„Hey, manstu eftir mér? Benny Blanco úr Bronx-hverfinu? (Hey, remember me? Benny Blanco from The Bronx?)“. Margir mun eftir þessari setningu úr stórmyndinni Carlito‘s Way, sem endurspeglar undirheima New York borgar á áttunda áratug síðustu aldar. Myndin, sem kom út 1993, segir frá Carlito Brigante, sem Al Pacino leikur óaðfinnanlega, og vegferð hans um glæpastiginn í harðgerðu svörtu hagkerfi New York-borgar, þar sem hverfaklíkur berjast um völdin. Benny Blanco var banabiti Brigante, þegar upp var staðið.
Sjálfstæð hverfi
En þó afþreyingariðnaðurinn hafi séð til þess, að hin ýmsu hverfi New York séu þrykkt í minni fólks með tengingu við svarta hagkerfið, þá er raunveruleikinn annar og betri. Líkt og minnst var á í umfjöllunum um Harlem, Brooklyn og Queens, þá á Bronx sér sjálfstætt líf sem hagkerfi, en New York borg hefur unnið eftir skipulagðri stefnu, allt frá því Rudy Giuliani tók við sem borgarstjóri árið 1994, að efla hverfin innan frá, ekki síst í gegnum skipulag borgarinnar. Michael Bloomberg, borgarstjórinn sem tók við af Giuliani 2001, fylgdi þessari stefnu síðan áfram, og það sama hefur De Blasio gert, sem nú er borgarstjóri. Markmiðið er að stuðla að meiri sjálfbærni í hverfum, með það í huga að efla heildarmynd borgar-hagkerfisins.
Einn af máttarstólpunum í ímynd New York, heimavöllur hafnaboltaliðsins New York Yankees (Yankess Stadium), er í Bronx líkt og hinn risavaxni dýragaður Bronx Zoo. Þá hefur Fordham háskóli höfðuvígi sitt í hverfinu, en starfsemi hans teygir sig þó víðar um borgina.
Fjölbreytt mannlíf
Í Bronx býr um 1,5 milljón manna, og eru um 40 prósent íbúa svartir. Í heildina búa um 8,9 milljónir manna í New York borg. Um 40 prósent íbúa eru hvítir sem er mikil breyting frá því sem var um miðja síðustu öld þegar um 96 prósent íbúa voru hvítir Bandaríkjamenn. Nú kemur fólk víða að úr heiminum, Afríku, Asíu og Suður-Ameríku ekki síst.
Af fólki 25 ára og eldri er tæplega 30 prósent með BA gráðu úr háskóla eða meira, sem telst fremur lágt miðað við önnur hverfi borgarinnar. Vinnumarkaðurinn í hverfinu er stór, um 500 þúsund manns, en til samanburðar er heildarvinnumarkaðurinn á Ísland 194 þúsund manns.
Spænska móðurmál hjá flestum
Tæplega 800 þúsund íbúar af heildarfjöldanum eru spænskumælandi, og hefur það mikil áhrif á menningarstrauma og atvinnulíf. Þjónustustörf, ekki síst í verslunar- og veitingargeiranum, eru stór hluti af heildarjfölda starfa í hverfinu, en opinber störf eru einnig fjölmörg, ekki síst í kringum Fordham-háskóla, sem er hálfopinber háskóli, söfn, íþróttaleikvanga á svæði New York borgar, skólum og samgönguæðum hverfisins. Einkageirinn hefur vaxið undanfarin ár umtalsvert, eða um rúmlega fjögur prósent á ári, samkvæmt upplýsingum New York borgar. En ákveðinn hluti Bronx-hverfisins, suður-Bronx, er þar undanskilinn.
Þar hefur gengið erfiðlega að brjóta á bak aftur fátækt og félagslega erfiðleika. Þar er atvinnuleysi meira en 20 prósent en í hverfinu heilt yfir er það 8,3 prósent, sem er það hæsta af öllum fimm kjarnahverfum New York borgar (Manhattan, Queens, Brooklyn, Staten Island, og Bronx). Um 14,8 prósent af heildaríbúafjölda hverfisins býr við fátæktarmörk eða undir þeim, og er nær allur sá hópur í suðurhluta Bronx.
Að meðaltali eru hverfin í New York með rúmlega fimm prósent atvinnuleysi en á landsvísu er það litlu minna, eða 4,9 prósent.