Siðfræði hefur verið ofarlega á baugi í íslenskri umræðu síðan í hruni og margir hafa velt fyrir sér hvort þörf sé á frekari kennslu í til dæmis viðskiptasiðfræði eða reglusetningu. En þá vakna spurningar hvort nóg sé að setja siðareglur til að viðhalda góðri hegðun í starfsstéttum og hvort ekki sé einnig mikilvægt að notast við dómgreindina og heilbrigða skynsemi þegar við á.
Tilhneiging er að fylgja siðareglum bókstaflega og líta svo á að það sem þær banni ekki sérstaklega sé siðferðilega heimilt. Þetta segir Øyvind Kvalnes dósent í viðskiptasiðfræði í Osló en hann hélt fyrirlestur um smugur í siðfræðinni í Þjóðminjasafninu síðastliðinn miðvikudag. Hann var haldinn í tilefni útgáfu bókar hans Siðfræði og samfélagsábyrgð í íslenskri þýðingu Jóns Ólafssonar. Kjarninn leit við og náði tali af þýðandanum.
Sumir undanþegnir siðareglum
Kvalnes segir að það sé ekki nóg að líta til laga þegar huga skal að siðferðilegri breytni. „Það eru hlutir sem við megum lagalega gera en það gætu verið aðrar ástæður fyrir því að ekki væri skynsamlegt að haga sé á einhvern ákveðinn hátt,“ segir hann.
Til þess að útskýra smugusiðfræði þá tekur hann til dæmisögu frá 18. öld um smiðinn og bakarann. Hann segir að þetta sé fyrsta dæmið sem hann muni eftir sem lýsi og útskýri þetta fyrirbæri vel. Í litlum bæ lendir smiður nokkur í slagsmálum á krá og verður þess valdandi með einu hnefahöggi að andstæðingur hans deyr. Hann er dreginn fyrir framan dómara og bíður eftir dauðadómi fyrir sakir sínar. En rétt áður en dómarinn gefur upp sinn dóm þá fær hann heimsókn frá framámönnum í samfélaginu sem benda honum á að smiðurinn sé sá eini í bænum og að það sé erfitt að fá góðan smið. Það þyrfti að hafa það í huga fyrir dómsuppkvaðningu.
Framámennirnir vildu benda dómaranum á að bærinn hefði aftur á móti tvo bakara, og annar væri hvort sem er gamall. Af hverju ekki að dæma gamla bakarann í staðinn fyrir smiðinn? Útkoman yrði þannig betri fyrir bæinn. Dómarinn sér hvergi í lögum að ekki megi dæma bakara fyrir smið, svo úr verður að hann dæmir bakarann til dauða.
Þannig hefur sá sem þykir merkilegur fyrir samfélagið ákveðna siðferðilega vernd ólíkt öðrum. Kvalnes segir að hann sjái hliðstæð dæmi í nútímasamfélagi. Ríkt fólk komist til dæmis frekar upp með ósæmilega hegðun en aðrir. Fjölmiðlar og samfélagið hefur tilhneigingu til að vernda „mikilvæga“ fólkið. Fólk í viðskiptalífinu og stjórnmálum líti þannig á sig sem undanþegið almennu siðferði. Það sé of mikilvægt til að taka afleiðingum gjörða sinna á sama máta og annað fólk.
Jafnvægi milli dómgreindar og reglna
Kvalnes lýsir smugusiðfræði á þann veg að almennt fylgi fólk ákveðnum reglum. Ákveðið jafnvægi verði á milli dómgreindar eða heilbrigðar skynsemi og reglna sem fylgt er eftir. Ef of mikil áhersla sé lögð á reglur og viðmið munum við draga úr dómgreindinni. Þannig sé stundum tilhneiging til að réttlæta hegðun út frá því að hún sé beinlínis ekki bönnuð og farið í kringum reglur.
Reglur geta jafnvel þannig ýtt undir skapandi hugsun við að finna leiðir framhjá reglunum. Afleiðingarnar geta þá orðið þær að fleiri reglur eru settar hver á eftir annarri sem gerir það að verkum að dómgreindin minnkar og heilbrigða skynsemin einnig.
Kvalnes segir að þar af leiðandi líti sumir á hegðun sem nær ekki yfir sérstakar reglur sem réttlætanlega. Það finni smugur í reglunum og siðfræðinni. Dómgreindin sé þá ekki nóg til að ná yfir þá hegðun, heldur einungis reglurnar. Hann telur að þetta sé vafasamt og að nauðsynlegt sé að hafa jafnvægi milli reglna og dómgreindar; ekki treysta einungis á heilbrigða skynsemi og ekki búa til reglubálka sem fylgt er í blindni.
Siðferðileg hugsun nauðsynleg
Jón Ólafsson, heimspekingur og þýðandi bókarinnar, segir að þörf hafi verið á slíkri bók. Hann hafði verið að kenna siðfræði, bæði fyrir viðskiptalífið og almenna siðfræði, og heppilegt lesefni á íslensku fyrir nemendur á þessu sviði er af skornum skammti. Hann segir að hann og fleiri hafi verið að huga að því að skrifa bók sem hentaði til kennslu í hagnýtri siðfræði en eftir að hafa komist í kynni við uppkast af bókinni hans Kvalnes þá hafi hann ákveðið frekar að þýða hana. Hann segir hana mjög aðgengilega og læsilega „Kvalnes hefur lag á að útskýra siðfræðikenningar á einfaldan máta og nýta þær sem verkfæri til að fjalla um spurningar sem koma upp í lífi og starfi,“ bendir hann á.
Jón segir að bókin fjalli um ákvarðanir og starfshætti; hvernig taka megi á hagsmunaárekstrum, hvernig eigi að meta ólíkar kröfur siðferðisins, taka hollustu við samstarfsfólk fram yfir skyldur við samfélagið eða öfugt og svo framvegis. „Þannig hentar hún ekki síst þeim sem ekki hafa kynnst siðfræði áður. Hún hjálpar fólki að skilja vandamálin sem það er að takast á við í starfi á hverjum einasta degi og setja þau í samhengi,“ segir hann.
„Margir halda fyrir fram að siðferði ráðist bara af tilfinningu. Réttsýnt fólk viti alltaf hvað best er að gera. En það skiptir svo miklu máli að átta sig á því að flest störf í nútímasamfélagi eru flókin, bæði hvað varðar mannleg samskipti og ákvarðanir sem fólk þarf að taka frá degi til dags,“ segir Jón. Tilfinningin sé aldrei nóg. Við þurfum að hugsa og læra af reynslu og bæta við skilning okkar á aðstæðum.
Siðferðileg viðmið frekar en reglur
Jón segir að bókin hjálpi fólki að skilja muninn á reglum og heilbrigðri skynsemi. Það verði að túlka reglur út frá dómgreind og nota reglur til að skilja dómgreindina. Þetta sé því víxlverkun. „Það eru til ákveðin verkfæri sem hægt er að nota, reynsla og skynsamleg sjónarmið. Þannig eru reglur og kenningar hjálpartæki – markmiðið er alltaf að taka réttar ákvarðanir að geta réttlætt þær með góðum rökum og ástæðum“ segir hann.
Jón segir að siðareglur séu mikilvæg leið til að nálgast siðfræðilega umræðu. „Mér finnst reyndar betra að tala um siðferðileg viðmið en að tala um siðareglur. Siðareglur má hvorki skilja of þröngt, né halda að þær eigi að vera óbreytanlegar. Í fyrsta lagi skiptir samræðan og umhugsunin, sem fer fram þegar verið er að vinna að þeim, mjög miklu máli,“ segir hann. Allir sem eiga að fara eftir siðareglunum þurfa að koma að þeim og endurskoðun er einnig mjög mikilvæg, að hans mati. „Siðareglur gera ekkert gagn nema það sé verið að hugsa um þær og líka endurskoða þær eftir þörfum,“ segir hann.
Siðareglur síbreytilegar
Siðareglur eru þannig hjálp í viðleitninni til að sinna starfi sínu vel, hvort sem verið er að tala um stjórnmálamenn eða aðrar starfsstéttir. Þær nýtast ekki öðrum en þeim sem vilja nýta þær, að sögn Jóns. Hann segir að þær séu ekki sambærilegar við lagareglur og séu ekki verklags- eða agareglur heldur. Þær skipi ekki fyrir heldur leiðbeini við að hugsa um hlutina og taka afstöðu til þeirra. Þær eigi kannski fyrst og fremst að geta af sér auðmýkt gagnvart verkefnunum sem þurfi að leysa frá degi til dags.
Siðareglur voru samþykktar á Alþingi í mars síðastliðnum og segir Jón að þær séu fjarri því að vera fullkomnar. Þær hafi verið afleiðing málamiðlunar og að það hafi þurft að koma til móts við ýmis sjónarmið. Þingsályktunartillaga um siðareglur fór að lokum í gegnum Alþingi og telur Jón þó að það hafi verið mjög mikilvægt skref. „En þá þurfa menn að halda áfram, það þarf að taka þær aftur upp og endurskoða reglulega. Þannig er það með allar slíkar reglur eða viðmið,“ bætir hann við.
Ekki stinga reglum ofan í skúffu
Hann bendir á að ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar um hvaða gagn sé að siðareglum og að fólk hafi efasemdir um notagildi þeirra. Það komi í ljós að siðareglur geta verið til ills ef fólk býr til reglur og stingur þeim síðan beinustu leið ofan í skúffu – fyllist sjálfsánægju yfir að hafa þær en notar þær ekki í raun. Þær skipti litlu máli ef fólk setur þær einungis til að uppfylla skilyrði en hefur ekki áhuga á að nota þær. „En um leið og fólk er að ræða þær og nota þær til hjálpar og leiðbeiningar þá hafa þær góð áhrif á starfsemi stofnana og fyrirtækja,“ segir hann.
Hann segir að aðalatriðið sé að á fagsviðum fari fram gagnrýnin umræða um starfshætti, viðhorf og ákvarðanir. Að fólk þori að hugsa gagnrýnið um sjálft sig og aðra og leggi sig fram um að rækta fagmennsku. Þannig skipti samræðan ekki síður miklu máli, og jafnvel fremur, en reglurnar sjálfar. Þær séu einungis hjálpartæki.