„Við erum að reyna að skýra og skilgreina hlutverk stjórnvalda sem tengjast þessum málaflokki og stuðla að samræmingu laganna um útlendinga og þessi atvinnuréttindi,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Hún gerði grein fyrir nýjum lögum um útlendinga og markmiðum þeirra en þau voru samþykkt þann 2. júní síðastliðinn á Alþingi. Lögin taka gildi um næstu áramót 2016-2017. Þetta kom meðal annars fram á hádegisfundi í fundaröð Háskóla Íslands sem ber yfirskriftina Fræði og fjölmenning.
Unnur Brá segir að lögin snúist ekki einungis um flóttafólk heldur líka um fólk sem vilji flytja til Íslands í leit að nýju lífi eða til að vinna. Hún segir að heimurinn sé alltaf að stækka og að fólk þurfi að taka mið af því. Með lögunum sé einnig verið að auka mannúð og skilvirkni í kerfinu. Hún telur að reglurnar verði að vera skýrar og að þau séu einnig að reyna að gera lögin aðgengileg.
Útlendingalög ætluð fyrir alla sem koma til Íslands
Unnur Brá segir að lögin hafi áður fyrr verið samin með það í huga að hafa eftirlit með útlendingum en ekki endilega til að veita fólki réttindi. Umræðan hafi litast af því hversu margir séu á flótta um heim allan. Lagabreytingarnar snúist ekki bara um umsækjendur um alþjóðlega vernd heldur líka um útlendinga almennt sem vilji koma og vinna til styttri eða lengri tíma.
Það fá ekki allir það sem þeir vilja
Þverpólitískri þingmannanefnd var komið á laggirnar til þess að búa til drög að frumvarpi fyrir ráðherra. Þetta er ekki venjuleg aðferð að sögn Unnar Brár. „Ég held að þetta sé eitt það mikilvægasta sem við gerðum í þessu ferli, að fá fulltrúa frá öllum stjórnmálaflokkum til að setjast saman við þetta stóra verkefni,“ segir hún. Hún segir að þau hafi treyst því að fá góða niðurstöðu með þessari nálgun og að verkum hafi ekki verið skipt eftir þingstyrk.
Hún segir að mikið samráð hafi verið haft milli nefndarinnar og þeirra sérfræðinga sem vinna að málaflokknum, atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar, útlendingastofnunar, lögreglunar, ráðuneytisins og No Borders. Hún segir að reynt hafi verið að koma til móts við alla en eins og gefi að skilja geti ekki allir fengið nákvæmlega það sem þeir vilja. Hún telur þetta ágæta málamiðlun. Framtíðin sé þó óráðin og þess vegna er erfitt að segja hvernig ástandið verði eftir fimm ár. Lagabálkar verði því alltaf að vera í stöðugri endurskoðun.
Biðin verður styttri
Það fyrsta sem breytt verður í löggjöfinni er starfsemi kærunefndar útlendingamála. Málin tóku oft langan tíma og margir þurftu að bíða í jafnvel mörg ár eftir niðurstöðum. Unnur Brá segir að núna þurfi ekki að bíða svo lengi. Útlendingastofnun hefur lagað alla sína vinnuferla og er búin að ná betri tökum á sínum verkefnum, að hennar mati.
Kærunefnd útlendingamála tekur við ef umsækjendur fá höfnun hjá útlendingastofnun og kæra. Þau mál sem eru komin út úr ráðuneytinu verða komin í hendur sérfróðra aðila sem eru einungis í þessum verkefnum. Málin eiga að taka eins skamman tíma og mögulegt er.
Íslendingar græða
Einnig eru breytingar gerðar á lögum um atvinnurétt útlendinga. Atvinnulífið hefur í áraraðir kallað eftir auðveldari afgreiðslu í þeim efnum, segir Unnur Brá. „Ef maður er algjörlega eigingjarn þá erum við að græða einstaklinga fyrir okkur án þess að hafa þurft að kosta þá í gegnum allt grunnskólakerfið,“ segir hún. Þannig að Íslendingar fái mikið út úr því að liðka þessar reglur, það er að gera fólki auðveldara fyrir að koma til landsins og vinna.
Nefndin leggur til stofnun móttökumiðstöðvar. Unnur Brá segir að það væri grundvallarbreyting að hægt væri að safna á einn stað öllu utanumhaldi um þá sem eru að sækja um alþjóðlega vernd. Þar færi fram greining á aðstæðum fólks og hvaða þjónustu þyrfti að veita.
Auknir möguleikar á fjölskyldusameiningu
Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, lýsir yfir ánægju vegna skýrari ákvæða sem varða heimildir stjórnvalda til að taka mál til efnismeðferðar. Einnig að það séu auknir möguleikar á fjölskyldusameiningu fyrir fylgdarlaus börn og að réttaröryggi útlendinga sé tryggt. Hún fjallaði á fundinum um sýn Rauða krossins en hann vinnur í samvinnu við stjórnvöld að málefnum flóttamanna og hælisleitenda og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Hún bendir á að réttarstaða ríkisfangslausra sé bætt. Því beri að fagna og einnig refsileysi vegna ólöglegrar komu eða falsaðra skilríkja. Hún segir að nýju lögin ítarlegri en þau gömlu.
Aðgengi að dómstólum skert
Arndís segir það áhyggjuefni að aðgengi hælisleitenda að dómstólum sé skert. Heimildir séu til staðar í nýju lögunum sem geri formanni kærunefndar kleift að útskurða einn í málum. Hún bendir einnig á að með breytingunum á lögum útlendinga árið 2014 hafi kæranda í máli verið veittur réttur til að koma fyrir nefnd og gera grein fyrir sinni afstöðu. Með þessum nýju lögum hafi þessi réttur verið afnuminn. Kærunefndin ákveði því hvort viðkomandi komi fyrir nefndina. Hún segir að það sé mjög mikilvægt að mati Rauða krossins að tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi þess kost að tjá sig munnlega um eigin mál óski þeir þess.
Einnig var lagt til að heimild yrði bætt við til að veita vegabréfsáritun einstaklingi sem óskar eftir því að koma til Íslands svo að fólk geti sótt um alþjóðlega vernd. Þessi tillaga hefur ekki komist inn í lögin, segir Arndís.
Þarf lista yfir örugg ríki?
Í lögunum er á mörgum stöðum vísað í lista yfir örugg ríki. „Hvað þetta varðar þá ítrekar Rauði krossinn fyrst og fremst sína afstöðu gagnvart hugmyndum um slíka lista. Þessir listar eru til þess fallnir að koma í veg fyrir að sumar umsóknir um hæli hljóti sömu skoðun og aðrar og telur Rauði krossinn þessa lista í eðli sínu skerða réttaröryggi fólks á flótta,“ segir Arndís. Þau telja slíka lista vera óþarfa, stjórnvöld ættu að gera greint á milli án þessa lista.
Fagnar því að réttur til fjölskyldusameiningar sé ekki skertur
Arndís fagnar því að nýju lögin skerði ekki rétt til fjölskyldusameiningar eins og sum önnur Evrópulönd hafa farið. Arndís segir að slíkar skerðingar leiði til þess að konur og börn fara frekar í bátana og leggi upp í erfitt ferðalag.
Claudie Ashonie Wilson, lögfræðingur hjá lögmannsstofunni Rétti, tekur í sama streng og Arndís en hún var einnig frummælandi á hádegisfundinum. Hún fjallaði um áhrif laganna á réttarstöðu flóttafólks á Íslandi. Hún óskaði þverpólitísku nefndinni sérstaklega til hamingju með að hafa náð settu markmiði að ná að gera heildarskoðun á málefnum útlendinga. Nýju lögin séu skref í rétta átt til að tryggja að réttindi þeirra sem lögin gilda um séu virt.
Hún fagnar þeim nýmælum sem eru til réttarbóta fyrir umsækjendur um alþjóðavernd, móttökumiðstöð, ákvæði um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og aukna vernd fyrir fylgdarlaus börn.
Áhyggjur af áhrifum laganna
Claudie lýsir þó yfir áhyggjum af ákveðnum lagaákvæðum. Í fyrsta lagi nefnir hún áhrif laganna á meðferð umsóknar barna í fylgd með foreldrum sínum. Í öðru lagi áhrif þeirra á meðferð umsóknar fylgdarlausra barna sem verða fullorðin á meðan málsmeðferð stendur. Æskilegt væri að miða við aldur þeirra við komu til landsins eða þegar umsóknin er lögð fram.
Í þriðja lagi lýsir hún áhyggjum sínum af forgangsmeðferð og áhrifum hennar á rétt til aðgengis að dómstólum en hún tekur undir með Arndísi að styðjast eigi ekki við lista yfir örugg ríki.
Það verður að taka tillit til þess hvar Ísland er staðsett
Í síðasta lagi talar hún um refsileysi umsækjenda um alþjóðlega vernd vegna ólöglegrar komu eða falsaðra skilríkja marka ákveðin tímamót í réttindabaráttu þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Aftur á móti eru hnökrar á ákvæðinu, það er að umsækjandi verður að koma beint frá landsvæðinu. „Að teknu tilliti til þess að fjölmargir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til Íslands hafa farið í gegnum að minnsta kosti eitt eða fleiri Evrópuríki áður en þau koma til Íslands,“ bendir hún á. Það sé því ekki raunhæft að gera þá kröfu til þeirra að þeir komi í óslitinni för til Íslands. Það verði að tala tillit til landfræðilegrar staðsetningar Íslands.
Hvernig vegnar flóttafólki og innflytjendum í íslensku samfélagi?
Við lok fundar var undirritaður samningur milli innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis og Háskóla Íslands um heildstæða úttekt á því hvernig flóttafólki og innflytjendum vegnar í íslensku samfélagi. Ríkið samþykkti á fundi nýlega að leggja 10 milljónir króna til verkefnisins.