Mikil uppþot hafa orðið eftir að mótmælendur komu séu upp búðum við jaðar verndarsvæðis frumbyggja í Ameríku til þess að lýsa andstöðu við olíuleiðslu í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Tugir manns söfnuðust einnig saman fyrir framan Hvíta húsið í september til að mótmæla olíuleiðslunni sem mun liggja í gegnum fjögur fylki í Bandaríkjunum og samkvæmt þeim hafa neikvæð áhrif á fólk og vistkerfi á svæðinu.
En ekki hafa einungis mótmælin komist í heimspressuna heldur hefur athyglin beinst að blaðamönnum og tökufólki sem hyggst hefur skrásetja mótmælin sjálf. Yfirvöld á staðnum hafa brugðist ókvæða við og sakar þetta fólk um ýmiss konar lögbrot. Mikil spenna hefur ríkt milli lögreglu og mótmælenda og þannig hafa blaðamenn og mótmælendur ýmist verið handteknir eða ákærðir fyrir misalvarleg brot og gefnar hafa verið út handtökuskipanir á þá.
Heilagt land og mikilvægt vatn
Forsagan er sú að mótmælendur lýstu andstöðu sinni við olíuleiðslu frá Kanada til Bandaríkjanna í Norður-Dakóta fylki. Áætluð leiðsla mun liggja við Standing Rock Sioux-verndarsvæði frumbyggja Ameríku. Mótmælendur telja að leiðslan fari inn á heilagt svæði og muni getað mengað drykkjarvatn á svæðinu.
Aðallega er um að ræða fólk sem býr á svæðinu og frumbyggja, þrátt fyrir að margir hvaðanæva af landinu hafi slegist í för með þeim. Margir þeirra hafa nú komið sér fyrir sitt hvoru megin við Cannonball-ána sem rennur þar hjá. Sumir líta svo á mótmælin snúist ekki bara um þetta svæði eða þessa olíuleiðslu heldur horfa þeir á hlutina í stærra samhengi þar sem mótmælin standi fyrir almennum náttúruverndargildum.
Eins og fyrr segir hafa mótmælin staðið yfir í marga mánuði og virðist ekkert lát vera á þeim. Nýtt samfélag hefur myndast og margir hafa byggt sér skýli og athvörf til að viðhafast í.
Á yfir höfði sér þungan dóm
Heimildamyndagerðarkonan Deia Schlosberg hefur verið handtekin en hún tók upp mótmæli sem áttu sér stað á þriðjudaginn í síðustu viku í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Hún hefur verið kærð fyrir þrjú alvarleg brot gegn lögum og gæti átt yfir höfði sér margra áratuga fangelsisdóm verði hún fundin sek. Myndavélin hennar og allar upptökur voru gerðar upptækar en hún hefur ekkert getað tjáð sig um handtökuna.
Fjölmargir hafa skrifað undir opið bréf til Barack Obama þess efnis að handtakan væri „ósanngjörn, óréttlát og ólögleg.“ Söngvarinn Neil Young og leikarinn Mark Ruffalo hafa tekið þátt í umræðunni og skorað á að Schlosberg verði látin laus fyrir þær sakir að hún hafi einungis verið að vinna vinnuna sína. Leikkonurnar Daryl Hannah og Frances Fisher hafa einnig skrifað undir bréfið ásamt fjölda annarra rithöfunda, kvikmyndagerðamanna og blaðamanna. Í bréfinu segir:
„Blaðamennska, sérstaklega heimildamyndagerð, er ekki glæpur. Hún er skylda. Frelsi fjölmiðla er grundvallarréttur okkar í frjálsu samfélagi. Ákærurnar gegn henni eru óréttlátar og það verður að fella þær niður strax.“
Yfirvöld halda því fram að ekki hafi verið um friðsamleg mótmæli að ræða heldur saknæmt athæfi. Lögregluyfirvöld hafa boðist til að skila tækjum Schlosberg því að ekki hafi verið markmiðið að koma í veg fyrir skrásetningu atburðanna.
Tjáningarfrelsi í hættu
Blaðakonunni Amy Goodman átti einnig yfir höfði sér ákærur fyrir að taka þátt í óeirðum í september eftir að hafa kvikmyndað mótmælin. Lögregluyfirvöld gáfu út handtökuskipun á hendur henni. Þetta kom fram á BBC en þar kemur fram að hún segist ásótt fyrir það eitt að vinna vinnana sína sem blaðamaður. Hún sagði að hún hefði ekki farið í óleyfi inn á landsvæðið og hefði ekki tekið þátt í óeirðum, eins og yfirvöld saka hana um. Hún hefði verið að vinna sem blaðamaður með því að skrásetja það ofbeldi sem frumbyggjar í Ameríku hafi þurft að þola.
Nýlega féll þó dómur á þann veg að slíkar ákærur væru ekki réttlætanlegar þar sem sannanir vantaði fyrir þeim. Mikil ánægja hefur verið með dómarann sem tók þessa ákvörðun og segir Goodman að dómurinn hafi verið í þágu tjáningarfrelsis fjölmiðla.
Hér fyrir neðan má sjá eina umfjöllun Goodman um mótmælin.
Hollywood-stjarna handtekin
Leikkonan Shailene Woodley tók þátt í friðsælum mótmælum í byrjun október. Hún var handtekin ásamt 26 öðrum og ákærð fyrir minniháttar brot. Henni hefur nú verðið sleppt. Woodley tók upp handtökuna á Facebook en hana má sjá hér fyrir neðan.