David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu (ESB). Kosið verður fimmtudaginn 23. júní, eftir tvo daga. Í fjölmiðlum og í daglegu tali hefur þessi þjóðaratkvæðagreiðsa og möguleikinn á því að Bretar hætti hreinlega í ESB verið kallaður „Brexit“. Það er einhverskonar samsuða af orðunum Bretland og „exit“.
Útganga Breta úr ESB gæti haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér. Sumir telja jafnvel að umræðan þar í landi hafi þegar smitað svo mjög til annarra landa þar sem þreytu gagnvart skrifræðinu í Brussel er farið að gæta. Þess vegna er þegar farið að tala um Frexit (um hugsanlega úrsögn Frakka) og Nexit (um hugsanlega úrsögn Hollendinga).
En hvað er eiginlega að gerast? Hér að neðan er stiklað á stóru um Brexit.
Hvað er þetta Brexit?
Brexit er hugtak sem fundið var upp um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fer fimmtudaginn 23. júní í Bretlandi. Þar verður breska þjóðin spurð hvort hún vilji að Bretland taki áfram þátt í Evrópusambandinu eða gangi út. Um svörin tvö hafa orðið til þverpólitískar fylkingar með og á móti. Fylkingarnar eru yfirleitt kallaðar „Remain“ og „Leave“ í víðlesnustu fjölmiðlum á Bretlandseyjum.
Hvers vegna vilja Bretar hætta í ESB?
Þegar kosið var til þings í Bretlandi í maí í fyrra lofaði David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Bretlands að ESB ef flokkur hans myndi vinna kosningarnar. Gaf hann þetta loforð vegna aukins þrýstings frá þingmönnum Íhaldsflokksins, og ekki síst frá UKIP (Sjálfstæðisflokks Bretlands sem vill ekkert með ESB hafa), og hugsanlegs flótta atkvæða frá íhaldinu til UKIP.
Bretar gengu formlega í ESB árið 1975 eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingmennirnir og UKIP færðu rök fyrir því að Bretar hefðu ekkert fengið að segja um aðild landsins að sambandinu síðan þá, nú væru liðin 40 ár og sambandið orðið mun stærra og gjörólíkt því sem það var.
Íhaldsmenn hlutu á endanum stærstan hluta atkvæða og flesta þingmenn. Cameron þurfti þá að standa við sitt. „Það er kominn tími á að breska þjóðin fái að ráða. Það er kominn tími til að svara Evrópuspurningunum í Bretlandi,“ sagði Cameron, sem sjálfur er stuðningsmaður áframhaldandi aðildar að sambandinu.
Spurt verður í atkvæðagreiðslunni: „Á Bretland að vera áfram aðili að Evrópusambandinu eða yfirgefa Evrópusambandið?“ (e. Should the United Kingdom remain a member of the European Union or leave the European Union?)
Hver er að vinna?
Undanfarnar vikur hafa skoðanakannanir bent til þess að hnífjafnt sé milli þessara fylkinga. Eftir morðið á þingkonunni Jo Cox síðastlðinn fimmtudag virðast sambandssinnar hafa fengið byr í seglin á kostnað þeirra sem vilja ganga út. Flestar skoðanakannanirnar sem SkyNews-sjónvarpsstöðin fjallar um benda til þess að um 10 prósent kjósenda séu enn óákveðnir.
Hvað hefur úrsögn í för með sér?
Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu gæti haft miklar afleiðingar í för með sér. Það er erfitt að ráða framtíðina þó það megi leiða líkur að því hvað muni gerast. Ekki verður gerð tilraun til að gera tæmandi lista hér heldur aðeins stiklað á stóru.
Fyrir það fyrsta verður staða Bretlands óljós í hinum alþjóðapólitíska heimi. Skyndilega verður Bretland, eitt stærsta hagkerfi í heimi, utan við sameiginlega markað Evrópu og þarf að gera viðskiptasamninga við sín helstu viðskiptalönd á ný.
Þeir sem telja Breta betur borgið utan ESB segja að Bretland geti einfaldlega fengið samskonar samning og Ísland eða Noregur hefur við ESB og þannig aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Óvíst er hversu samningsfúsir eftirstandandi leiðtogar ESB verða í kjölfar atkvæðagreiðslunnar.
Þá hafa verið leiddar að því líkur að aðrar Evrópuþjóðir muni vilja fara sömu leið og Bretar ef þeir kjósa sig úr ESB. Vaxandi sjálfstæðishreyfing í Frakklandi undir forystu Marie Le Pen hefur orðið til þess að Frakkland gæti hugsað sér til hreyfings. Þá er allt eins búist við að Hollendingar sjái sér leik á borði og óski eftir úrsögn.
Úrsögn Breta mun einnig setja stöðu Írlands í of kunnuglega stöðu, fyrir bresk stjórnvöld. Ferðafrelsi milli Írlands og Norður-Írlands verður skert því Írar verða áfram í ESB en Norður-Írland, undir breskri stjórn, fylgja Bretum út. Sameiginlega svæði þessara landa – auk Manar, Jersey og Guernsey – mun skerðast í fyrsta sinn síðan því var komið á árið 1925.
Þá hafa Bretar nefnt styrki Evrópusambandsins til ýmissa málaflokka sem dæmi um hluti sem breska stjórnin mun að öllum líkindum ekki geta veitt í sama mæli. Þar eru meðal annars landbúnaðarstyrkir og styrir til rannsókna og fræðastarfa.
Hvað ef Bretar vilja vera áfram?
Ef breska þjóðin kýs að vera áfram aðili að ESB mun uppfært aðildarsamkomulag milli Bretlands og sambandsins taka gildi. David Cameron samdi um þessa skilmála í janúar og febrúar og segir hann nýja skilmála veita Bretum sérstaka stöðu innan Evrópusambandsins.
Nýju skilmálarnir munu, að sögn Camerons, koma til móts við þá sem vildu úrsögn úr sambandinu. Aðalatriði skilmálanna eru:
Peningaaðstoð heim - Aðfluttir munu áfram geta sent launin sín til heimalandsins en þó aðeins í takti við kostnaðinn í heimalandinu.
Minni velferðargreiðslur til farandverkamanna - Cameron segir að með því að minnka velferðargreiðslur til illra launaðra farandverkamanna muni það draga úr hvötum fyrir þessa verkamenn til að starfa í Bretlandi.
Engin evra, bara pund - Cameron segir Bretland aldrei ætla að taka upp evruna. Evrulönd muni hins vegar ekki lá Bretum það. Allar fjárveitingar Breta í sameiginlega björgunarsjóði til evrulanda verða endurgreiddar að fullu.
Fjármálahverfið í London (City of London) fær náð frá regluverki evrunar.
Stöðvun Evrópusamrunans - Bretar munu ekki, í fyrsta sinn, taka þátt í eða styðja við aukin Evrópusamruna milli Evrópuríkja. Þetta er raunverulega í andstöðu við eitt af markmiðum Evrópusamstarfsins. Þá munu ríkisstjórnir geta gefið rauða spjaldið á nýjar reglugerðir. Ef að minnsta kosti 55 prósent allra þjóðþinga innan ESB mæla gegn Evrópulöggjöf verður hún send aftur til Brussel.
Hvaða áhrif hefur þetta á Ísland?
Áhrif Brexit hér á Íslandi geta orðið margvísleg. Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor stjórnmálafræði, sagði í samtali við Kjarnann að áhrifin gætu orðið „feykimikil“ enda er Bretland ein af okkar helstu viðskiptaþjóðum; ekki síst með sjávarafurðir.
„Grundvöllur íslensks efnahagslífs hefur meðal annars verið að selja Bretum þorsk í Fish and chips – sjálfan þjóðarréttinn. Við útgöngu fer eflaust af stað umræða um stöðu Bretlands og annarra nágrannaríkja ESB. Bretland, við [Ísland], Norðmenn, Sviss og slíkríki þurfa öll aðkomu að innri markaði ESB og við útgöngu Breta hljóta menn að ræða hvernig sú tenging sé best fyrir komið fyrir öll þessi ríki. Þar með gæti orðið til einskonar ytra Evrópusamband með Íslandi, Bretlandi, Noregi, Sviss og ef til vill litlu örríkjunum, Andorra, San Marino og Emasundseyjunum,“ segir Eiríkur Bergmann.
Hér að neðan má sjá breska grínistan John Oliver útskýra Brexit fyrir Bandaríkjamönnum í þætti sínum á HBO.