Söngkonan Alicia Keys gekk eftir rauða dreglinum á MTV tónlistarhátíðinni í síðustu viku án farða og viðbrögðin létu ekki á sér standa á samfélagsmiðlum. Margir gagnrýndu hana fyrir þessa ákvörðun en aðrir studdu hana. Sumir efuðust jafnvel um sannleiksgildi þess að hún hafi í raun verið ómáluð, aðrir töldu hana vera að setja sig á háan hest og enn aðrir klöppuðu henni lof í lófa. Með því að hætta að nota farða þá segist hún vilja hrinda af stað byltingu og breyta hugarfari gagnvart viðhorfum til útlits kvenna.
Umræðan afhjúpaði í raun þær skorður sem konum eru settar varðandi útlit. Í rauninni má líta svo á að bara það að fólk taki afstöðu til þess, hvort einhver sé farðaður eða ekki, sé áhugavert út af fyrir sig. Söng- og leikkonur hafa í gegnum tíðina verið eins konar táknmyndir fyrir hvernig konur eigi að líta út. Elizabeth Taylor og Audrey Hepburn eru dæmi þess á 20. öldinni en þær voru fyrirmyndir fyrir konur út um allan heim. Förðun og andlitsmálning á sér þó langa sögu og djúpar rætur og viðhorfin til þessara athafna hafa verið mismunandi eftir tímabilum og menningarheimum.
Fann fyrir mikilli pressu
Þessi ákvörðun söngkonunnar að hætta að nota farða var ekki tilviljunarkennd en hún gerði grein fyrir máli sínu í bréfi sem birtist á LennyLetter.com í maí 2016. Hún lýsir þar á greinargóðan hátt þeirri samfélagspressu sem ungar stúlkur finna mjög snemma fyrir á lífsleiðinni og eru undir fram eftir aldri.
Keys vísar í eigin reynslu og segir frá því hvernig var að vera í sviðsljósinu sem ung söngkona. Hún segist hafa verið óörugg og notað farða til að fela óöryggið. Þess vegna hafi hún tekið þessa ákvörðun, hún vildi ekki hylja sig lengur. Ekki andlitið, ekki hugann, ekki sálina, ekki hugsanir, ekki drauma, ekki erfiðleika og ekki tilfinningalegan þroska. Hún vildi ekki hylja neitt lengur.
Notkun farða ekki bara fyrir konur
Saga förðunar er löng en hún er talin vera allavega 5000 ára gömul. Á árunum 3000-1500 f.Kr. í Egyptalandi til forna málaði fólk af báðum kynjum varirnar með rauðum lit. Það málaði einnig svarta línu í kringum augum en talið er að ástæður þess hafi verið trúarlegar, sem og hagnýtar. Svarti liturinn varði húðina fyrir eyðimerkursólinni og viðhélt æskilegu rakastigi húðarinnar. Einnig var talið að liturinn verði þann sem bar hann einnig fyrir illum öndum eða hinu svokallaða „illa auga“. Þennan sið má sjá á vegg- og höggmyndum þessa tíma.
Fleiri menningarheimar tóku upp andlitsmálningu. Gyðingar, Rómverjar og Persar notuðu til að mynda andlitsmálningu í ýmsum tilgangi og í Asíu, Kína og Japan var sérstök tegund af svepp borin á húðina til þess að koma í veg fyrir öldrun hennar.
Kajal notað til að vernda augun
Á Indlandi er saga förðunar löng. Fólk þar í landi hefur lengi notað andlitsmálningu, bæði konur og karlar. Slíkt athæfi hefur meira með trúariðkun og menningu að gera en útlitskröfur.
Frá fornu fari hafa Indverjar málað svartar línur í kringum augun og litað augnhárin svört með svokölluðu kajal en það er það sama og hið afríska og mið-austurlenska kohl sem unnið er úr antímonsalla. Enn í dag er kajal notað, til dæmis til að vernda augun fyrir sól. Það er jafnvel borið á smábörn til þess að styrkja og vernda augun og fyrir „illum augum“.
Ekki má gleyma bindi, rauða punktinum sem Indverjar setja eða mála milli augnanna. Þrátt fyrir að þetta fyrirbæri sé orðið að eins konar tískubylgju þá á það sér langa sögu og merkingu. Í hindúisma er svæðið milli augnanna þekkt sem ajna eða „þriðja augað“ en það er orkustöð sem Indverjar trúa að sé miðpunktur andlegrar orku og að í henni sé innbyggð viska. Þegar manneskja, kona eða karl, setur rauða punktinn milli augnanna er hún að auka fegurð sína og andlega orku. Nú á dögum er einnig til siðs að nota skraut í staðinn fyrir rauða punktinn.
Einnig hefur verið til siðs í ýmsum menningarheimum að lýsa húðina en á mörgum tímabilum í gegnum söguna hefur föl eða ljós húð verið tákn velmegunar. Þetta má sjá enn í dag en á mörgum stöðum í heiminum má finna svipuð viðhorf; því ljósari sem húðin er því fallegri þykir hún. Ýmsar leiðir hafa verið notaðar til þess að lýsa húðina t.d. með því að nota efnablöndur eða að fara í húðaðgerðir.
Farði ósmekklegur á öðrum tímabilum í sögunni
Farði hefur oft verið litinn hornauga í vestrænni menningu. Viktoría drottning lýsti því til dæmis yfir að hann væri ósmekklegur og óviðeigandi og að hann skyldi aðeins nota í leiksýningum. Farði var þannig tengdur vændi og leiklist. Litið var niður á konur sem förðuðu sig þannig að eftir var tekið.
Á þessum tíma átti ráðsett kona að nota heimagerðan maska úr náttúrulegum hráefnum eins og höfrum, hunangi og eggjahvítu. Til að hreinsa húðina átti hún að nota rósavatn eða edik. Hún átti að plokka augabrúnir, nudda laxerolíu á augnhárin, setja hrísgrjónapúður á kinnar og nef og pússa neglurnar til að fá glansa. Ekki átti að nota varalit en þó var borin olía á varir til að gera þær líflegri. Ýmsar aðferðir hafa þannig verið notaðar til að ýkja náttúrulega fegurð á tímum þar sem áberandi förðun var illa séð.
Förðun og andlitsmálning hefur þannig ekki alltaf verið vel liðin og hefur fólk þurft að gjalda fyrir að mála sig í gegnum tíðina. Einnig hafa ýmis eiturefni verið notuð í snyrti- og förðunarvörur sem hafa valdið alvarlegum aukaverkunum og jafnvel varanlegum afleiðingum eins og blindu. Mikil notkun snyrtivara sem innihéldu blý leiddu í verstu tilfellunum til dauða.
Karlmenn förðuðu sig einnig í Englandi fram á 19. öld, þrátt fyrir að það hafi ekki talist mjög almennt. Georg IV eyddi til að mynda fúlgu fjár í snyrti- og förðunarvörur.
Maskarinn og augnskugginn verður að iðnaði
Bylting varð á Vesturlöndum í snyrtivöruiðnaðinum í byrjun 20. aldar. Fram að þeim tíma höfðu konur búið til sinn eigin maskara.
Eugène Rimmel fann upp fyrsta maskarann án eiturefna sem kom á markað árið 1917. Maskarinn varð svo vinsæll að í mörgum tungumálum enn í dag er maskari kallaður „rimmel“. Annar vinsæll maskari var nefndur eftir Mabell, systur uppfinningamannsins, T.L. Williams en hann er þekktur í dag sem Maybelline.
Tískubylgjur einkenna förðun á Vesturlöndum allt til dagsins í dag og er það iðulega fræga fólkið, leik- og söngkonur, sem mótar tískuna. Á fyrri hluta 20. aldar fóru konur að mála sig í auknu mæli. Miklar framfarir urðu í framleiðslu hjá snyrtivörufyrirtækjum og voru kvikmyndastjörnur iðulega fyrirsætur og fyrirmyndir fyrir aðrar konur. Audrey Hepburn var til að mynda vinsæl leikkona og fyrirsæta á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en hún var fræg fyrir að mála dökka línu í kringum augun. Þessar dökku línur voru áberandi í förðun næstu áratugi með fjölbreyttum og lituðum augnskuggum og varalitum.
Snyrtivöruiðnaðurinn óx gríðarlega á síðustu öld og í dag er hann metinn á tug milljarða dollara. Úrvalið og magnið af snyrtivörum sem seldar eru út um allan heim hefur aldrei verið meira og þar af leiðandi pressan að líta út á einhvern ákveðinn hátt.
Opinberun tvískinnungsins
Þessi stutta yfirferð yfir sögu förðunar segir okkur að tilhneigingin sé rík að mála andlit, hvort heldur í trúarlegum tilgangi eða í fegurðarskyni. Tískubylgjur ganga yfir mismunandi tímabil og móta hegðun fólks. Kröfurnar sem sérstaklega konur standa frammi fyrir á hverjum tíma fyrir sig eru mismunandi eftir því hvernig samfélagsgerðin er hverju sinni.
Þessi samfélagspressa er áberandi á þeim tímum sem við lifum nú og birtist vel í umræðunni í kringum ákvörðun Aliciu Keys um að hætta að farða sig. Með þessari einföldu ákvörðun hefur hún opinberað bæði ójafnrétti og lasið viðhorf í samfélagsgerð Vesturlanda. Viðbrögðin við ákvörðun hennar hafa sýnt að konum er ekki „frjálst“ að haga lífi sínu eins og þær vilja eða óska. Sami tvískinnungur birtist í umræðunni um búrkur og bikiní en það er efni í aðra grein.