Nú í aðdraganda
forsetakosninga í Bandaríkjunum birtist skýrt sú tilhneiging kjósenda að líta
svo á að samfélagið þarfnist öflugs leiðtoga, jafnvel einvalds. Ein ástæðan
gæti verið að hinir hefðbundnu stjórnmálamenn séu taldir gagnslausir, ýmist
spilltir eða ragir við að taka óvinsælar ákvarðanir vegna þess sem stundum er
nefnt pólitískur rétttrúnaður. Þess vegna þarfnist þjóðfélagið einhvers sem
hlusti ekki á neitt kjaftæði heldur láti verkin tala og sé óhræddur við að taka
af skarið. Það sé nauðsynlegt að taka ákvarðanir sem, þrátt fyrir að brjóta
jafnvel í bága við grundvallarmannréttindi, séu besta lausnin þegar upp sé
staðið.
Þetta rímar við uppgang andlýðræðislegra stjórnmálaforingja og -hreyfinga með fasíska tilburði, sér í lagi í Austur-Evrópu. Aukinn flóttamannavandi og meint hryðjuverkaógn eru vatn á myllu þessara hreyfinga því auðvelt er að magna upp ótta fólks sem þá verður ginnkeyptara fyrir þeim einföldu lausnum sem boðaðar eru. Þar má nefna herta útlendingalöggjöf og aukin völd ríkisins, lokaðri landamæri með byggingu veggja eða úrsögn úr alþjóða- eða landamærasamstarfi.
Þá fer þetta fer saman við að skarpari átakalínur eru dregnar í stjórnmálum, þeir sem eru ekki í þínu liði er þá gjarnan útmálaðir sem óvinir ríkisins eða þjóðarinnar og skoðanir þeirra sagðar hættulegar, í besta falli óþjóðlegar.
Aukið lýðræði og friður – bakslag í seglin?
Einræðistilburðir, lokuð landamæri og einangrunarstefna eru tæplega nýtilkomin fyrirbæri í veraldarsögunni. Þetta hefur ekki einungis tíðkast í fortíðinni eða fjarlægum, vanþróuðum ríkjum heldur einnig nær okkur, bæði í rúmi og tíma, líklega nær en fólk almennt áttar sig á. Við þekkjum öll nýleg dæmi um slíkt stjórnarfar. Þrátt fyrir að heimurinn hafi færst í rétta átt til aukins frelsis, lýðræðis og opnari tengsla milli ríkja er þróunin ekki línuleg. Nú má segja að eftir tímabil undanfarinna áratuga sem einkennst hefur af frjálslyndi og lýðræðisumbótum, með mismiklum árangri þó, sé komið ákveðið bakslag í seglin.
Frá sjónarhóli Vesturlandabúa tók lýðræði, með friðsamlegum ríkjasamskiptum, að þróast hratt á Vesturlöndum á seinni hluta tuttugustu aldar eftir hörmungartíma einræðisstjórna á þeim fyrri – talað var um endalok tiltekinnar heimsmyndar og bjartsýni ríkti. Fyrrum ráðstjórnarríki í Austur-Evrópu fylgdu í kjölfarið og kepptust við að vera með í lýðræðisveislunni. Ríkin sem áður tilheyrðu Júgóslavíu undir stjórn Títós á Balkanskaga fóru í gegnum hreinsunareld stríðsátaka og hafa sum hver gengið í Evrópusambandið og önnur sótt um aðild. Og eftir áratuga borgarastríð komst almennt friður á í ríkjum Mið- og Suður-Ameríku.
Þegar kom fram á 21. öld dró einnig til tíðinda í ríkjum Norður-Afríku, Arabíuskaga og Mið-Austurlöndum, það sem kallað var Arabíska vorið, hvar einræðisherrum var komið frá völdum. Hreyfingin sem hófst í Túnis, hélt áfram í Egyptalandi, og gaf fólki vonir um umbyltingu í stjórnarháttum virtist ætla að breiðast út, jafnvel til Sýrlands, en reyndist þó skammgóður vermir. Það fjaraði undan þessari þróun, herinn tók aftur völdin í Egyptalandi og þar er nú við völd maður sem segist muni fjarlægja af yfirborði jarðar nokkurn þann sem ógni ríkinu (honum).
Rússar, sem voru á tímabili komnir með annan fótinn í bandalag með Vesturlöndum, hafa stigið nokkur skref til baka frá lýðræðisumbótum undir stjórn Vladimírs Pútín. Svo virðist sem hann skapi sér vinsældir á ólíklegustu stöðum, ekki síst hjá þeim sem finna vestrænni samvinnu allt til foráttu, því Pútín er óhræddur við að standa uppi í hárinu á vestrænum ráðamönnum. Þar virðist þá engu skipta ógnandi og óásættanleg framkoma rússneskra stjórnvalda í utanríkis- eða mannréttindamálum.
Jafnframt virðist ákveðinn hópur vera kominn með nóg af frjálsræðisþróuninni í sumum ríkjum Austur-Evrópu. Þar má nefna Pólland þar sem stjórnvöld sýna ótvíræða einræðistilburði. Það sama er upp í teningnum í Ungverjalandi þar sem Victor Orban ríkir. Hann hefur lýst yfir hnignun frjálslyndra lýðræðisríkja og hampað stjórnvöldum þar sem einræði er raunin, eins og Rússlandi, Tyrklandi, Malasíu og Kína.
Er þetta líka svona á Íslandi?
Það væri ofsögum sagt að þetta sé að gerast á Íslandi. Þó má sjá ákveðna tilhneigingu í þá átt að stjórnvöld reyni að kveða niður gagnrýnisraddir án málefnalegrar umfjöllunar. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa m.a. haft í hótunum við Ríkisútvarpið vegna fréttaflutnings þess eða kallað eftir brottrekstri háskólakennara vegna gagnrýnna skrifa hans um Framsóknarflokkinn. Einnig hefur verið vísað til mikilvægis þess að hér ríki tiltekin samfélagssátt, gagnrýni á stjórnvöld eða byltingarkenndar hugmyndir stjórnmálaflokka eins og Pírata sé einhvers konar aðför að tilteknum samfélagsgildum og jafnvel ógn við lýðræðið.
Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði nýlega í tilefni málþófs stjórnarandstöðunnar á Alþingi að virða þyrfti niðurstöðu kosninga, læsi fólk stjórnarskrána væri skýrt að meirihlutinn réði, en á Alþingi virtust gilda önnur lögmál. Það má taka undir það sjónarmið að málþóf sé ekki endilega besta leiðin til að tryggja lýðræði. Þessi viðhorf endurspegla þó þann skilning á lýðræðinu að þar hljóti meirihluti sem kosinn er til valda í lýðræðislegum kosningum að vera nánast einráður um völd, minnihlutinn verði í raun bara að sætta sig við að hafa orðið undir.
Rökstyðja má að þetta sé talsverð afbökun á því hvernig lýðræðisleg umræða og -stjórnarhættir ættu að virka eins og bent er á hér. Segja má að stjórnmál einkennist af viðurkenningu á tilvist annarra viðhorfa og hagsmuna. Því skuli stefna að því að reyna að komast að einhverri niðurstöðu sem flestir geta sætt sig við. Hugsanlega liggur fegurðin í lýðræðinu einmitt í ófullkomleika þess, að það mun alltaf verða málamiðlun, miðjumoð og heitar umræður.
Þess vegna mun aldrei ríkja sú algera sátt um alla hluti sem stundum er kallað eftir og ekki er nauðsynlegt að tryggja að allt sé til fyrirmyndar samkvæmt nákvæmri forskrift ákveðins hóps – þaðan af síður einstaklings. Slíkt hefur verið reynt og hefur vægast sagt tekist mjög illa til. Þess vegna hafa menn komist að því að þrátt fyrir allt vesenið sé lýðræðið þrátt fyrir allt besti kosturinn.
Hvers vegna þrífst þá einræði eða alræði, hvers vegna vill fólk sterkan leiðtoga?
Eitt aðalatriðið hér er það sem kalla mætti siðvitund samfélagsins og hvernig stjórnmálamönnum tekst að telja fólki trú um að þeirra stefna endurspegli hana. Eins og fram kemur í samræðunum á milli Gorgíasar og Sókratesar taldi Gorgías sig geta gert hvern þann sem hann kenndi mælskulist að mælskumanni sem gæti sannfært fjöldann um hvað sem væri án þess að vita í raun mikið um málið. Mælskumaður gæti þannig verið trúverðugri en læknir þótt umræðuefnið væri læknisfræði og læknirinn vissi í raun mun meira.
Sé horft til kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum í dag virðist þessi eldgamli vísdómur í fullu gildi því þar leyfa frambjóðendur sér að skilgreina veruleikann eftir eigin höfði, mála veröldina í einföldum litum – stundum bara svarthvítum – sem virðist eiga greiða leið að ákveðnum hópi kjósenda. Frjálslyndi og lýðræði sem veldur hryðjuverkaógn, straumi innflytjenda og atvinnuleysi, hefur þá ekki mikið vægi í hugum fólks.
Þessi aðferð, að taka sér eins konar skilgreiningarvald, er alþekkt og var í raun grundvöllur alræðisstjórnarfarsins á dögum Stalíns í Sovétríkjunum, sem er eitt ýktasta dæmi um hvernig slíkt stjórnarfar þróast. Yfirvaldið, einræðisherrann Stalín í þessu tilfelli, gat skilgreint hvað var rétt og rangt, úthýst hinu óæskilega og tekið á dagskrá það sem viðeigandi þótti samkvæmt hugmyndinni um hið endanlega fullkomna samfélag.
Þetta má vel heimfæra á nútímann, því í ástandinu sem nú ríkir má ætla að erfitt sé fyrir hinn almenna borgara að gera greinarmun á sannleika og lygi. Nú sem þá er með skjótum hætti hægt að snúa orðræðunni á þann veg að fundnir eru sökudólgar, aðferð sem krefst ekki mikillar rökrænnar skilgreiningar. Þessi aðferð hentar því ekki einungis æðstu valdhöfum heldur hópum á öllum stigum. Hinn almenni borgari á þannig auðvelt með að finna skýringu á bágum kjörum sínum, t.d. vegna aukins fjölda innflytjenda.
Þegar talað er í anda Donalds Trump, eða Victors Orbans í Ungverjalandi, taka menn sér réttinn til skilgreiningar á samfélaginu, hvað það sé sem geri það gott og eftirsóknarvert eða hvað það sé sem ógnar því. En þarna má jafnframt spyrja hvort veruleiki okkar sé almennt á einhvern hátt fyrirfram skilgreindur – sem síðan komi í veg fyrir að við myndum okkur sjálfstæðar skoðanir. Megum við mótmæla, gengur það gegn einhvers konar sáttmála að vera með uppsteyt og rugga bátnum?
Við erum hreinlega of upptekin og of þreytt til að nenna að standa í þessu
Aðalatriðið er kannski þetta, að fæst myndum við okkur skoðanir í tómarúmi og hinn vinnulúni almenni borgari hefur hvorki tíma né burði til að leggjast í rannsóknir á því hvað af því sem kemur fram í opinberri umræðu eigi fótfestu í raunveruleikanum og hvað ekki. Þess vegna eiga stjórnmálamenn sem mála veröldina í einföldum litum svo auðvelt með að móta umræðuna og mata fólk á því sem þeim sýnist. Venjulegt fólk sem er upptekið af lífsbaráttunni hefur hreinlega ekki orku aflögu til að pæla of mikið í hlutunum og þeim sem kemur með lausnina á silfurfati, og segist ætla að sjá um þetta fyrir þig, er því tekið fagnandi. Það er hvort sem er alltaf hægt að skipta um rás á sjónvarpinu, koma sér betur fyrir í sófanum og fá sér eitthvað gott í svanginn.