Síminn er með flesta áskrifendur í mælingum Meniga á áskriftum hjá fjarskiptafyrirtækjum, netþjónustu og miðlum. Nova er í öðru sæti og Vodafone í því þriðja. Þetta er einn af fáum útgjaldaflokkum sem Meniga mælir þar sem útgjöld aukast eftir því sem fólk verður eldra. Yngsti aldurshópurinn, 16 til 25 ára, eyðir um 7.000 krónum á mánuði í áskriftargjöld á meðan sá elsti, fólk yfir 66 ára, eyðir tæplega 30.000 á mánuði.
Kjarninn fékk tölulegar upplýsingar frá Meniga sem sýna neysluhegðun um 50.000 Íslendinga árið 2015. Úrvinnsla Meniga byggir á tölfræðilegum samantektum sem aldrei eru persónugreinanlegar. Tölurnar byggja á fjárhagslegum 16 milljón færslum 50 þúsund notenda sem veltu um 84 milljörðum króna árið 2015. Meniga greinir ekki eftir heimilum, heldur meðaltalsnotkun einstaklinga.
Fleiri notendur Meniga eru með áskrift að Skjánum en 365 miðlum. Skjárinn er með 6.640 áskrifendur en 365 miðlar með 6.480.
Apple, Spotify og Netflx eru ofarlega á listanum, með um 4.500 áskrifendur hver. Playmo.tv, sem Íslendingar nota til að komast inn á bandaríska Netflix, er með 2.670 áskrifendur. Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins, er í tíunda sæti á listanum, með 2.255 áskrifendur.