upp viðskiptaskuld. Þessum eignum fylgdu vaxtaberandi skuldir upp á 40 milljarða króna, að mestu leyti í erlendum gjaldmiðlum. Allar fjárfestingarnar og skuldirnar voru geymdar í dótturfélögum Sjóva sem stýrt var af Milestone. Á pappír voru þetta því ágætis viðskipti fyrir Sjóvá. Það var þó ekki þannig í raunveruleikanum.
Eignirnar voru nefnilega að stóru leyti fasteignir og fasteignaþróunarverkefni erlendis sem keypt höfðu verið á háu verði þegar alþjóðlega fasteignabólan stóð sem hæst. Verkefnin voru meðal annars í Bandaríkjunum, Indlandi, Rúmeníu, Hong Kong og víðar, auk fullbyggðra fasteigna sem voru í útleigu í löndum á borð við Belgíu, Frakkland og Þýskaland. Flest þessara verkefna voru þess eðlis að Sjóvá var látið leggja fé í þau. Þegar fasteignamarkaðurinn hrundi og íslenska krónan einnig lækkuðu eignirnar gríðarlega í verði á sama tíma og skuldirnar snarhækkuðu. Sjóvá varð á örskammri stundu nánast óstarfhæft.
Auk þess lánaði Sjóvá eiganda sínum Milestone og félagi sem hét Földungur, en hafði áður heitið Vafningur, samtals um 20 milljarða króna snemma árs 2008 þegar erlendir stórbankar vildu ekki lána þeim lengur og gerðu veðkall vegna annarra lána. Þessi viðskipti, sem eru oftast kölluð Vafnings-viðskiptin, voru mikið í umræðunni á Íslandi fyrir nokkrum árum vegna aðkomu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að þeim. Faðir og föðurbróðir Bjarna tóku þátt í viðskiptunum og Bjarni veðsetti hlutabréf í Vafningi fyrir láni sem veitt var í þeim. Endurfjármögnunin var vegna bréfa í Glitni sem urðu verðlaus í bankahruninu. Það sem gerði þessa stöðu enn súrari var sú staðreynd að eigendur Sjóvár höfðu greitt sér 19,4 milljarða króna út í arð á árunum 2006-2008. Það voru peningar sem sáust aldrei aftur.
Tæmdu bótasjóðinn
Það komst þó ekki upp um stöðu Sjóvár strax eftir hrunið. Eftirlitsaðilar höfðu öðrum hnöppum að hneppa þar sem heilt bankakerfi hafði fallið í fangið á þeim. Staða Sjóvár í árslok 2008 var þó með þeim hætti að grípa hefði þurft inn í. Bótasjóður félagsins, eða vátryggingarskuld, á þeim tíma nam 22,7 milljörðum króna. Lánin til Milestone og Földungs, sem öll voru töpuð, voru um 85 prósent af þeirri upphæð. Þá átti eftir að taka inn í dæmið tapið vegna fasteignaverkefnanna, en tap vegna þeirra varð á endanum um tíu milljarðar króna. Augljóst var að eignir voru mun minna virði en skuldir og Sjóvá því að minnsta kosti tæknilega gjaldþrota og að öllu leyti komið í fangið á stærsta kröfuhafa sínum, þrotabúi Glitnis.
Í mars 2009 var ákveðið að reyna að leysa úr vanda Sjóvár með því að selja það nýjum eigendum. Fyrirtækjasvið Íslandsbanka var fengið til þess og átti meðal annars í viðræðum við færeyskt tryggingafélag um kaupin. Stærsta vandamálið í þeim viðræðum var að Sjóvá hafði gengist í ábyrgð vegna fjárfestingaverkefnis í Macau í Hong Kong upp á um 8,5 milljarða króna sem voru á gjalddaga þá um haustið. Morgunljóst var að Sjóvá gat ekki staðið við þann gjalddaga. Færeyingarnir og aðrir sem hnusuðu af félaginu höfðu á endanum engan áhuga á að koma með peninga inn eins og þá var komið. Skilanefnd Glitnis gerði sér á þeim tíma grein fyrir því að einungis tveir kostir voru í stöðunni, að setja Sjóvá í þrot eða fá ríkið til að koma með fé inn í félagið.
Of stórt til að falla
Þegar leitað var til fjármálaráðuneytisins um að koma með peninga inn í Sjóvá blasti við að félagið var á hliðinni. Staðan var mun verri en menn gerðu sér grein fyrir og Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, hefur sjálfur lýst aðkomunni að Sjóvá sem „hryllingi“. Á þeim tíma var það hins vegar eindregið mat Fjármálaeftirlitsins að það væri mjög slæmt ef tryggingafélag færi í þrot. Það væri í raun verra að mörgu leyti en að banki færi í þrot. Ekki þótti viðráðanlegt að setja Sjóvá inn í annað hinna stóru tryggingafélaganna, VÍS eða Tryggingamiðstöðina, af markaðs- og samkeppnislegum forsendum. Hvorugt þeirra var í stakk búið að taka við Sjóvá.
Ráðuneytið, Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið réðu því ráðum sínum og urðu til að byrja með sammála um eitt: Að versti kosturinn væri að gera ekki neitt. Þá hefði komið upp slæm staða, fólk hefði verið búið að greiða iðgjöld en tryggingafélagið farið á hausinn og fólkið þar af leiðandi í raun ekki tryggt lengur. Auk þess voru milljarðar króna ógreiddir í slysa- og örorkubætur. Ljóst var að ríkið myndi líkast til þurfa að axla greiðslu þeirra bóta sem fólki hefðu verið dæmdar og það átti inni ógreiddar. Samkvæmt leynilegu mati sem lagt var fram á þeim tíma gat kostnaður ríkisins vegna þessa orðið á bilinu 15 til 20 milljarðar króna.
Ríkið ákvað því strax í byrjun maí 2009 að koma inn í félagið. Vátryggingarekstur Sjóvár var svo „seldur“ inn í nýtt félag, Sjóvá-almennar tryggingar ehf., þann 30. september 2009 . Í raun var um kennitöluflakk með velþóknun yfirvalda að ræða. Framlag ríkisins varð á endanum 11,6 milljarðar króna, sem voru greiddar með kröfum á aðra sem ríkið átti. Auk þess lögðu Glitnir og Íslandsbanki til um fimm milljarða króna svo nýja félagið yrði starfhæft. Í kjölfarið var nýja Sjóvá sett í söluferli til að reyna að ná meðgjöfinni til baka.
Tap ríkisins um fjórir milljarðar
Í lok júlí 2011 var síðan tilkynnt um að hópur fjárfesta hefði keypt rúmlega helmingshlut. Hópurinn hafði verið settur saman af Stefni, eignastýringarfyrirtæki í eigu Arion banka, og keypti hlutinn í nafni félags sem heitir SF1 slhf. Stærstu eigendur þess voru lífeyrissjóðir, félag í eigu Síldarvinnslunnar (sem er að hluta til í eigu Samherja), félag í eigu Steinunnar Jónsdóttur, félag í eigu Ernu Gísladóttur, félag í eigu Tómasar Kristjánssonar og [DS1] Finns Reyrs Stefánssonar (eiginmanns Steinunnar Jónsdóttur) og félag í eigu Jóns Diðriks Jónssonar. Hópurinn fékk auk þess forkaupsrétt á um 20 prósenta hlut til viðbótar og nýtti sér hann skömmu síðar. Hann átti því 73 prósenta hlut í Sjóvá í lok árs 2012. Afgangurinn var í eigu ríkisins, þrotabús Glitnis og Íslandsbanka. Alls var tap ríkisins vegna aðkomu þess að Sjóvá rúmlega fjórir milljarðar króna.
Sjóvá var síðan skráð á markað í apríl 2014. Stærsti eigandi félagsins í dag er SAT Eignarhaldsfélag, sem er nú í eigu íslenska ríkisins.
Engir glæpir
Embætti sérstaks saksóknara hefur rannsakaði meðferð Milestone og tengdra aðila á Sjóvá sem mögulegt sakamál frá því snemma árs 2009. Embættið gerði meðal annars húsleit hjá Þór Sigfússyni, fyrrum forstjóra Sjóvár, Karli Wernerssyni, fyrrum stjórnarformanni og aðaleiganda Milestone, og Guðmundi Ólafssyni, fyrrum forstjóra Milestone á því ári. Þeir voru allir yfirheyrðir og fengu stöðu grunaðra á meðan yfirheyrslur stóðu yfir.
Í lok árs 2014 var rannsókn sérstaks saksóknara á meintum umboðssvikum fyrrum eigenda og stjórnenda Sjóvár hætt og niðurstaðan var sú að ekki var talið efni til ákæru. Rannsóknin hafði þá staðið yfir í fimm og hálft ár. Embættið ákærði hins vegar Karl og bróðir hans Steingrím, sem var einnig á meðal helstu eigenda Milestone, ásamt Guðmundi fyrir að hafa látið Milestone fjármagna kaup bræðranna á hlutafé systur þeirra, Ingunnar, í félaginu. Auk þess voru endurskoðendur félagsins ákærðir í málinu. Sakborningar voru sýknaðir í héraðsdómi í desember 2014 en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar. Það er á dagskrá hans 7. apríl næstkomandi. Milestone var úrskurðað gjaldþrota árið 2009 og heildarkröfur sem gerðar voru í bú félagsins námu tæpum 80 milljörðum króna. Kröfuhafar fengu undir eitt prósent af kröfum sínum til baka.