Hið gamalgróna og heimsþekkta danska fyrirtæki Bang &
Olufsen hefur um margra ára skeið átt í umtalsverðum rekstrarerfiðleikum. Margt
hefur verið reynt til að rétta skútuna af en þær tilraunir hafa ekki skilað viðunandi
árangri.
B&O, sem var stofnað 1924 í Struer á Jótlandi, hefur alla tíð einbeitt sér að framleiðslu útvarps-og hljómflutningstækja, síðar bættust sjónvörpin við. Áherslan var frá upphafi á hljómgæði og útlitshönnun. Tækin frá B&O hafa alla tíð verið dýr, samanborið við margt annað, enda yfirlýst stefna að höfða til kaupenda sem vilja vandaða vöru og leggja mikið uppúr útliti tækjanna.
Í kjölfar bankakreppunnar dróst einkaneysla saman, ekki síst á Vesturlöndum. Almenningur hélt, og heldur enn, fastar um budduna en á „góðærisárunum”. B&O er eitt þeirra fyrirtækja sem varð illa fyrir barðinu á samdrættinum. Þar að auki hefur breytt tækni og aukin áhersla margra framleiðenda á útlitshönnun orðið til þess að dönsku tækin frá Struer hafa ekki lengur þá sérstöðu sem þau höfðu áður, þrátt fyrir að hönnun og gæði séu enn í allra fremstu röð
B&O Play
Á árunum 2011 og 2012 setti B&O á markaðinn „Play” nýja vörulínu. Play vörurnar voru ódýrari en áður hafði þekkst frá B&O, þetta var tilraun fyrirtækisins til að mæta breyttum aðstæðum. Play vörurnar eru eigi að síður í dýrari kantinum, miðað við margt annað. Þótt salan á Play hafi gengið ágætlega hefur það ekki dugað til að skjóta nægilega styrkum stoðum undir reksturinn. Í fyrra seldi B&O bílahljómtækjaframleiðsluna, Automotive, til Harman fyrirtækisins fyrir um einn milljarð danskra króna (nítján milljarða íslenska). Við það tækifæri sagði forstjóri B&O að fyrirtækið hygðist stórefla sölustarfsemi sína í Asíu. Hann nefndi sérstaklega Kína og sagði að þar yrðu opnaðar fimmtíu B&O verslanir á næstu mánuðum. Síðar sagði forstjórinn að þeirri tölu hefði hann slegið fram „sí svona” en B&O er nú með fjörutíu og fimm verslanir í kínverska alþýðulýðveldinu.
Mikill áhugi í Asíu
Rekstrarerfiðleikar B&O hafa ekki farið leynt. Fyrir nokkrum mánuðum greindu danskir fjölmiðlar frá því að asískir raftækjaframleiðendur hefðu áhuga fyrir að kaupa B&O, að hluta eða jafnvel allt fyrirtækið. Þá höfðu ákveðnar „þreifingar” átt sér stað en lengra var málið ekki komið. Nú síðustu daga hefur hinsvegar komið fram hverjir „þreifararnir” eru. Dagblaðið Berlingske birti 19. mars viðtal við framkvæmdastjóra B&O. Þar greindi hann frá því að fyrirtækið hefði gert samvinnusamning við Suður-Kóreska fyrirtækið LG um framleiðslu á B&O sjónvarpstækjum. B&O mun áfram sjá um hönnun og framleiðslu sjónvarpskassans en LG hinsvegar innmatinn, eins og framkvæmdastjórinn orðaði það. „Sjónvarpsframleiðslan hefur verið steinninn í skónum” sagði forstjórinn. LG er næst stærsti framleiðandi sjónvarpstækja í heiminum (Samsung er sá stærsti) og framleiðir árlega um 40 milljónir sjónvarpstækja en B&O hefur framleitt um 30 þúsund tæki á hverju ári. „Það hafa verið erfiðir tímar hjá mörgum sjónvarpstækjaframleiðendum en við höfum nú samið við eitt öflugasta fyrirtækið á þessu sviði” sagði framkvæmdastjórinn. Gert er ráð fyrir að „samvinnusjónvarpstækin” komi á markaðinn árið 2017.
Kínverskur auðkýfingur vill eignast B&O
Fyrir þrem dögum greindi DR, Danska útvarpið frá því að kínverskur auðkýfingur, með aðsetur á Bresku Jómfrúreyjum vildi eignast öll hlutabréf í B&O. Kínverjinn, Qi Jianhong á lítinn hlut í B&O í gegnum félagið Sparkle Roll Group Limited (BVI) en hann á einnig samnefnt félag, án stafanna í sviganum, skráð í Hong Kong. Qi Jianhong hefur þegar átt í viðræðum við yfirstjórn B&O en þær viðræður eru á byrjunarreit og algjörlega óljóst til hvers þær muni leiða. Qi Jianhong þekkir vel til B&O því fyrirtækið hefur verið í samstarfi við hann í Kína, meðal annars varðandi áðurnefndar fjörutíu og fimm verslanir sem nú eru vítt og breitt í landinu.