Zoltán Gera er kannski ekki frægasti eða virtasti leikmaður í Evrópu, en hann er mikilvægur hlekkur í leik Ungverja, sem Íslendinga mæta í dag. Hann er áhugamönnum um enska boltann af góðu kunnur, en hann lék í tíu ár í ensku úrvalsdeildinni, við ágætan orðstír, með West Bromwich Albion, 2004 til 2008 og aftur 2011 til 2014, og með Fulham lék hann á árunum 2008 til 2011.
Klókur miðjumaður
Gera þykir klókur leikmaður, tæknilega afbragðsgóður og næmur fyrir veikleikum á vörn andstæðingana. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir WBA haustið 2004, en er nú kominn aftur í heimalandið, þar sem hann leikur með Ferencváros. Það er sterkasta lið landsins.
Í leiknum gegn Austurríki í fyrstu umferðinni, þar sem Ungverjar unnu nokkuð óvænt 2-0, þá lék Gera sem varnartengiliður á miðjunni. Í undankeppninni var hann lykilmaður, og var ýmist aftarlega á miðjunni eða fremsti miðjumaður. Útsjónarsemi hans nýtist vel á báðum stöðum, en eftir því sem reynslubankinn hefur orðið stærri, þá hefur hann færst aftar á völlinn, eins og oft vill verða. Hann hefur reynst Íslendingum erfiður, í gegnum tíðina, og skoraði meðal annars glæsilegt skallamark í leik Íslands og Ungverjalands árið 2008, en Ungverjar hafa sigrað í sjö af tíu viðureignum þjóðanna.
Má ekki fá að stjórna
Spræk kynslóð leikmanna, sem nú er að bera lið Ungverja uppi, hefur notið góðs af reynslunni hjá Gera, en knattspyrnustjórinn, Bernd Stock, hefur sagt að Gera færi liðinu ró og geti stjórnað leiknum þegar á þarf að halda. Hann leikur með númerið 10 á bakinu og er oft í hlutverki leikstjórnanda. Ungverjaland hefur líkt og Ísland verið að klifra upp styrkleikalista FIFA með góðum úrslitum, og er stefnan sett á að komast upp úr riðlinum á EM.
Íslenska liðið þarf að passa að Gera fái ekki að verða með þræðina hjá sér og stjórna leiknum. Ef það er hægt að draga út eitthvað atriði, sem var ekki nógu gott í leiknum gegn Portúgal, þá var það hversu illa gekk hjá íslenska liðinu að halda boltanum innan liðsins og byggja upp sóknir. Þó það gangi upp þegar Ísland liggur til baka í stífri vörn, og beitir skyndisóknum, þá þarf Ísland líka að geta tekið frumkvæðið og stjórnað leikjum, einkum gegn liðum eins og Ungverjalandi, þar sem knýja þarf fram sigur.
Gylfi Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson ráða vel við það verkefni, á góðum degi, að leyfa Gera ekki að stjórna hraðanum, en það má samt ekki vanmeta leikmenn eins og Gera, þó hann sé orðinn gamall og spili ekki lengur í deild þeirra bestu. Hann varð 37 ára gamall 22. apríl síðastliðinn en er enn í góðu formi, og einn besti leikmaðurinn í Ungverjalandi.
Hann lék einna best tímabilið 2009 til 2010, en hann var þá kjörinn leikmaður ársins hjá Fulham. Hann hefur leikið 90 landsleiki og er leikreyndastur útileikmanna Ungverjalands.