Sverð eru iðulega örlagavaldar í Íslendingasögunum en gott dæmi þess er Fótbítur, sverð Geirmundar gnýs í Laxdælu. „Mikið fé læt eg annað áður mér þykir betra að missa sverðsins,“ mælir hann og er tilbúinn að fórna miklu fyrir sverðið áður en hann leggur bölvun á það og ferst með skipi sínu. Forvitni vaknar nú þegar „nýtt“ sverð er fundið í Skaftárhreppi. Það fannst í byrjun september en slíkir fundir eru sjaldgæfir hér á landi. Kjarninn náði tali af tveimur fornleifafræðingum sem hafa velt fyrir sér og stúderað sverðfundi á Íslandi.
Helmingur kumla rænd
Slíkir fundir eru algengastir í kumlum eða gömlum gröfum að sögn Steinunnar J. Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hún segir að rúmlega tuttugu sverð hafi fundist á að minnsta kosti 200 ára tímabili sem segir hversu fátíðir slíkir fundir eru. Sverðið sem nýlega fannst er talið hafa legið í kumli og líklegt þykir að það hafi færst úr stað í Skaftárhlaupi.
Um 320 kuml hafa fundist á Íslandi og mörg þeirra, eða um helmingur, hafa verið rænd, að sögn Steinunnar. Hún segir að ránin hafi gerst mjög snemma eftir að fólk hefur verið grafið í kumlunum og að þess vegna séu ekki mörg sem eru óskemmd. Sautján sverð hafa fundist í kumlum og hin voru lausafundir.
Dýrmætir hlutir grafnir með eigendunum
„Það tíðkaðist á þessum tíma að grafa fólk með eigum sínum, með þessu svokallaða haugfé,“ segir Steinunn. Hún segir að það hafi tíðkast á öllum tímum að grafa fólk með einhverjum gripum og meira segja í dag sé þetta enn gert. Hún bendir þó á að á kristnum tíma hafi þetta orðið mjög sjaldgæft og þá hafi það yfirleitt verið sálmabók sem fór með í gröfina. En á heiðnum tíma, á víkingaöld, hafi grafir oft verið mjög ríkulegar og mikil verðmæti í þeim.
En hvernig telur Steinunn að sverðin hafi verið notuð? „Ég held að sverðin hafi verið notuð sem vopn. Og miðað við hvað það hafa fundist fá sverð þá hljóta þetta að hafa verið mjög verðmætir gripir,“ segir hún. Og mjög sjaldgæfir, bætir hún við.
Hún segir að í Íslendingasögunum hafi sverð verið ígildi jarðar eða báts. Það kemur fram í Vatnsdælasögu þar sem synir skipta eigum föður síns. Einn sonurinn fær sverðið, einn bæinn og einn bátinn. Hún segir að það hafi verið stöðutákn að eiga sverð.
Einungis karlmenn áttu sverð
Steinunn bendir á að sverð hafi aldrei fundist í kvenkumli og þess vegna sé talið að konur hafi allajafna ekki átt sverð. „Að sama skapi virðast það vera kúptar nælur sem eru frekar sjaldgæfar líka, en þó algengari en sverðin, sem hafi verið tákn um stöðu kvenna. Og þær hafa aldrei fundist í karlkumli,“ segir hún. Hún segir að þessir tveir hlutir séu einu hlutirnir sem bundnir eru við kynin. Annað hefur fundist í báðum kumlum, skartgripir, perlur og fleira.
Sverðin innflutt
Að sögn Steinunnar voru þeir sem smíðuðu sverðin mjög hátt skrifaðir, eins og eigendurnir. Það hafi alls ekki verið á færi allra að smíða slík sverð en það hefur tekið tvö til þrjú ár að smíða gott sverð. Hún segir að þau hafi ekki verið búin til hér á landi og séu því innflutt. Ákveðnir smiðir hafi framleitt sverðin og að viss tískufyrirbrigði hafi tíðkast í smíðinni.
Steinunn segir að blöðin í þau, sverðblöðin sem yfirleitt voru tvíeggja, hafi verið framleidd í Bæjaralandi og flutt þaðan til Skandinavíu þar sem hjöltun hafi verið búin til á þau.
Síðan hafi víkingarnir farið aftur með sverðin tilbúin suður eftir meginlandinu og drepið mann og annan, sem hafi orðið til þess að bann var sett við útflutningi á sverðblöðum frá Bæjaralandi. Þá hafi sum þessara sverða ratað til Íslands með víkingum sem voru að flytjast hingað til Íslands allt fram til aldamótanna 1000, jafnvel enn lengur. Öll sverðin sem fundist hafa á Íslandi eru frá árunum 870-1000.
Hægt að aldursgreina á hjöltunum
Sverðið sem fannst núna er Q-gerð sem segir okkur að það hafi verið búið til á bilinu 900-1000. Steinunn segir að þetta sé algengasta tegundin sem fundist hefur til dæmis í Noregi og það gæti bent til tengsla þangað.
Kerfið sem farið er eftir er nefnt eftir norska fornleifafræðingnum Dr. Jan Greve Thaulow Petersen. Hann skrifaði bókina Norska Víkingasverðið árið 1919 og eru kenningar hans og viðmið enn þann dag í dag notuð til að aldursgreina sverð. Kerfið gengur út á að það sáist á hjöltunum hvaða gerðar sverð eru og þar af leiðandi frá hvaða tímabili. Þess vegna eru sverð sem finnast án hjalta erfiðari í aldursgreiningu.
Fann sjálf sverð
Steinunn fann sjálf sverð fyrir tutttugu og einu ári í Skriðdal í Fljótsdal. Kumlið var óraskað og mikið haugfé var í því. „Þar voru skartgripir, vopn, heimilisáhöld og hestur í fullum reiðtygum,“ segir hún. Talið er að það hafi verið tengt Graut-Atla, þann sem nam Atlavík, en eru það einungis vangaveltur. Sverðið er V-gerð.
Hún segir að hún hafi í raun ekki áttað sig á því að þetta hafi verið svona merkilegt. „Seinna meir þá hef ég verið að velta því meira fyrir mér hvað það er lítill möguleiki á að finna sverð,“ segir hún. Og vegna fundarins núna þá séu margir spenntir sem vinna á þessum vettvangi.
Sverð hafa fundist hringinn í kringum allt landið. Steinunn segir þó að á ákveðnum svæðum á landinu hafi fundist fleiri kuml en annars staðar. Þar nefnir hún Fljótsdalshérað og ákveðin svæði fyrir norðan eins og Svarfaðardal. Þar hafi fundist mjög kuml og eins á Suðurlandi.
„Nýja“ sverðið hánorrænn gripur
„Gripir af þessu tagi eru mjög óalgengir og fágætir hér á safninu,“ segir Ármann Guðmundsson, fornleifafræðingur og verkefnastjóri á Þjóðminjasafni Íslands, um nýfundna sverðið. Hann tekur undir með Steinunni og bendir á að Q-gerðin sé fremur algeng sem og M-gerðin. Hann segir að þetta sverð sé hánorrænn gripur því að þessi Q-gerð finnist nánast ekkert á Bretlandseyjum og hafi einungis eitt þannig sverð fundist í Skotlandi. En fjöldinn allur í Skandinavíu.
Ármann segir að ýmsar ástæður gætu legið að baki því að ekki hafi fundist fleiri sverð á Íslandi en raun ber vitni. Ein ástæðan gæti verið að þau finnist aðallega í kumlum og að fá kuml hafi fundist.
„Þetta er þriðja sverðið sem kemur hingað inn á 20 árum, þannig að það er ekki eins og það gerist á hverjum föstudegi,“ segir Ármann. Öll sverðin eru geymd á Þjóðminjasafninu.
Sverðin verða að mold sé ekkert að gert
Allir gripir sem finnast þurfa að fara í forvörslu en hún miðar að því að koma þeim í stöðugt ástand, segir Ármann. „Efnin hafa tilhneigingu til að leita að uppruna sínum. Ef ekkert er að gert, þá mun þetta grotna niður og verða að mold. Þar grípum við inn í og það er forvarslan,“ segir hann. Gripirnir séu síðan geymdir við bestu aðstæður sem hugsast geta.
Að lokum segir Ármann að það sé gott hjá þeim sem fundu þetta sverð að koma því til Minjastofnunar, til þess að allir geti notið þess; „Því við eigum þetta saman, öll þjóðin.“