Þegar
kjarnorkukapphlaup stórveldanna hófst fór af stað atburðarás sem er á skjön við
allt sem eðlilegt getur talist. Því er saga tveggja borga sem þar leika stórt
hlutverk, þ.e. Richland í Washington ríki í Bandaríkjunum og Cheyliabinsk í
Úralfjöllum í fyrrum Sovétríkjunum, einkar áhugaverð.
Árið 1942 hófu Bandaríkjamenn þróun kjarnorkuvopnatækninnar undir formerkjum Manhattan-áætlunarinnar og Sovétmenn, sem voru fullmeðvitaðir um ráðagerðir Bandaríkjamanna, fylgdu fljótlega í kjölfarið. Richland, sem var þá tiltölulega afskekktur smábær í Washingtonríki, var umbreytt í sérstaka borg og varð aðsetur starfsmanna hinnar umfangsmiklu Hanford-plútoníumverksmiðju. Sovétmenn fylgdu fordæmi Bandaríkjamanna í strjálbýlu skóglendi í Úralfjöllum. Þar var byggð hin sérhæfða borg Chelyabinsk-40, sem seinna varð Ozersk, þar sem bjuggu starfsmenn Mayak-plútoníumverksmiðjunnar.
Í verksmiðjunum tveimur Hanford og Mayak var framleiddur meirihluti alls þess plútoníums sem þurfti til vígbúnaðarkapphlaups stórveldanna tveggja á tuttugustu öld. Framleiðslan hafði mjög alvarlegar afleiðingar því hún gat af sér gífurlegt magn af geislavirkum úrgangi sem mengaði umhverfi verksmiðjanna. Bæði var það vegna ónógra öryggisráðstafanna en einnig var úrgangur losaður út í ár og jarðveg. Talið er að mengunin á hvorum stað hafi á 40 ára tímabili numið um tvöföldu því magni sem slapp út í umhverfið í Tjernobylslysinu í Úkraínu.
Svo virðist sem litlar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja öryggi fólks, jafnvel þótt yfirvöld hafi haft undir höndum gögn sem sýndu fram á hversu alvarlegt ástandið var. Bandarísk yfirvöld vissu m.a. um ástandið í Chelyabinsk en forðuðust að gera þá vitneskju opinbera því það hefði beint sjónum fólks að þeirra eigin ranni, hvar ástandið var lítið betra. Vígbúnaðarkapphlaup var hafið og takmarkið að framleiða eins mikið plútoníum og mögulegt var án truflana.
Fjöldi fólks veiktist og lést vegna geislunar og svæðin umhverfis verksmiðjurnar tvær eru meðal þeirra menguðustu á jörðinni. Sú spurning vaknar því hvernig gat þetta gerst án þess að brugðist væri við.
Sérstakar aðstæður í fyrirmyndarsamfélögum
Yfirvöld beggja ríkja höfðu safnað saman tugum þúsunda innfluttra farandverkamanna, jafnvel stríðsfanga, til að vinna við uppbyggingu plútoníumverksmiðjanna. Það gafst þó ekki vel. Meginþorri þess verkafólks var ungt og einhleypt og sýndi gjarnan af sér óábyrga hegðun, eins og drykkjuskap, slagsmál og lauslæti. Það var hegðun sem ekki var talin tilhlýðileg og yfirvöld töldu sig ekki geta treyst slíku fólki þegar hin viðkvæma plútoníumframleiðsla var annars vegar. Því þurfti að finna betri lausn til að manna verksmiðjurnar. Þess vegna voru þessar lokuðu borgir byggðar, borgir sem skyldu vera eftirsóttar að búa í og þangað valið fjölskyldufólk sem síður yrði til vandræða.
Það voru sterk líkindi með borgunum tveimur þrátt fyrir ólíkt stjórnarfar. Íbúarnir nutu alls konar fríðinda, fyrsta flokks skóla og mun hærri launa en almennt gerðist. Í Richland greiddi fólk málamyndaleigu og starfsfólk á vegum stjórnvalda hafði umsjón með húsnæði, plantaði trjám í görðum fólks og lagði til húsbúnað. Það sama var uppi á teningnum Sovétmegin þar sem íbúar Chelyabinsk nutu lífsgæða langt umfram það sem almennt tíðkaðist þar í landi.
Starfsmenn verksmiðjanna og fjölskyldur þeirra bjuggu því við mikil forréttindi. Virðist fólk hafa verið tilbúið að vinna og búa við aðstæður sem mögulega voru lífshættulegar í skiptum fyrir efnahagslega hagsæld. Umbunin sem fólst í áður óþekktum lífsgæðum var vissulega umtalsverð en skýringin kann einnig að liggja í virðingu fólks fyrir valdi, tryggð, föðurlandsást og trú á vísindi og tækni.
Í báðum tilvikum var fólk meðvitað um að það væri í framlínu þess sem kalla mætti óyfirlýst stríð. Borgirnar urðu hvor á sinn hátt ímynd þess draumasamfélags sem hinar ólíku stjórnmálastefnur í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum boðuðu. Umtalsverð fjárframlög bandaríska ríkisins tryggðu að Richland gat orðið sú borg þar sem ameríski draumurinn varð að raunveruleika um leið og Chelyabinsk varð ímynd draumsýnar hins fullkomna sósíalíska samfélags.
Athygli vekur að enginn af starfsmönnum Hanford-verksmiðjunnar virðist hafa verið tilbúinn að stíga fram og tjá sig um málið fyrr en komið var fram á áttunda áratuginn. Jafnvel þótt fólk gerði sér grein fyrir hættunni var ekki kvartað og enn í dag á fólk erfitt með að tjá sig um lífið í plútoníumborgunum tveimur. Ástæðan er líklega sú að íbúar borganna tveggja og starfsmenn áttu mjög óhægt um vik. Minnstu yfirsjónir eða kvartanir um aðbúnað á vinnustað, jafnvel hraðasekt gat þýtt brottrekstur úr borginni og varanlegan missi allra fríðinda.
Skaðabótamál fyrrum starfsmanna
Stjórnvöld beittu einnig ýmiss konar lagaákvæðum sem tryggðu leynd og komu í veg fyrir að gögn sem sýndu fram á heilsufarsvanda sem rekja mátti til geislavirkra efna væru gerð opinber, eða nýttust til málarekstrar. Þó hafa einhverjir sem enn þjást af sjúkdómum sem rekja má til geislamengunar reynt að sækja bætur til yfirvalda. Fyrrum starfsmenn hinnar rússnesku Mayak-verksmiðju eiga þó sumir hverjir í vanda þar sem þeir voru skilgreindir sem börn á þeim tíma sem um ræðir og voru því ekki skráðir formlegir starfsmenn, sem er forsenda bótaréttar samkvæmt rússneskum lögum.
Fyrrum starfsfólk í Hanford-verksmiðjunum bandarísku hefur einnig átti í erfiðleikum með að fá viðurkenndan rétt sinn til bóta og það þrátt fyrir að lagðar hafi verið fram læknisfræðilegar rannsóknir. Bandaríska kjarnorkumálastofnunin hafnaði til að mynda þegar árið 1948 að rannsaka frekar hvort tenging gæti verið milli krabbameins og mengunar í verksmiðjunum og nágrenni þeirra. Stofnunin sjálf og seinna orkumálaráðuneyti Bandaríkjastjórnar hafa jafnframt verið gagnrýnd fyrir að þegja um málið, kæfa umræðu og hafna sönnunargögnum um mengun.
Hér skiptir máli það sem kallað hefur verið sérstöðuhyggja kjarnorkunnar (e. Nuclear exceptionalism). Sérstöðuhyggju mætti lýsa á þann hátt að allt sem viðkemur kjarnorkunni er talið svo sérstakt og óvenjulegt að það nýtur algerrar sérstöðu. Er það sakir þess hversu öflug, flókin og dýr tæknin er og hversu auðvelt er að fella kjarnorkuna undir ýtrustu þjóðarhagsmuni. Því ríkir gjarnan leyndarhyggja um kjarnorkumál og þannig er þeim oft haldið utan stofnana samfélagsins.
Athyglisvert er að þetta ástand átti við á báðum vígstöðvum, eins ólíkar og þær voru. Hvort sem um var að ræða það sem okkur er kennt að sé frjálst og opið lýðræðisþjóðfélag eða lokað alræðisskipulag. Og enn í dag ríkir sérstöðuhyggja í kjarnorkumálum. Allt sem viðkemur kjarnorku lýtur sérstökum lögum og reglum, bæði innan ríkja og í alþjóðasamfélaginu, sem kemur í veg fyrir lýðræðislegar ákvarðanir og -stefnumótun.
Eftir að rannsókn á vegum Washingtonríkis, sem kunngerð var árið 1974, staðfesti að starfsmenn Hanford-verksmiðjunnar hefðu margir hverjir veikst af krabbameini, réði bandaríska kjarnorkumálastofnunin vísindamanninn Thomas Mancuso til að gera í skyndi sjálfstæða rannsókn. Þegar hann neitaði síðar að skrifa undir yfirlýsingu stofnunarinnar, þar sem hafnað var öllum ásökunum um þátt verksmiðjunnar í krabbameinstilfellum, var sjálfstæð rannsóknastofun fengin í verkið. Niðurstaða hennar var þvert á niðurstöður Mancusos, eða að engin tengsl væru á milli dauðsfalla starfsmanna og þess að þeir hefðu orðið fyrir geislun.
Ennfremur var rannsóknin talin leiða í ljós að veikindi eins og skjaldkirtilsjúkdómar, sem rekja mætti til geislunar, væru síst meiri á svæðum sem hefðu orðið fyrir geislamengun en á öðrum svæðum. Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna sá sig þó knúna til að gefa út yfirlýsingu þar sem sagt var að það væri fulllangt gengið að segja að geislun hefði þarna engin áhrif. Þrátt fyrir þessar óljósu niðurstöður, sem í raun drápu umræðunni á dreif, hafa nokkrir fyrrum starfsmenn unnið málsóknir á hendur Hanford-verksmiðjunum.
Plútoníum var síðast framleitt á Hanford-svæðinu árið 1987 en þar er þó enn kjarnorkuver og ýmiss konar þróunar- og rannsóknarstarfsemi sem tengist kjarnorku. Bandaríska ríkið losaði um tengsl sín við Richland árið 1957, íbúarnir áttu þess kost að kaupa hús og íbúðir af ríkinu og borgin varð eins og hver önnur bandarísk smáborg.
Svæðin sem um ræðir eru eins og áður sagði nú talin með þeim menguðustu á jörðinni. Í Bandríkjunum er áætlun um flókið og erfitt hreinsunarstarf komin af stað. Auk þeirrar mengunar sem tilkomin er vegna lélegs umbúnaðar í Mayak-verinu rússneska, hafa þar orðið nokkur meiriháttar óhöpp sem fóru aldrei hátt en kostuðu hundruð manna lífið og hundruð þúsunda urðu fyrir geislun. Borgin Cheyliabinsk-40, sem nú heitir Orzersk, er því á lokuðu svæði og er nú miðstöð endurvinnslu og eyðingar kjarnorkuúrgangs í Rússlandi. Þar eins og við Hanford bíður umfangsmikið hreinsunarstarf sem seint mun verða lokið.
Sjá nánar
Abraham, I. (2004). Notes toward a Global Nuclear History. Economic and Political Weekly .
Brown, K. (2010). The Forsaken: The Unfinished Business of Making Plutonium in Russia. International Labor and Working-Class History , 137–144.
D'Amato, A. A. (1967). Legal Aspects of the French Nuclear Tests. The American Journal of International Law , 66-77.
Flank, S. (1993-4). Exploding the Black Box: The Historical Sociology of Nuclear Proliferation. Security Studies , 259-94.
Hecht, G. (2006). Nuclear Ontologies. Constellations Volume , 320-331.
Jenks, A. (2007). Model City USA: The Environmental Cost of Victory in World War II and the Cold War. Environmental History, , 552-577.