Tölvuárás átti sér stað á fjölmargar vefsíður í gær og varð mikil truflun á netnotkun, einkum í Bandaríkjunum, vegna þessa. Árásin þykir gefa vísbendingar um að óöryggi vegna vaxandi viðskipta á internetinu sé aðkallandi mál að leysa.
Samfélagsmiðlar og efnisveitur á borð við Twitter, Airbnb og Netflix voru gerðar óaðgengilegar fyrir milljónir notenda í Bandaríkjunum og Evrópu, og þá var samband við Spotify einnig rofið á tímabili.
Árásirnar voru ítrekað gerðar og náðu varnir þessara vefmiðla ekki að koma í veg fyrir að þær trufluðu þjónustu og viðskipti.
Netárásirnar eru til rannsóknar hjá þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) og Bandarísku alríkislögreglunni (FBI), og hafa stofnanirnar varist frétta af þeim.
Á meðan á árásunum stóð gátu netverjar ekki birt færslur á samfélagssíðum, verslað, horft á myndbandsupptökur eða spilað tölvuleiki á netinu. Tjónið vegna þessa var gríðarlega umfangsmikið, þó erfitt sé að meta það til fjár, að því er fram kom í umfjöllun tæknivefsins The Verge. Árásirnar eru litnar alvarlegum augum.
Netþjónustufyrirtækið Dynamic Network Services Inc. (Dyn) tilkynnti um ellefuleytið í gær að ráðist hefði verið á þjónustu fyrirtækisins.
Meðal þeirra vefsíða sem urðu fyrir truflunum voru Reddit, fjölmiðlarnir CNN, Guardian, HBO og People tímaritið, sem og greiðsluþjónusta PayPal.
Þá varð verslunar- og fjölmiðlarisinn Amazon einnig fyrir truflunum og komust notendur ekki inn á heimasvæði sín á tímabili, vegna árásanna. Það tók þó ekki langan tíma að ná þjónustunni aftur í lag.
Kort sem birt var af þeim stöðum sem yrðu fyrir truflunum vegna netárásanna náði upphaflega yfir stóran hluta austurstrandar Bandaríkjanna og Texas, en síðar í dag voru áhrif árásanna einnig greinanleg í Miðvesturríkjunum og Kaliforníu, og þá urðu notendur Netflix, Spotify og Twitter í Evrópu einnig fyrir truflunum.