Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, birti rangar upplýsingar í svari sínu vegna fyrirspurnar Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um styrki til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands úr opinberum samkeppnissjóðum sem birtist á vef Alþingis 1. mars síðastliðinn. Kjarninn greindi ítarlega frá svarinu en samkvæmt því hafði Nýsköpunarmiðstöð Íslands fengið 875 milljónir króna úthlutað í styrka frá ársbyrjun 2007 til loka árs 2015 úr tveimur sjóðum, Rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóði. Alls hefði miðstöðin sóst eftir 2,3 milljörðum króna og því fengið 38 prósent af þeirri upphæð sem hún sóttist eftir.
Í kjölfar fréttaskýringar Kjarnans, sem byggði á svari ráðherrans, bárust ábendingar um að þetta gæti ekki staðist. Styrkirnir sem um ræddi hlytu að koma úr fleiri sjóðum en þessum tveimur og þá þótti hlutfall þeirra styrkjabeiðna Nýsköpunarmiðstöðvar sem samþykktar voru vera grunsamlega hátt miðað við það sem gengur og gerist hjá öðrum tíðum styrkjarbeiðendum.
Svar ráðherrans rangt
Kjarninn sendi því fyrspurn á ráðuneytið og bað um útskýringar á þessu. Í svari ráðuneytisins er gengist við því að taflan sem birt var í svari ráðherrans við fyrirspurn þingmanns Pírata hafi verið röng. Svarið til Helga Hrafns hefur nú verið uppfært með réttum upplýsingum.
Hið rétta er að Nýsköpunarmiðstöð hefur fengið tæplega 538 milljónir króna úr opinberum samkeppnissjóðum á árunum 2007-2015 en sótt um 2,3 milljarða króna. Því hafa 23,3 prósent umsókna sem miðstöðin hefur komið að verið samþykktar. Langstærsti hluti umsóknar Nýsköpunarmiðstöðvar hafa verið í þá sjóði sem Rannís hefur umsjón með: Tækniþróunarsjóð, Rannsóknarsjóð, Innviðasjóð og M-era.net, sjóður sem fjármagnaður er af Evrópusambandinu. Alls hefur Nýsköpunarmiðstöðin sótt um, annað hvort sem aðalumsækjandi eða meðumsækjandi, um 1.746 milljónir króna í þessa sjóði á tímabilinu. Alls hefur það fengið 360,2 milljónir króna úr sjóðunum, eða 20,6 prósent þess sem sótt hefur verið um.
Næst mest fjármagn hefur komið frá AVS sjóðinum, rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, (44,2 milljónir króna) Vegagerðinni (40,6 milljónir króna), Orkusjóði (32,1 milljónir króna), Íbúðalánasjóði (35,2 milljónir króna), úr sjóðnum Georg (fimm milljónir króna) og frá öðrum opinberum sjóðum (20,5 milljónir króna).
Nýsköpunarmiðstöð Íslands er stofnun sem heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hennar, samkvæmt lögum um hana, er „að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu“. Á árinu 2015 fékk miðstöðin 537 milljónir króna í bein framlög úr ríkissjóði. Í ár er áætlað, samkvæmt fjárlögum, að hún fá samtals 569 milljónir króna úr ríkissjóði og muni auk þess afla sértekna upp á 843 milljónir króna.
Samkvæmt lögum um Nýsköpunarmiðstöð fær hún tekjur sínar frá framlögum úr ríkissjóði, þjónustugjöldum, fjármagnstekjum, tekjum vegna hlutdeildar í félögum og „öðrum tekjum“. Aðrar tekjur eru styrkir sem miðstöðin sækir í, meðal annars hjá samkeppnissjóðum sem hið opinbera fjármagnar.
Úthlutun úr Orkusjóði umdeild
Úthlutanir styrkja til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands komust í fréttir í október 2015 þegar Fréttablaðið greindi frá því að miðstöðin hefði fengið fjórðung þeirra styrkja sem Orkusjóður hafði nýverið úthlutað til alls ellefu verkefna. Í umfjöllun blaðsins kom fram að formaðurnefndarinnar sem velur hverjir fá styrki, Árni Sigfússon, er bróðir forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Þorsteins Inga Sigfússonar. Árni vék ekki sæti þegar fjallað var um styrkveitinguna. Árni kallaði umfjöllun Fréttablaðsins „ljótan leik“ í samtali við Stundina. Hann hafnaði því að eitthvað væri athugavert við úthlutunina, enda væri hún til ríkisstofnunar, ekki persónulega til bróður hans.
Forsvarsmaður fyrirtækisins Valorku kvartaði til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins vegna málsins og taldi Árna vera vanhæfan til að koma að úthlutun styrka til Nýsköpunarmiðstöðvar vegna vensla. Hann vildi meina að málsmeðferðin hafi getað verið í andstöðu við stjórnsýslulög. Í öðrum kafla þeirra segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann „er eða hefur verið maki aðila, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar“ eða ef hann „tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila með þeim hætti“. Auk þess teljast nefndarmenn vanhæfir ef „að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu".
Kjarninn greindi frá því í byrjun viku að umboðsmaður Alþingis hefði komist að þeirri niðurstöðu að Árni hefði verið vanhæfur til að veita styrki úr Orkusjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar í fyrrahaust vegna vensla við forstjóra miðstöðvarinnar. Hann taldi enn fremur að úthlutanir úr Orkusjóði í fyrrahaust hafi þar af leiðandi ekki verið í samræmi við lög.
Í yfirlýsingu sem Árni sendi frá sér í kjölfarið sagðist hann virða niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Miðað við niðurstöðuna hafi málið reynst hans mistök.