Eitt besta atriði kvikmyndasögunnar (!) er þegar Mike Bassett (Ricky Tomlinson), landsliðsþjálfari Englands, heldur blaðamannafund til að tilkynna um það eitt, að enska landsliðið, undir hans stjórn, muni spila leikkerfið „4-4 f***ing two“. Liðsval Bassetts var umdeilt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, og íhaldssemi hans fór ævintýralega í taugarnar á blaðamönnum og aðdáendum.
Leikkerfið í forgrunni
Meistaraverkið Mike Bassett England Manager – sem líklega telst ekki meistaraverk í huga neinna nema þeirra sem hafa brennandi áhuga á enskum fótbolta og menningunni í kringum hann – setur leikkerfið 4-4-2 í forgrunn. Fjórir varnarmenn, fjórir miðjumenn og tveir framherjar. Enska knattspyrnan upp á gamla mátann. Myndin kom út árið 2001 og er „költ“ skrímsli nú þegar, fyrir þá sem ekki til þekkja.
Í seinni tíð hefur þetta kerfi dottið úr tísku, ef þannig má að orði komast. Algengast er að lið leiki með einn leikmann fremstan, eða þrjá séu kantmennirnir teknir með. Mörg af stóru félögunum í Evrópuboltanum hafa gert þetta, og vissulega með góðum árangri. Leikkerfin 4-3-3 eða 4-5-1 eru algengust, þar sem þau þykja sveigjanlegri og henta betur nútímafótbolta. Eða þannig er í það minnsta stundum rætt um þau.
Barcelona, Real Madrid, FC Bayern, Atletico Madrid, PSG og Chelsea – svo dæmi séu tekin – hafa öll notast við þessi leikkerfi undanfarin ár.
Það er komið aftur
En tvö dæmi um vel heppnaða „endurkomu“ 4-4-2 leikkerfisins, á stærsta svið fótboltans, koma upp í hugann. Auðvitað finnst mér augljósast að benda á íslenska landsliðið, undir stjórn Lars Lagerback og Heimis Hallgrímssonar.
Frá fyrsta blaðamannafundinum hjá Lars hefur það legið fyrir að 4-4-2 yrði leikkerfi íslenska landsliðsins. Ólíkt blaðamannafundinum hjá Bassett, þá kom Lagerback þessu til skila með yfirveguðum hætti.
Það þarf ekki að rekja söguna í smáatriðum, en Ísland er á EM, fámennsta þjóðin í sögunni til að ná svo langt, og komið með fyrsta stigið eftir frábært 1-1 jafntefli við sterkt lið Portúgal.
Baráttusvipur skín af hverju andliti leikmanna og leikkerfið 4-4-2 hleður upp vegg sem andstæðingum hefur reynst erfitt að brjóta niður, og sóknin er beitt. Lykilmenn í varnarleiknum eru framherjarnir, Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson, sem láta finna fyrir sér. Kolbeinn vann til dæmis 18 skallaeinvígi í leiknum gegn Portúgal. Mark Íslands kom líka upp úr kunnuglegum hjólförum 4-4-2 leikkerfisins. Kantmaðurinn laumar sér á fjarstöngina, fyrir aftan bakvörðinn, og setur boltann inn eftir fyrirgjöf frá kantmanninum hinu megin, Jóhanni Berg Guðmundssyni.
Ísland er til alls líklegt á mótinu, og ekkert lið mun valta yfir skipulagið. Svo mikið er víst.
Leicester minnir á Blackburn
Hitt dæmið sem nefna má um vel heppnaða endurkomu 4-4-2 leikkerfis er hjá meistaraliði Leicester City í ensku úrvalsdeildinni. Þar kom gamli refurinn Claudio Ranieri að stjórn félagsins, og byrjaði á því að festa niður leikskipulag sem liðið myndi vinna eftir, alveg sama á hverju gengi. Til að gera langa sögu stutta, þá tókst Leicester hið ómögulega, sem var að vinna deildina, með fastmótað 4-4-2 leikkerfi. Það sem reyndist andstæðingunum erfiðast, var að brjóta niður leikskipulagið og dugnaðinn, frá fremsta manni til hins aftasta. Allir hjálpuðust að, og lögðu sitt af mörkum. Tveir framherjar, fjórir miðjumenn og fjórir varnmenn, með traustan markvörð milli stanganna.
Liðið minnti um margt á meistaralið Blackburn Rovers frá 1995, þar sem 4-4-2 leikstíllinn var aðalsmerkið. Og byrjunarliðið var allt skipað breskum leikmönnum sem vildu fá boltann út á kant og gefa fyrir á hættulega framherja, Alan Shearer og Chris Sutton. Í markinu var Tim Flowers, og varnarlínan var skipuð Le Saux, Jeff Kenna, Colin Hendry - sem fórnaði sér fyrir liðið þegar á þurfti að halda - og Ian Pearce (Henning Berg kom svo inn í liðið reglulega). Á miðjunni voru Jason Wilcox, David Batty, Tim Sherwood og Stuart Ripley. Þetta lið fór alla leið og vann titilinn. Spilaði gríðarlega hraðan á ástríðumikinn bolta, þar sem allir börðust hver fyrir annan og fóru í gegnum súrt og sætt (aðallega sætt samt) sem lið. Kunnuglegt?
Ekkert basl á okkur
Bassett átti í bölvuðu basli með enska landsliðið, ekki síst eftir að liðspartýið á HM í Brasilíu fór út um þúfur. Hann endaði sjálfur ofurölvi uppi á borði. Hálfleiksræðan gegn Mexíkó – ægilegur fúkyrðaflaumur – skilaði heldur engum árangri. „England tapaði, 4-0.“
Lars og Heimir eru hins vegar með lið í höndunum sem þarf ekki að fá neinn fúkyrðaflaum framan í sig til að virka. Það eru allir með sín hlutverk á hreinu og þannig hefur það verið frá fyrsta degi þeirra í starfi. Ísland er til alls líklegt með 4-4-2 rækilega neglt niður, og ástríðufulla góða leikmenn.