Ekki er hægt að fá upplýsingar um hvaða aðilar hafa sýnt áhuga á því að kaupa Lyfju af íslenska ríkinu, samkvæmt opinberum svörum félagsins Lindarhvols, sem ríkið á, en það heldur utan um safn eigna sem kom í skaut þess með stöðugleikaframlagi slitabúa föllnu bankanna.
Kjarninn spurðist fyrir um hverjir hefðu sýnt því áhuga að kaupa Lyfju, en í svari Lindarhvols segir að ekki sé hægt að upplýsa um það, á þessari stundu.
Lyfja rekur um 30 apótek um allt land og hjá fyrirtækinu starf um 300 manns.
Hversu mörg tilboð hafa borist í Lyfju, og hvaða aðilar eru það sem hafa fengið að skoða gögn um efnahag fyrirtækisins?
„Eins og kemur nánar fram á heimasíðu Lindarhvols ehf. þá var Lyfja hf. sett í opið söluferli og var söluferlinu skipt upp í tvennt, annars vegar fyrsta stig þar sem áhugasamir aðilar gátu sent inn óskuldbindandi tilboð og síðan annað stig sem felur í sér áframhaldandi ferli sem á að skila sér í skuldbindandi tilboðum áhugasamra fjárfesta. Þar sem niðurstaðan af söluferlinu liggur ekki fyrir á þessari stundu og söluferlið áfram í vinnslu er því ekki hægt að upplýsa nánar um stöðu söluferlisins opinberlega á þessu stigi þess en upplýst verður um niðurstöðu þess þegar nær dregur,“ segir í svari Lindarhvols.
Hvaða eignir eru í söluferli núna?
„Með vísan til nánari upplýsinga á heimasíðu Lindarhvols ehf., þar sem söluferli eigna er tilkynnt en söluferli þeirra er hagað í samræmi við samþykktar reglur þess um söluferli eigna í umsýslu félagsins, þá eru eftirfarandi eignir í söluferli núna: Lyfja hf., Vörukaup ehf. og kröfur á Glitni ehf., Klakka ehf. og Gamla Byr eignarhaldsfélag ehf,“ segir í svari Lindarhvols.
Þá er einnig tekið fram í svarinu að ekki sé hægt að upplýsa um á hvaða einstaklinga eða einkahlutafélög Lindarhvoll eigi kröfu, þar sem slíkt samræmist ekki persónuverndarsjónarmiðum upplýsingalaga. „Félaginu er ekki heimilt að upplýsa opinberlega um kröfur á tiltekna einstaklinga og einkahlutafélög,“ segir í svarinu, og einnig tekið fram að ekki sé hægt að upplýsa um upphæðir sem um ræðir.
Búið að selja hluti í skráðum félögum
Lindarhvoll hefur á undanförnum vikum selt 6,38 prósent hlut í Reitum fyrir 3,9 milljarða og 13,93 prósent hlut í Sjóvá fyrir 2,8 milljarða. Kaupendur voru fjárfestar á markaði, lífeyrissjóðir, bankar og tryggingarfélög þar á meðal. Landsbankinn annaðist söluna sem fór fram í opnu söluferli á markaði.
Hinn 5. október næstkomandi rann út frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum í Lyfju hf. sem ríkið á að fullu.
Þeim sem áttu hagstæðustu tilboðin er boðin áframhaldandi þátttaka í ferlinu og fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegri gögnum, kynningu á félaginu frá stjórnendum Lyfju hf. og gefst kostur á að framkvæma áreiðanleikakönnun á félaginu.
Það er Virðing hf. sem sér um söluna.
Hinn 29. september síðastliðinn auglýsti ríkið svo eignarhluti sína í Glitni Holdco ehf., Klakka ehf., ogGamla Byr Eignarhaldsfélagi ehf.
Söluferlið byggir á samþykktum reglum um sölu eigna ríkissjóðs sem eru í umsýslu Lindarhvols ehf., þar sem kemur fram að við sölu eigna skuli leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignirnar, eins og segir á vef Lindahvols.
Söluferlið er opið öllum aðilum gegn undirritun þeirra á trúnaðaryfirlýsingu og skilmálabréfi.
Fjárfestar sem þess óska verður boðið að taka þátt í söluferlinu gegn undirritun þeirra á trúnaðaryfirlýsingu og skilmálabréf þar að lútandi.
Áhugasömum bjóðendum var boðið að skila inn skuldbindandi tilboðum með sérstaklega tilgreindum fyrirvörum fyrir kl. 16.00, föstudaginn 14. október 2016, að því er sagði í auglýsingu.
Miklar eignir
Verðmætin, sem slitabú viðskiptabankanna þriggja auk minni slitabúa lögðu fram í tengslum við gerð nauðasamninga, má í meginatriðum flokka í laust fé, framsalseignir og framlag vegna viðskiptabanka.
Þar á meðal var eignarhlutur í Íslandsbanka og skuldabréf sem Kaupþing gaf út með veði í Arion banka hf. Skuldabréfið verður greitt upp við sölu Arion banka hf. en ríkissjóður fær vaxtatekjur af bréfinu fram að því. Með öðrum orðum þá fær ríkissjóður söluandvirði Arion banka.
Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkissjóðs í Íslandsbanka og einnig í Landsbankanum. Lindarhvoll annast umsýslu, fullnustu og sölu annarra eigna og hafa eftirlit með svonefndum fjársópseignum.
Meðal þeirra eigna sem fóru í umsýslu hjá Lindarhvoli voru hlutir í eftirtöldum félögum og sjóðum: ALMC eignarhaldsfélag ehf., AuÐur I fagfjárfestingasjóður, Bru II Venture Capital Fund, DOHOP, Eimskip hf., Eyrir Invest hf., Internet á Íslandi, Klakki ehf., Lyfja hf., Nýi Norðurturninn ehf., Reitir hf., S Holding ehf., SAT eignarhaldsfélag hf., SCM ehf., ög Síminn hf.
Loks eru í flokki framsalseigna ýmsar kröfur á einstaklinga og kröfur á 38 félög, sem falla undir persónuverndarákvæði upplýsingalaga, og gefur Lindarhvoll ekki upp hvaða eignir þetta eru nákvæmlega.
Verðmæti þessara eigna, samtals, hleypur á tugum milljarða króna.
Í stjórn Lindarhvols eru Þórhallur Arason úr fjármála- og efnahagsráðuneytingu, sem jafnframt er stjórnarformaður, Ása Ólafsdóttir, meðstjórnandi, og Haukur C. Benediksson, meðstjórnandi, en hann hefur farið fyrir Eignasafni Seðlabanka Íslands.