Þó það kunni að hljóma smámál fyrir einhverjum, þegar Seðlabanki Bandaríkjanna hækki stýrivexti úr 0,5 í 0,75 prósent, þá er fjarri því að svo sé. Janet Yellen tilkynnti um ákvörðunina í gær og rökstuddi ákvörðunina ekki síst með því, að staða efnahagsmála í Bandaríkjunum væri sterk.
En hvað er það sem valdamesti Seðlabanki heimsins horfði til þegar kom að ákvörðuninni? Hvaða hluti þarf að hafa í huga þegar vaxtaákvarðanir eru metnar?
Fimm atriði, til einföldunar sagt, má telja til sérstaklega.
1. Þegar hrunið varð á fjármálamörkuðum, á árunum 2007 til 2009, lækkaði Seðlabankinn vexti og hélt þeim í 0,25 prósentum í næstum átta ár. Í desember í fyrra voru vextir fyrst hækkaðir, og þá um 0,25 prósentustig. Á þeim tíma kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þeim skilaboðum áleiðis að vaxtahækkunin væri hugsanlega of snemma á ferðinni, þar sem staða efnahagsmála í heiminum væri viðkvæm. Vaxtaákvarðanir seðlabankans hafa víðtæk áhrif á markaði í heiminum og það er margt sem þarf að hafa í huga þegar þær eru annars vegar. Bandaríkjadalur er langsamlega stærsta gjaldeyrisvaraforðamynt heimsins en um 63 prósent af öllum gjaldeyrisforða er í Bandaríkjadal. Vaxtaákvarðanir seðlabankans geta þannig varðar stórar og smáar þjóðir miklu þegar kemur að vaxtakostnaði þeirra og vaxtakjörum almennt.
2. Yellen sagði í rökstuðningi sínu fyrir ákvörðuninni í gær að það væri mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn að vita það, að staða efnahagsmála í Bandaríkjunum væri sterk og ætti eftir að batna enn frekar á næsta ári. Meðal annars þess vegna voru vextirnir hækkaðir, en þeim hefur verið haldið lengi lágum, eins og áður sagði. „Staðan á vinnumarkaði er sterk og það sama á við um sveigjanleikann í hagkerfinu,“ sagði Yellen. Samkvæmt spám bankans verður hagvöxtur á bilinu 2 til 3 prósent á þessu ári en atvinnuleysi mælist nú 4,5 prósent.
3. Boðaðir eru enn meiri vaxtahækkanir á næsta ári ekki síst vegna þess að útlit sé fyrir vaxandi hagvöxt og meiri verðbólguþrýsting vegna vaxandi eftirspurnar. Verðbólgumarkmið bankans er tvö prósent. Til samanburðar er verðbólgumarkað Seðlabanka Íslands 2,5 prósent.
4. Í yfirlýsingu Yellen komu ekki fram neinar væntingar um hvernig Donald J. Trump, sem tekur við sem forseti Bandaríkjanna í byrjun næsta árs, myndi stýra málum þegar kemur að efnahagsmálum. Hann hefur sjálfur sagt að hann vilji auk hagvöxt og að stefnan á fyrsta ári hans sé 3 til 4 prósent. Örvunaraðgerðir hans eiga að felast í skattalækkunum og mun minna regluverki heldur en nú tíðkast, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg. Ekkert liggur þó fyrir í þessum efnum. Vaxtaákvarðanir á næsta ári munu vafalítið taka mið af því hvernig stefna Trumps verður útfærð.
5. En skiptir ákvörðunin um að hækka vexti einhverju máli fyrir Ísland? Óbeint, já. Vaxtamunur minnkar en eins og kunnugt er lækkaði Seðlabanki Íslands vexti sína úr 5,25 prósentum í 5 prósent. Lántökukostnaður í Bandaríkjadal mun aukast við vaxtaákvörðunina, og er sérstaklega horft til þess að vextir á húsnæðislánum í Bandaríkjunum geti haldið áfram að hækka á næstu misserum. Fyrstu viðbrögðin á markaði við vaxtahækkuninni voru þau að gengi Bandaríkjadal styrkist gagnvart helstu myntum. Á Íslandi fór verðið á Bandaríkjadal úr 112 krónum í 115 krónur, á fyrsta viðskiptadegi eftir vaxtahækkunina.