„Nýjasta uppfinningin í brotastarfsemi er erlent, ungt fólk, sem fengið er hingað til sjálfboðaliðastarfa eða í starfsþjálfun, og er bara notað í undirboði á vinnumarkaði. Við sjáum þetta fyrst og fremst í ferðaþjónustunni og í landbúnaði og í blandaðri starfsemi út á landsbyggðinni,“ segir Halldór Grönvald, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. Hann segir að algengt sé orðið að ungmenni fái fæði og húsnæði í staðinn fyrir vinnuframlag. Engir ráðningarsamningar séu gerðir og engir launaseðlar gefnir út.
Málþing á vegum Vinnumálastofnunar var haldið miðvikudaginn 20. apríl í Gamla bíó. Fjölbreyttur hópur viðmælenda tók til máls og voru allir sammála um að taka þurfi vel á móti því erlenda starfsfólki sem vilji vinna á Íslandi. Það þurfi að huga vel að réttindum þeirra og koma í veg fyrir brotastarfsemi hjá íslenskum og erlendum fyrirtækjum. Halldór kynnti meðal annars herferðina Einn rétt - Ekkert svindl sem gengur út á það að vinna gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi.
Ánægjuleg þróun
„Til þess að manna þessi störf munum við fyrst og fremst þurfa að treysta á erlent launafólk og að einhverju leyti ungmenni sem eru að vinna fyrir skóla eða vilja taka þátt í atvinnulífinu. Auðvitað er þetta ánægjuleg þróun,“ segir Halldór um ástandið í dag á vinnumarkaðinum. Hann bendir á að atvinnuleysi sé lítið og almenn uppsveifla sé í samfélaginu. Hann segir að við ættum að fagna þessu og taka vel á móti þeim útlendingum sem hér koma til að vinna og eru tilbúnir til að taka þátt í uppbyggingu á íslensku atvinnulífi. Enda séu þeir og fyrirtæki, sem fá þá hingað til lands, að gera það á réttum og lögmætum forsendum.
Margir hafa ekki þekkingu á réttindum sínum
En Halldór segir að þessi þróun eigi sér þó skuggahlið. Að hans mati er vandinn stærstur í byggingar- og ferðamannaiðnaðinum, þrátt fyrir að auðvitað finnist svört starfsemi í öðrum greinum í samfélaginu. „Brotastarfsemi beinist að þeim sem eru veikastir fyrir á vinnumarkaði. Þessir aðilar hafa minnsta þekkingu á réttindum sínum. Þeir hafa minnsta þekkingu á vinnumarkaðinum og þeim reglum sem gilda,“ segir hann. Þetta á bæði við um þá útlendinga sem hingað koma og unga fólkið sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
„Við höfum hér fjölda heiðarlegra fyrirtækja sem virða lög og reglur. En hvernig birtist þessi brotastarfsemi?“ spyr Halldór. Í fyrsta lagi sé brotið á erlendu verkafólki og ungu fólki. Kjarasamningar séu ekki virtir hjá íslenskum fyrirtækjum en hægt sé að sjá mörg dæmi þess. Launin séu undir lágmarkskjörum samkvæmt kjarasamningum og starfsréttindi og starfsreynsla séu ekki viðurkenndar. „Hér er að koma fullt af vel menntuðu fólki, iðnaðarmönnum og fólki með aðra menntun frá Evrópu en það er verið að setja það á lágmarkslaun hér. Það er eitt af stóru vandamálunum á vinnumarkaði; þ.e.a.s. að virða ekki starfsréttindi og starfsreynslu,“ segir Halldór.
Hann segir að þau hjá ASÍ heyri oft að yfirvinnu- og vaktavinnulaun séu ekki greidd og að fólk viti ekki um réttindi sín ef slys eigi sér stað. Einnig sé greitt svart og ekki í sameiginlega sjóði. Starfsmönnum sé þannig haldið utan við samfélagið til þess að þeir sæki ekki réttindi sín. Þetta á við um erlend fyrirtæki sem íslensk.
Herða þarf viðurlög
Brotastarfsemin tekur á sig ýmsar myndir og fer vaxandi. Halldór segir að við henni þurfi að bregðast. „Í fyrsta lagi þarf að upplýsa fyrirtæki um skyldur þeirra og ábyrgð. Bæði íslensku fyrirtækin og þau erlendu,“ segir hann. „Að upplýsa erlent launafólk um réttindi þess og skyldur og íslenskan vinnumarkað er mjög mikilvægt. En það er erfitt og flókið, því við þurfum að ná til þeirra. Við þurfum að ná eyrum þeirra og við þurfum að fá þau til að hlusta á okkur. Það er oft erfitt vegna þess að þau eru óttalegin og hrædd við það að eiga nokkur samskipti við okkur.“ Hann telur að öflugt eftirlit á vinnustöðum sé lykillinn og samstarf þeirra aðila sem málin varða. „Til þess að upplýsa, til þess að kanna og fylgja eftir ef þörf krefur. Við þurfum líka harðari viðurlög og við þurfum að beita þeim af fullri hörku,“ segir Halldór. Hann telur að þeir sem brjóta af sér eigi að vera refsað þannig að þeir viti að það bjóðist ekki fleiri tækifæri.
Allir bera ábyrgð
„Ábyrgðin er okkar allra,“ segir Halldór. Hann á þá við verkalýðshreyfinguna, stjórnvöld, vinnumálastofnun, ríkisskattstjóra, vinnueftirlitið, lögregluna og jafnvel sveitafélögin og Samtök atvinnulífsins. Hann segir að þetta mál varði alla og að samstarfið hafi þegar skilað árangri en að það þurfi samt að efla það enn frekar.
Halldór skaut föstum skotum að Samtökum atvinnurekenda, þar sem hann sagði að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með samtökin. Hann kallaði eftir því að fá samtökin með í þessa vegferð, því það væri þau sem ættu að stuðla að heilbrigðri atvinnustarfsemi og þau fyrirtæki sem eru með hlutina í lagi.
Hann bendir einnig á að fjölmiðlar beri sína ábyrgð. Það væru þeir sem mótuðu almenningsálitið, þeir kæmu upplýsingum á framfæri og svo framvegis. Þetta væri verkefni fyrir samfélagið allt.
Okkar vandamál lúxusvandamál
Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, tók einnig til máls á málþinginu. Í erindi sínu veltir hann fyrir sér umfangi vandamálsins og segir að oft sé athyglinni beint að því sem illa gangi og minna að því sem gangi vel. „Ég held að aðrar þjóðir myndu kalla okkar vandamál lúxusvandamál, samanborið við þau vandamál sem þær eru að glíma við. Við erum og höfum verið tiltölulega fámenn eyja. Við höfum verið varin gagnvart umheiminum,“ segir hann.
Hann segir að Íslendingar verði frekar varir við það ef eitthvað er í ólagi. „Við höfum sett okkur markmið sem aðrar þjóðir telja óraunhæf,“ segir hann og á meðal annars við upprætingu lögbrota á Íslandi. Þetta er að einhverju leyti óraunhæft, segir hann. „Við verðum því miður alltaf með einhverja glæpastarfsemi.“
„Við ættum að geta gert góða hluti til að draga úr vandamálinu eins og hægt er. En við gerum það ekki með því að loka landinu,“ segir Ragnar. Hann segir að velmegun og hagvöxtur hafi byggst á því að hér sé störfum fjölgað og teknir hafi verið inn starfsmenn frá öðrum löndum til þess að fylla þessi lausu störf til þess að skapa verðmæti.
Fólk og fyrirtæki freistast til að svindla
Ragnar telur að freistnivandinn sé útbreiddur vandi í samfélaginu. Þar á hann við þann vanda að neytendur sæki í ódýrari vörur og þjónustu. Fólk sé líka tilbúið að gefa afslátt af launum eða fara að vinna í sjálfboðaliðastörfum í ævintýraleit. „Þetta er sú samfélagsmynd sem við sjáum í kringum okkur,“ segir hann. Ragnar telur að það sé erfitt fyrir íslenska ferðaþjónustu að vera í samkeppni við lönd sem eru ekki með kjarasamninga. Þá sé það ákveðin freistni að reyna að halda niðri kostnaði með ólögmætum hætti.
Gott að búa í litlu samfélagi
„Það sem er jákvætt í þessu umhverfi sem við búum í dag er hvað við búum þó í litlu samfélagi. Og við getum átt auðveldara með að hafa yfirsýn yfir markaðinn,“ segir Ragnar. Í þessu litla samfélagi þá verða brot meira áberandi að hans mati. Hann segir að við megum ekki taka kjarasamningana sem sjálfsagða. Að lokum gerir Ragnar þá kröfu að allir virði kjarasamningana og að þau hjá Samtökum atvinnulífsins fordæmi svarta atvinnustarfsemi.