„Af sjö fulltrúum í kosningaþætti á Stöð tvö í kvöld, voru fimm sem vilja sækja um aðild að ESB.“ Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. „ESB er komið á þann stað að því hefur verið líkt við brennandi hús. Þar vilja þessir flokkar slá upp sínum tjöldum. Og kljúfa þar með þjóðina AFTUR,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson einnig.
Staðreyndavakt Kjarnans ákvað að sannreyna þessa fullyrðingu Sigurðar Inga, hvort fimm flokkar vilji sækja um aðild að ESB.
Stefnur flokkanna
Byrjum á að skoða stefnur flokkanna eins og þær birtast á netinu.
Sjálfstæðisflokkurinn „áréttar að hagsmunir Íslands eru best tryggðir utan Evrópusambandsins. Aðildarviðræður má ekki hefja að nýju nema þjóðin verði fyrst spurð í beinni atkvæðagreiðslu hvort hún óski eftir aðild að ESB.“ Framsóknarflokkurinn „telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins og hafnar því aðild að sambandinu.“
Samfylkingin er fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu og segir: „Til að auka stöðugleika í utanríkisviðskiptum, ýta undir erlendar fjárfestingar og bæta hag landsmanna vill Samfylkingin að evra verði tekin upp sem gjaldmiðill hér á landi í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.“ Vinstrihreyfingin grænt framboð vill að „Ísland standi utan ESB“.
Viðreisn segir að „aðild að Evrópusambandinu fylgja margir kostir sem styrkja stöðu Íslands og efla hagsæld. Þess vegna á að bera undir þjóðaratkvæði hvort ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn hvetur til þess að þeim viðræðum verði haldið áfram og lokið með hagfelldum aðildarsamningi, sem borinn verði undir þjóðina og farið að niðurstöðum þeirrar atkvæðagreiðslu.“
Björt framtíð leggur áherslu á að „landa góðum samningi við ESB sem þjóðin getur eftir upplýsta umræðu, samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Píratar vilja „efna loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB“ og „færa þjóðinni valdið í reynd með því að treysta henni til að taka upplýsta ákvörðun um sameiginlega hagsmuni. Þjóðin á að ráða svona stóru máli sjálf.“
Hvað sögðu þau í gær?
Þannig liggur það fyrir að það er ekki stefna fimm af þessum sjö flokkum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hér má sjá nákvæmlega hvað þessir sjö fulltrúar frá flokkunum sögðu um málið á Stöð 2 í gær.
„Það liggur alveg fyrir hér að við viljum ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, meðal annars um málið. Jón Þór Ólafsson frá Pírötum talaði aðeins um að færa valdið til þjóðarinnar. Fulltrúar flestra þessara flokka sögðust hins vegar þeirrar skoðunar að halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður að Evrópusambandinu. En það kom alls ekki fram í þættinum að fulltrúar frá fimm flokkum hafi lýst því yfir að þeir vilji aðild að Evrópusambandinu, eins og hlusta má á hér að ofan.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar er því sú að þessi fullyrðing sé haugalygi hjá Sigurði Inga. Hann var sjálfur viðstaddur í kosningaþættinum, og afstaða flokkanna er einnig ekki ný af nálinni.
Ertu með ábendingu fyrir Staðreyndavakt Kjarnans? Sendu okkur línu á stadreyndavaktin@kjarninn.is.