Mikil umræða skapaðist á samfélagsmiðlinum Twitter í kjölfar uppljóstrana úr Panamaskjölunum í byrjun apríl. Almenningur og stjórnmálamenn létu rödd sína heyrast undir myllumerkjum og hefur umræðan einnig opnast fyrir skapandi tístum og beittum athugasemdum. Myllumerkið #cashljós var uppspretta umræðna og má segja að Twitter-samfélagið hafi sprungið út sem aldrei fyrr. En eru áhrifin eins mikil og ætla mætti? Eru þau einhver?
Byltingum hefur áður verið hrint af stað á Twitter undir myllumerkjum eins og #FreeTheNipple, #Þöggun og #Égerekkitabú þar sem markmiðið var að opna á umræðu um birtingu brjósta og geirvarta á samfélagsmiðlum, kynferðisofbeldi og geðræn vandamál. Kjarninn náði tali af nokkrum tísturum og álitsgjöfum til að spjalla um þessa nýju umræðumenningu á Íslandi.
Nýtt myllumerki fæðist
„Það þarft að úthugsa aðalatriðið. Það er ekkert pláss til að fara í einhverjar langlokur,“ segir Haukur Bragason, tístari og athafnamaður, um kosti umræðu á Twitter. Hann er hálfgerður nýliði á miðlinum en hefur verið virkur í rúmt ár, eða frá því að FreetheNipple-byltingin byrjaði. Hún opnaði Twitter-heiminn fyrir honum. Hann sá hvað þetta virkaði hratt og vel í fjölmiðlaumræðu.
Myllumerkið #cashljós fæddist á síðunni hans en hann auglýsti eftir svokölluðu „hashtaki“ til að nota kvöldið sem fyrsti Kastljósþátturinn var sýndur 3. apríl. Úr varð að nota #cashljós en hugmyndin kom frá Liljari Þorbjörnssyni. Næstu daga og vikur var þetta merki notað til að færa notendur saman í umræðu tengda Panamaskjölunum. Haukur segir að með notkun myllumerkis sé auðveldara fyrir hinn almenna lesanda að fylgjast með umræðunni og einnig auðveldar það fjölmiðlavinnu eftir á.
Yngra fólk virkara á Twitter
Haukur segir töluverður munur sé á Twitter og Facebook. Það sé afmarkaðri hluti af samfélaginu á Twitter og yngra fólk sé virkara á því. Twitter bjóði einnig upp á praktískan vinkil á umræðuna sem hann telur betra en hjá Facebook. Hann bendir einnig á að hver sem er geti skoðað það sem sagt er á Twitter því síðan sé opin öllum. Það þurfi ekki einu sinni að vera með reikning. Hann telur það líka gott að íslenska Twitter-samfélagið sé laust við „virkir í athugasemdum.“ Hann segir að Twitter-samfélagið eigi eftir að halda áfram að stækka en hann vonar samt sem áður að það eigi eftir að haldast í svipuðu horfi.
Hvað verður „viral“?
„Ég held að samfélagsmiðlar almennt og umræðan á netinu hafi haft áhrif á pólitíska umræðu. Mikið af fólki fær í rauninni eingöngu fréttir í gegnum samfélagsmiðla í stað þess að fara sjálft á fréttamiðla,“ segir Iris Edda Nowenstein, tístari og málfræðingur. Hún talar um samfélagsmiðla sem linkamenningu. „Við skoðum það sem vinir okkar eða þeir sem við fylgjum deila. Þetta gerir það að verkum að þær upplýsingar og skoðanir sem komast helst til skila og móta hugmyndir fólks eru þær sem verða „viral“, komast í rosalega dreifingu á samfélagsmiðlum,“ segir hún.
Og þetta hefur ýmislegt í för með sér, telur Iris. Það sem helst kemst í dreifingu hafi kannski ákveðin einkenni - það sé krassandi, sýni eitthvað ótrúlegt eða þá að það hafi einhvern persónulegan vinkil sem fólk laðast að. „Þetta gerir það kannski að verkum að þeir sem skrifa og er skrifað um leitast eftir því að framleiða efni sem gæti verið gripið með þessum hætti. Ég held að þetta eigi bæði við um blaðamenn og stjórnmálamenn,“ segir Iris.
Samfélagsmiðlar hafa umbylt skipulagningu mótmæla
Iris segir að ekki megi gleyma því að samfélagsmiðlar hafi umbylt skipulagningu mótmæla. „Ef við einblínum á Twitter sérstaklega þá er jafnvel gengið ennþá lengra í þessum einföldunum, þar sem maður hefur bara 140 slög til þess að koma einhverju frá sér.“ Hún segir að það sem verði vinsælast sé einmitt yfirleitt eitthvað fyndið, hnyttið eða beitt eða eitthvað sem fólk tengir mikið við.
„Það er eiginlega óhjákvæmilegt að það feli í sér ákveðnar einfaldanir og jafnvel sköpun á nýjum veruleika, þar sem eitthvað getur komist í umferð án þess að vera satt og þannig mótað skoðanir fólks. Það er kannski að einhverju leyti varhugavert ef þetta verður eftirsóknarverð framsetning á efni hjá stjórnmálamönnum og það eru náttúrulega nokkrir þingmenn sem hafa verið áberandi í umræðunni á Twitter,“ segir Iris.
Hún telur aftur á móti að tengslin við almenning verða kannski meiri við stjórnmálamenn og að þeir geti tekið þátt í umræðunni með beinni hætti, án þess að þeim sé hlíft af formfestunni sem er fólgin í samskiptum við blaðamenn.
Myllumerkin mikilvæg
Önnur sérstaða Twitter, að mati Irisar, er að umræðuefni geta orðið „viral“ með þessum myllumerkjum sem skapa umræðuvettvang og þegar öll virknin safnast svona saman á einum stað er auðvelt að fá það á tilfinninguna að allt sé að springa. „Vitundarvakning, bylting, ég veit ekki hvað. Svo er þetta mögulega tiltölulega fámennur hópur fólks á bak við þetta,“ segir Iris.
Iris telur að Twitter-miðillinn sé þess eðlis að umræðan á honum geti orðið mjög áberandi. Ólíkt Facebook sé allt opið, sem hefur það kannski að verkum að það myndist minni skoðanabóla en þar þó hún sé vissulega til staðar á Twitter líka og sumar skoðanir vinsælli en aðrar. „Fjölmiðlar sækja sér oft almennt efni, frekar en tiltekinn Facebook-status, á Twitter og setja það fram sem umræðuna í þjóðfélaginu.“
Er meiri virðing borin fyrir Twitter?
Iris segir að það sé eins og það sé meiri virðing borin fyrir því sem kemur á Twitter en efninu frá „virkum í athugasemdum“ til dæmis, eins og Haukur benti líka á. Kannski er ástæðan sú það sé minna um hatur og persónuárásir og jafnvel stafsetningarvillur, segir hún. „Þessir þættir safnast allir saman og ég held þeir hafi áhrif bæði á umræðu og stjórnmálin sjálf, en það er kannski misjafnt eftir stjórnmálamönnum og jafnvel flokkum hversu mikið er tekið mark á þessu.“
Snarpara og hnitmiðaðra
„Ég myndi segja að þetta hafi verið að þróast í mjög jákvæða átt,“ segir Bragi Valdimar Skúlason, virkur tístari og „allskonar annað“, um Twitter-samfélagið. Hann segir að ekki hafi verið svo mikil pólitík á miðlinum hingað til en af og til gjósi hún upp. Sérstaklega eftir atburði síðastliðinna vikna. „Þetta sést best þegar allir sitja og góna á sama hlutinn, allt frá sjónvarpsþáttum til risavaxinna fjölmiðlaviðburða,“ segir hann.
Bragi Valdimar segir að mikið sé verið að djóka á Twitter en þó séu oft þung högg inn á milli. Mikill munur sé á umfjöllun á Facebook og Twitter. Twitter sé mikið snarpara og hnitmiðaðra. Hann segir að skýrasta dæmið um áhrif Twitter hér heima hafi verið FreetheNipple-byltingin í fyrra en hann telur að þá hafi fólk fattað að það gæti virkilega haft áhrif í sameiningu. Fjölmiðlar taki upp ummæli af Twitter og fólk endurtísti. „Fólk espast upp og finnur að aðrir eru að lesa. Þannig getur það troðið sér inn í umræðuna,“ bætir hann við.
Fjölmiðlar fylgast með
Braga Valdimar finnst Twitter-umræðan vera heilt yfir heilbrigð og málefnanleg — og hressandi. Hann segir að allir orðaleikir séu afgreiddir fljótt og örugglega allir mögulegir brandarar um hvert málefni sagðir. „Það er mjög gaman að fylgjast með þessu,“ segir hann. „Þetta kemur í bylgjum og fólk hefur ýmislegt gott til málanna að leggja.“
„Ég held að fólk fylgist alltaf meira og meira með því sem er að gerast á Twitter,“ segir Bragi Valdimar. Hann segir augljóst að það sem þar fer fram hafi áhrif, sérstaklega í svona róti sem gengur nú yfir samfélagið og að efnisþyrstir fjölmiðlar og taugatrekktir almannatenglar fylgist grannt með.
Hann segir að umræðan í samfélaginu verði oft einhliða en þetta sé vettvangur þar sem hægt sé að skiptast á skoðunum. Fólk sé fljótt að koma og sigta út bullið. „Það er mjög áberandi hvað þetta er í raun málefnanlegt og umfram allt sjúklega skemmtilegt,“ segir hann.
Hálfgerður elítumiðill
Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og dósent við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hefur verið að velta fyrir sér þeim breytingum sem átt hafa sér stað í fjölmiðlaumhverfi á Íslandi, til dæmis hvernig flokkar og stjórnmálamenn komi boðum áleiðis. Hann spyr sig hvaða leiðir frambjóðendur séu að nota og hvernig sé best að ná eyrum almennings.
Birgir segist ekki hafa lagt sig mikið eftir Twitter og að miðillinn sé talinn hálfgerður elítumiðill, þar sem blaðamenn, íþróttaáhugamenn og stjórnmálamenn séu samankomnir. Almenningur sé ekki svo mikið á Twitter.
Facebook vinsælla hjá stjórnmálamönnum
Birgir segir að hann hafi verið að tala við frambjóðendur í pólitík síðan árið 2010 um notkun samfélagsmiðla. Í rannsóknum sínum komi fram að stjórnmálamenn noti samfélagsmiðla sífellt meira með hverju árinu sem líður og að Facebook sé sá samfélagsmiðill sem notaður er mest, bæði hér á Íslandi og á Norðurlöndunum. Gríðarlegur munur sé á notkun miðlanna, en í könnun frá árinu 2013 kemur fram að frambjóðendur í alþingiskosningunum sama ár notuðu Facebook í 88 prósent tilvika en Twitter í 18 prósent. En síðan eru liðin mörg ár.
Almenningur orðinn fréttastjóri
Þetta eru hugmyndir sem fræðimenn velta fyrir sér núna; samspil umræðu og pólítíkur. Stjórnmálamenn hafa lengi nýtt sér hina hefðbundnu miðla en Birgir segir þá einmitt laga sig að starfsemi og lögmálum fjölmiðlanna. Þeir læri á það hvað virkar í viðkomandi fjölmiðlaumhverfi. Þeir þurfi að ná til áheyrenda með sem bestum leiðum.
Það sem hefur gerst núna, segir Birgir, er að aðferðafræðin hefur breyst. Það sé ekki lengur aðeins einn fréttastjóri sem ákveði hvað sé frétt og hvað ekki heldur ráði nú fréttamat mörg þúsund einstaklinga sem deili efni í gegnum samfélagsmiðlana. Núna reyni stjórnmálamenn og blaðamenn að finna efni sem höfðar til einstaklinga og fær þá til að smella á það og deila enda eru slíkar deilingar mikilvæg dreifingarleið. Þetta ýti undir persónulegri nálgun því það sem tengir fólk og fær það til að deila frétt er ekki að það sé að hugsa um almannahag eða þjóðfélagslegt mikilvægi, heldur er það í flestum tilfellum einfaldlega að deila einhverju áhugaverðu með vinum sínum. „Það eru mikil tengsl milli venjulegra miðla og samfélagsmiðla, það er sem sagt samband þarna á milli. En flækjustigið fyrir þá sem vilja taka þátt í og hafa áhrif á þjóðfélagsumræðu vex aftur á móti mikið í kjölfarið,“ segir hann.
Heimsmynd blaðamanna mótist af netinu
Birgir telur að þó að á Twitter séu hópar eða elítur frekar en hinn almenni borgari, hafi umræðan þar engu að síður áhrif og stjórni henni jafnvel. Og að hún hafi áhrif á hefðbundnu fjölmiðlana líka. Til dæmis hafði #cashljós-umræðan áhrif meðal fjölmiðla og innan þess geira.
Gerð var könnun meðal blaðamanna árið 2012 og kom meðal annars fram að þeir teldu sjálfsritskoðun vera í 45% tilfella í fagstétt þeirra. Birgir telur að blaðamenn taki almennt tillit til umræðu á netinu og hann segir að heimsmynd þeirra mótist af þessu umhverfi. Fréttamatið mótist þar af leiðandi líka af því. Það sama má segja um viðhorf og umræðu hjá blaðamönnum og stjórnmálamönnum. Þessir tveir starfshópar séu uppteknir af því hvað öðru fólki finnst.
Íslensk Twitter-menning skapaðist fyrst meðal íþróttaáhugamanna
Baldvin Þór Bergsson, þáttastjórnandi Kastljóss á RÚV og stjórnmálafræðingur, hefur rannsakað áhrif samfélagsmiðla á pólitískan áhuga og þátttöku. Hann bendir í fyrsta lagi á að Twitter sé tiltölulega nýr miðill og að íslenskur almenningur hafi ekki verið virkur þar til nýlega. Baldvin segir að notkun miðilsins verði mest innan hópa eins og til dæmis meðal íþróttaáhugamanna. Fyrsta Twitter-menning á Íslandi skapaðist einmitt á þeim vettvangi. Það verði mikil umræða í kringum íþróttaviðburði og myllumerkið henti einstaklega vel til þess að leiða slíka hópa saman.
Á Íslandi var það #12stig sem opnaði Twitter-heiminn fyrir Íslendingum, að mati Baldvins. Hann vinnur nú að rannsókn á FreetheNipple-byltingunni en hann segir að hægt sé að kanna dreifni umræðunnar; hversu víða hún nær og hvaða áhrif hún hefur. Það sé augljóst að umræðan hafði þau áhrif að umfjöllun um málefnið jókst mikið, til skemmri tíma að minnsta kosti. En það sé mun erfiðara að álykta hver samfélagsleg áhrif séu.
Áhrif fólks mismikil
Baldvin tekur undir með Birgi að ákveðin sé elítuvæðing á Twitter. Sem sagt, að ekki verði allir sem stofna reikning stór nöfn á miðlinum. Allajafna sé þekkt fólk vinsælast á miðlinum. „Það er hættan við Twitter í pólitískri umræðu,“ segir Baldvin. „Áhrif þeirra sem taka þátt eru mismikil og ákveðinn valdakjarni myndast í umræðunni.
Hann telur mikilvægt að muna að þótt ímynd samfélagsmiðla eigi að vera þannig að allir hafi sömu rödd sé reyndin önnur. Þar verði til áhrifamiklir einstaklingar og hópar en þeir valdaminni fái ekki sömu athygli.
Baldvin segir að fólk bæði vanmeti og ofmeti Twitter. Það sé ekki hægt að líta fram hjá áhrifum miðilsins en á sama tíma sé ekki ástæða til að eigna Twitter það sem fólk gerir. Það sé fólkið að baki hugmynda og gjörða sem skiptir máli og að það nái árangri á eigin verðleikum, ekki út af samfélagsmiðlum.