Kosningaþátttaka hjá ungu fólki er allajafna dræmari en hjá þeim eldri. En eru einhverjar útskýringar á þessari dræmu þátttöku? Hvað þýðir það að vera þátttakandi í lýðræði og skiptir það máli fyrir lýðræðið að sem flestir taki þátt? Umræða um minnkandi kosningaþátttöku hjá ungu fólki er engin nýlunda enda er mantran „heimur versnandi fer“ endurtekin kynslóð fram af kynslóð. Spurningar vakna eins og hvort almennt áhugaleysi sé á hefðbundnum stjórnmálum og hvort neikvæð viðhorf til stjórnvalda hafi áhrif. Þá má velta því fyrir sér hvort traust til stjórnvalda hafi áhrif á þátttöku.
Sé meðaltal kjörsóknar í kosningunum 2003, 2007, 2009 og 2013 skoðað sést að aldurshópurinn 18-24 ára skilar sér síst á kjörstað. Að meðaltali svöruðu 82 prósent þess fólks á aldrinum 18 til 24 ára sem tók þátt í kosningarannsókninni þessi ár að þau hefðu kosið í Alþingiskosningum. Miðað við fólk á aldursbilinu 35 til 64 ára þar sem meðalhlutfall þeirra sem sögðust hafa kosið var 91,8 prósent.
Kjarninn setti af stað samfélagsmiðlaherferð á dögunum, ásamt Nútímanum, sem miðar að því að hvetja ungt fólk til að fara á kjörstað.
Í síðustu forsetakosningum hefur kjörsókn verið mun lakari en kjörsókn í Alþingiskosningum. Í forsetakosningunum 2012 kusu aðeins 69,3 prósent þeirra sem voru á kjörskrá, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árið 2004 kusu enn færri eða 62,9 prósent. Til samanburðar kusu 81,5 prósent í Alþingiskosningum 2013 og enn fleiri árið 2009 eða 85,1 prósent kosningabærra einstaklinga.
Kjarninn leitaði svara hjá Evu Heiðu Önnudóttur, nýdoktor á Félagsvísindasviði við Háskóla Íslands og Ólafi Páli Jónssyni, prófessor í heimspeki á Menntavísindasviði háskólans.
„Eðlilegt“ að kosningaþátttaka sé í sumum tilfellum dræmari
Eva segir að kosningaþátttaka ungs fólks sé lakri í sveitastjórnarkosningum en í til dæmis Alþingiskosningum. Stundum sé talað um annars stigs kosningar, eins og sveita- og forsetakosningar, en þær þyki ekki eins merkilegar og fyrsta stigs kosningar. Eva bætir við að það sé á einhvern hátt eðlilegt.
Er að verða kynslóðabreyting?
Hún segir að ef litið sé á rannsóknir sem gerðar hafa verið um kosningaþátttöku þá megi sjá að ungt fólk taki síður þátt. Það komi inn eftir 25 ára aldurinn. Hún bendir á að þetta megi sjá úti um allan heim.
Stundum verður kynslóðabreyting í kosningaþáttöku, að sögn Evu. Þá komi fólk ekki aftur inn eftir 25 ára aldurinn heldur haldist dræm þátttaka hjá sömu kynslóð. Þátttakan haldist þannig við kynslóðina en ekki við æviskeiðið sjálft. Hún segir að núna séu vísbendingar um að á Íslandi séu slíkar breytingar að eiga sér stað. Það sé þó mjög erfitt að spá fyrir um það og að tíminn og fleiri kosningar verði að leiða það í ljós.
Ungt fólk hefur áhuga á stjórnmálum
Eva segir afdráttalaust að unga fólkið hafi jafn mikinn áhuga á stjórnmálum og eldra fólk. Og kannanir sýni að ungt fólk í dag hefur jafn mikinn áhuga og ungt fólk fyrir 30 árum. Þannig að ekki sé hægt að kenna áhugaleysi um dræma kosningaþátttöku. Ástæðurnar séu margþættar og liggi í öðrum þáttum.
Verður að koma ungu fólki á kjörstað sem fyrst
Engin ein lausn virðist vera til að fá ungt fólk á kjörstað. Eva bendir á að oft hefur átak verið sett af stað út um allan heim. Hún telur að langbest sé að koma ungu fólki á kjörstað sem fyrst, þannig að það komist í vana.
En hvað á að segja við unga fólkið í aðdraganda kosninga? „Það verður að haga málflutningi með þeim hætti að það sé augljóst að hann höfði til þeirra,“ segir Eva. Hún segir einnig að kosningapróf virðist virka vel, sérstaklega fyrir ungt fólk, að senda út kosningaleiki og að minna fólk á að kjósa.
Traust skiptir máli hjá yngra fólki
Samkvæmt rannsóknum hefur traust á stjórnmálum mikil áhrif á kosningaþátttöku hjá ungu fólki. Eva segir að þetta traust skipti ekki máli fyrir 75 ára og eldri enda sé það líklegast vant því að kjósa. Þetta eigi ekki við um unga fólkið. Hún segir um unga fólkið að það kjósi síður ef það beri ekki traust til stjórnmálamanna. Einnig telur hún að allt sem gerist í samfélaginu hafi meiri áhrif á ungt fólk, hvort sem það er hvetjandi eða letjandi.
Kannski ekkert sjálfsagt að kjósa
Ólafur Páll segir að margir hafi spurt sig þeirrar spurningar síðustu ár og jafnvel áratugi af hverju kosningaþátttaka hjá ungu fólki sé dræm. En þegar svona sé spurt sé eins og fólk gefi sér að það sé sjálfsagt að kjósa. Kannski sé ekkert sjálfsagt að kjósa og þá ættum við ef til vill að snúa þessu við og spyrja hvers vegna kosningaþátttaka sé í raun jafn mikil og hún er. „Í öllu falli þá virðist mér ekki að ungt fólk sé áhugalaust um stjórnmál eða samfélagsmál yfirleitt. Þetta sjáum við á mjög gróskumikilli lýðræðislegri þátttöku ungs fólks allt niður í grunnskóla og leikskóla,“ segir hann og tekur í sama streng og Eva varðandi áhuga ungs fólks á stjórnmálum.
Ólafur Páll telur að þessi áhugi birtist með margvíslegum hætti. „Þegar ég var unglingur í grunnskóla þá held ég að við höfum ekki verið sérlega pólitísk. Og mér heyrist á jafnöldrum mínum að það sama eigi yfirleitt við um þá,“ segir hann. En núna séu krakkarnir pólitískir. Það birtist í því að stofnuð eru femínistafélög í skólunum, krakkar gerast grænmetisætur og koma jafnvel foreldrum sínum upp á slíkt fæði. Hann segir að ungt fólk sé virkt í mannréttindabaráttu, til dæmis hjá Amnesty International og UNICEF, það taki þátt í baráttu fyrir bættu umhverfi og verndun náttúrunnar og þannig mætti lengi telja. Almennar kosningar til Alþingis fullnægi ekki þessum krafti og telur hann að hugsanlega sé ungt fólk bara komið á undan kerfinu.
Hvers vegna að kjósa?
Ólafur Páll telur að að margt ungt fólk sem tekur virkan þátt í lýðræðislegu starfi sjái hin hefðbundnu stjórnmál ekki sem aðlaðandi vettvang – jafnvel ekki sem vettvang sem skiptir máli. „Og ég skil þetta vel. Ég get vel ímyndað mér að margt ungt fólk – og ekki bara ungt – hugsi eitthvað á þessa leið: „Hvers vegna skyldi ég fara á kjörstað á fjögurra ára fresti til að setja kross við einhver listabókstaf, þegar þingmenn og ríkisstjórn hlusta ekki á raddir almennings. Og hvers vegna skyldi ég kjósa til Alþingis þegar hið raunverulega vald virðist vera annars staðar, til dæmis hjá stórfyrirtækjum, útgerðum og kannski innsta kjarna stjórnmálaflokka“.“
Sannleikurinn sé sá að það eru margar ástæður til að hafa lítinn áhuga á hefðbundnum stjórnmálum. Það séu vitanlega líka margar ástæður til að hafa mikinn áhuga á hefðbundnum stjórnmálum en þær vegi ekki endilega þyngra í hugum fólks. „Og þetta kjörtímabil sem nú er að renna sitt skeið hefur ekki bætt ástandið,“ bætir hann við.
Ungt fólk tekur kannski raunverulega afstöðu
Sú staðreynd að fólk er tilbúið að kjósa aðra flokka en það kaus í seinustu kosningum er lýðræðislegt þroskamerki, að mati Ólafs Páls. Það bendi til þess að fólk kjósi eftir að hafa raunverulega tekið afstöðu til flokkanna. Þetta þýði ekki endilega minni tengsl á milli almennings og stjórnmálaflokka, í raun gæti þetta þýtt nánari tengsl. Tengslin væru þá þannig til komin að flokkarnir yrðu að tala til almennings en gætu ekki gengið að einhvers konar „erfðafylgi“ sem gefnu.
En hann veltir því svo fyrir sér hvernig samtal flokka og almennings sé. Ef það sé undirlagt af hentistefnu og popúlisma þá sé það mjög bagalegt. Hann telur líka að fjölmiðlarnir gegni mikilvægu hlutverki í að leyfa stjórnmálamönnum ekki að komast upp með slíkt háttalag. Það sé kannski mikilvægasta hlutverk fjölmiðla.
Af hverju að treysta?
„Ég held að traust hafi mikil áhrif,“ segir Ólafur Páll. Hann telur að traustið þurfi að vera með tvennum hætti. Í fyrra lagi þurfi að vera hægt að treysta stjórnmálamönnum til að vinna af heilindum. Þær upplýsingar sem birtust í Panama-skjölunum sýni svart á hvítu að mörgum stjórnmálamönnum sé alls ekki treystandi. Enn fremur segir hann að því miður virðist þeir sem halda um valdataumana ekki skilja þetta. Í öllu falli sé ekkert gert til að efla traustið.
Í öðru lagi telur hann að það sé ekki síður mikilvægt að treysta ungu fólki. Og ekki bara ungu fólki, heldur fólki almennt. Stundum sé sagt að fólk sé ekki tilbúið til að taka ábyrgð. En hans reynsla sé sú að fólk sé einmitt tilbúið til að taka ábyrgð þegar því er treyst fyrir hlutum sem því finnst mikilvægir og það hefur vit á. Eitt af því sem hafi verið Þrándur í götu stjórnmálanna og stjórnkerfisins er að þar sé of mikið af gömlum körlum sem sitja fastir í sínum sess í fullvissu þess að öðrum sé ekki treystandi. „Við getum til dæmis tekið nýlegt dæmi um þjóðhagsráð. Þar sitja fimm karlar – og frá sjónarhóli ungs fólks eru þeir allir miðaldra,“ segir hann. Ef þetta sé birtingarmynd hefðbundinna stjórnmála þá þurfi ekki að útskýra það neitt sérstaklega hvers vegna ungt fólk hafi ekki áhuga.