Eftir að hafa mælst í fjórða sæti í skoðanakönnunum mánuði fyrir fyrstu umferð prófkjörsins kom það verulega á óvart að François Fillon hafi ekki einungis komist í aðra umferðina, heldur unnið með eins afgerandi hætti og raun bar vitni. Í fyrstu umferð prófkjörsins hlaut Fillon 44% atkvæða en Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeaux og fyrrverandi forsætisráðherra í forsetatíð Jacques Chirac, kom annar með 29%. Með því var ljóst að Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands 2007-2012, sem hafði snúið aftur í stjórnmál 2014 sem formaður Repúblíkanaflokksins (flokkurinn bar nafnið Union pour un mouvement populaire (UMP) á þeim tíma), hafði verið slegið úr forsetabaráttunni af fyrrverandi forsætisráðherra sínum, Fillon; maður sem ráðgjafar Sarkozy umtöluðu fyrir skömmu sem "Mr. Nobody". Í annarri umferð prófkjörsins, þar sem tveir efstu frambjóðendurnir úr fyrstu umferð tókust á, hlaut Fillon 66,5% atkvæða og varð þar með forsetaefni flokksins í kosningum sem haldnar verða í apríl á næsta ári.
Kaþólski Thatcheristinn
Fillon stendur fyrir blöndu af íhaldssömum og frjálslyndum stefnum og lýsti sjálfum sér opinberlega sem „Thatcherista“ í prófkjörsbaráttunni sem er vægast sagt óvenjulegt í Frakklandi þar sem vantraust á frjálsa verslun og stuðningur við sterkt ríkisvald á sér sterkar rætur. Hann vill hrista upp í hagkerfi landsins með því að taka slaginn við verkalýðsfélög, fækka ríkisstarfsmönnum, afnema þrjátíu og fimm klukkustunda vinnuviku hjá hinu opinbera, hækka eftirlaunaaldurinn og fækka reglugerðum verulega.
Hins vegar einkennist stefna hans einnig af félagslegri íhaldssemi með kaþólsku ívafi - Fillon kaus gegn lögleiðingu hjónabanda samkynhneigðra árið 2013 og lagði mikla áherslu á „hefðbundin fjölskyldugildi“ í kosningabaráttu sinni. Þá hefur hann tjáð að það séu "of margir" innflytjendur í landinu til að hægt sé að taka á móti þeim á sómasamlegan hátt og talar fyrir harðlínustefnu gegn „íslömskum hryðjuverkum“ í bók sinni „Vaincre le totalitarisme islamique“ (e. Conquering Islamic Totalitarianism) samhliða því að fordæma námskrár í frönskum skólum sem hann telur kenna nemendum að „skammast sín“ yfir nýlendusögu landsins. Fillon er vinur Vladimir Putin, forseta Rússlands, og hefur lýst yfir vilja til að vinna með Rússlandi í baráttunni gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Þessar stefnur brutu í bága við miðjusinnuðum stefnum Juppé í prófkjörinu en ljóst er að frambjóðendurnir tveir fiskuðu ekki á sömu miðum eftir stuðningi; Juppé til vinstri, Fillon til hægri.
Óvænt hindrun Le Pen
Marine Le Pen, leiðtogi öfgahægriflokksins Front National (FN), hefur þegar hafist handa við að smíða saman orðræðu sem gagnrýnir Fillon. Að vanda fyrir öfgahægriflokk er Fillon stimplaður sem „elítisti“ sem stendur fyrir efnahagslegri nýfrjálshyggjustefnu sem gagnast einungis fámennri valdaklíku. Hins vegar gerir harðlínustefna Fillon í innflytjendamálum Le Pen erfitt fyrir þegar kemur að því að aðgreina flokk sinn frá Repúblíkanaflokknum í málaflokki sem hefur sögulega verið meginuppspretta fylgis FN. Fillon gerir fólki sem hefði annars verið líklegt til að kjósa FN kleift að kjósa „virðulegri“ flokk sem samræmist skoðunum þeirra að á svipaðan hátt, og er hann í stöðu til að höfða sérstaklega til íhaldssamra kaþólskra kjósenda. Marion Maréchal-Le Pen, þingmaður FN og barnabarn stofnanda FN, Jean-Marie Le Pen, tjáði í síðustu viku að Fillon væri hættulegur fyrir flokkinn þar sem hann byggi til aðferðafræðilegt vandamál sem FN yrði að yfirstíga.
Þó að Fillon eigi því líklega tök á að sækja mikið fylgi á hægrivængnum er hann fyrirlitinn á vinstrivængnum. FN mun eflaust reyna að nýta sér þessa andúð með popúlisma sínum en flokkurinn sækir nú þegar töluvert fylgi hjá fyrrverandi vinstrisinnuðum kjósendum í iðnaðarsvæðum í Norður- og Austur-Frakklandi sem hafa verið í efnahagslegri lægð í langan tíma. Þá á eftir að koma í ljós hvernig spilast úr frambjóðendabaráttu hins sitjandi vinstriflokks Parti socialiste (PS). François Hollande er óvinsælasti forseti Frakklands í um fimmtíu ár og á eftir að tilkynna um það hvort hann muni gefa kost á sér aftur í prófkjöri flokksins í janúar en helsti keppinautur hans er talinn vera forsætisráðherra landsins, Manuel Valls, sem hingað til hefur sagst einungis vilja bjóða sig fram ef Hollande gerir það ekki. Til að eiga einhverja möguleika verður flokkurinn að sameinast um frambjóðanda en nú þegar hefur Emmanuel Macron sagt af sér stöðu efnahagsráðherra í ríkisstjórn Valls til þess að bjóða sig fram í sínu eigin, óháðu miðjuframboði.
Frexit?
Le Pen hefur heitið því frá árinu 2013 að ef hún vinni forsetakosningarnar þá muni hún muni halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Frakkland eigi að draga sig úr Evrópusambandinu. Brexit hefur gefið henni aukinn meðbyr og er hugsanlegt að forsetakosningarnar í Frakklandi á næsta ári gætu skipt sköpum um framtið Evrópusambandsins (ESB). Fillon, Macron, og PS styðja áframhaldandi aðild en Brexit hefur neytt frambjóðendur og flokka til að endurhugsa áherslur sínar gagnvart því hvernig eigi að umbæta ESB innanfrá og hvernig eigi að haga skilnaðinum við Bretland.
Samkvæmt tveimur skoðanakönnunm sem framkvæmdar voru um helgina eru allar líkur á því að valið verði að lokum á milli Fillon og Le Pen í annarri umferð forsetakosninganna þar sem Fillon mun sigra örugglega. Í ljósi atburða ársins, þar á meðal tilkomu Fillon sem forsetaefni, er þó ekkert gefið í þessum efnum.