Fjöldi kvenna í Frakklandi lagði niður vinnu þann 7. nóvember síðastliðinn kl. 16:34 til þess að mótmæla kynbundnum launamun. Samkvæmt tölum Evrópusambandsins eru laun kvenna fyrir sömu vinnu og vinnutíma í Frakklandi 15 prósent lægri en karla. Aðgerðasinnar segja að þannig séu konur að vinna „frítt“ eða með öðrum orðum: þær vinna 38 daga launalaust á ári miðað við karlana. Formælendur mótmælanna hvöttu konur því að leggja niður vinnu og benda á að kynbundinn launamunur sé ekki einungis réttindamál kvenna, hann hafi áhrif á almennan tekjuójöfnuð. Sama dag mótmæltu konur kynbundnu ofbeldi í Madríd á Spáni.
Fólk spyr sig af hverju kynbundinn launamunur viðgangist enn í vestrænum lýðræðisríkjum árið 2016 og enn og aftur kalla konur á réttlæti. Rétturinn til að fá sömu laun fyrir sömu vinnu virðist ekki vera annað en sanngjörn krafa en samt gengur illa að ná þessu fram. Baráttufólk er þó ekki tilbúið að gefast upp og heldur áfram glímunni.
Þær konur sem stóðu í broddi fylkingar segja að mikilvægt sé að vekja athygli á launamun kynjanna árið 2016 og að stjórnvöld standi við viljayfirlýsingar um raunverulegar umbætur í þessum málum.
Íslenska kvennafríið fyrirmynd
Eins og ekki hefur farið framhjá neinum hér á landi þá lögðu konur á Íslandi niður vinnu þann 24. október síðastliðinn í tilefni þess að 41 ár er liðið síðan fyrsti kvennafrídagurinn var haldinn á landinu. Á hinum ýmsu miðlum, sem fjallað hafa um kvennafríið í Frakklandi, er Ísland rætt í sömu andrá og svo virðist sem konur og baráttufólk hafi orðið fyrir áhrifum af kvennafrídeginum hér á landi.
Einnig hefur umræðan færst yfir á samfélagsmiðillinn Twitter undir myllumerkinu #7novembre16H34. Talsmenn kvennafrísins í Frakklandi hafa lagt áherslu á umræðu á samfélagsmiðlunum og hafa þúsundir kvenna sýnt átakinu áhuga.
Ofbeldi einnig mótmælt
Konur komu saman og mótmæltu ofbeldi gegn konum annað árið í röð í Madríd á Spáni sama dag, þann 7. nóvember. Femíníska hreyfingin 7N spratt upp úr mótmælunum á síðasta ári þar sem tugþúsundir kvenna fylltu stræti Madrídar. Samkvæmt tölum Evrópusambandsins urðu 13 milljónir kvenna í Evrópu fyrir ofbeldi árið 2013.
Kvenréttindafélagið var eitt þeirra sem stóð með kynsystrum sínum og sýndi samstöðu á netinu.
16 dagar aðgerða
Frá 25. nóvember til 10. desember næstkomandi munu aðgerðasinnar standa fyrir sérstöku átaki til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi. Tilgangurinn er að vekja konur og karlmenn til athafna til þess að útrýma ofbeldi gegn konum og stúlkum úti um allan heim.
Áherslan árið 2016 er sú að þörf sé fyrir sjálfbæra fjármögnun til að reyna að binda enda á þetta ofbeldi. Helsta áskorunin er að fjármagna þessa baráttu en það gengur misjafnlega vel. Vegna þessa eru úrræðin ekki eins góð og þau gætu verið með meira fjármagni.
UN Women sér um herferð sem tengist þessum 16 dögum aðgerða sem nefnist UNiTE og hvetur fólk til að taka þátt úti um allan heim á þessu tímabili, bæði með því að láta orðið berast í nærsamfélaginu og sýna samstöðu á samfélagsmiðlum undir myllumerkjunum #orangetheworld og #16days.