Efnahagsleg staða Evrópu hefur versnað undanfarin misseri. Gengi evrunnar hefur veikst töluvert gagnvart Bandaríkjadal, einkum og sér í lagi eftir Brexit niðurstöðuna í Bretlandi. Þó evran hafi ekki veikst eins mikið og pundið gagnvart Bandaríkjadal, þá er veikingin samt umtalsverð, eða um tíu prósent.
Nýlega birtist greining frá sérfræðingum Deutsche Bank og Goldman Sachs, sem sögðu að veiking pundsins að undanförnu væri bara upphafið af erfiðleikum. Frekari veiking gagnvart Bandaríkjadal sérstaklega væri líkleg, og aðlögun breska hagkerfisins að breyttum veruleika gæti orðið sársaukafull. Þá væri augljóst að evrusvæðið og markaðssvæði Evrópusambandsríkja myndi skaðast. Sérstaklega væri staða bankakerfisins í Evrópu viðkvæm, eins og var raunar til umfjöllunar á vef Kjarnans fyrr í dag. Spjótin beinast ekki síst að Deutsche Bank í þeim efnum.
Miklir hagsmunir
Sé litið á stöðu mála út frá hagsmunum Íslands, þá hefur samkeppnisstaða útflutningsfyrirtækja versnað vegna þessara hreyfinga á gjaldeyrismarkaði. Ísland á mikilla hagsmuna að gæta gagnvart Bretlandi og Evrópu, en um 50 til 70 prósent af útflutningi á vörum og þjónustu er innan álfunnar.
Íslensk fyrirtæki seldu vörur fyrir 120 milljarða til Bretlands í fyrra, og þá hefur ferðaþjónustan notið góðs af mikilli fjölgun ferðamanna sem koma til Íslands frá Bretlandi. Þeir voru um 19 prósent af heildinni í fyrra.
Á skömmum tíma hefur staðan versnað til muna, fyrir útflutningsfyrirtækin. Þau hagnast á því að fá sem flestar krónur fyrir hverja evru, pund eða Bandaríkjadal.
Fyrir tveimur vikum kostaði pundið 180 krónur en það kostar nú 156 krónur. Seðlabanki Íslands hefur beitt sér þannig að á gjaldeyrismarkaði, undanfarna mánuði, að evran hefur verið í kringum 140 til 145 krónur. Hún kostar nú 136 krónur. Bandaríkjadalur kostar 123 krónur.
Breytingin gagnvart Bretlandi er mikil sé horft yfir enn lengra tímabil. Fyrir ári síðan kostaði pundið 212 krónur en er nú 156 krónur, eins og áður segir.
Vöxtur í ferðaþjónustu en minna fyrir pundið
Þegar horft er til vöru- og þjónustuviðskipta frá Íslandi til Bretlands, á nema þau um 250 milljörðum á ári, miðað við stöðu mála í fyrra. Veiking pundsins gagnvart krónunni gæti dregið úr þessum viðskiptum, í krónum talið, á þessu ári en erfitt er þó að segja til um hversu mikið. Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefur haldið áfram á þessu ári, og er gert ráð fyrir um 30 prósent vexti miðað við árið í fyrra, sem þýðir að heildar gjaldeyristekjur þjóðarbússins verði yfir 400 milljarðar króna.
Íslenskra stjórnvalda bíður nokkur flókið og krefjandi verkefni, við að verja íslenska hagsmuni í ljósi breytts veruleika í kjölfar Brexit-kosninganna og áhrifa í kjölfarið á gjaldeyrismarkað. Í þessari stöðu gætu falist tækifæri, en líka miklar ógnanir. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hefur lagt áherslu á að stjórnvöld séu tilbúin til samstarfs við Breta og einnig EFTA-ríkin, til að tryggja að viðskiptasambandið sé traust til framtíðar litið. Þessi vinna er nú í gangi, en ekkert liggur enn fyrir um hvernig Bretland muni standa að því að yfirgefa Evrópusambandið.