Fáir Japanir voru í sjónvarpinu þegar bandaríski leikarinn og aðgerðasinninn George Takei ákvað að fara út í kvikmyndabransann á 6. áratugnum og hafði hann fáar fyrirmyndir. Hann varð því brautryðjandi á sínu sviði þegar hann fékk hlutverk Sulu í Star Trek þar sem hann lék við hlið kanadíska leikarans William Shatner. En George er ekki einungis þekktur fyrir leik sinn í Star Trek heldur hefur hann verið í sviðsljósinu allar götur síðan fyrir ýmiss konar mannúðarstörf. Hann er aðgerðasinni sem lætur sig mörg mál varða og hefur hann til dæmis verið ötull talsmaður samkynhneigðra.
Undanfarna mánuði hefur hann gagnrýnt Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, fyrir hin ýmsu ummæli sem hann hefur látið falla, sérstaklega ummæli hans um múslima. Segist George óttast að sagan geti endurtekið sig og vísar hann þar í skrásetningu Japana í seinni heimstyrjöldinni og fangabúðir sem hann, meðal annarra ættaðra frá Japan, var færður í sem barn. Hann varar við hugmyndum um bann við því að múslimar komi til Bandaríkjanna en í viðtali á CNN lýsir hann þessum áhyggjum sínum. Hann segir að óttinn við múslima og hryðjuverk ali á fordómum og aðgreiningu.
Fjölskyldan flutt í fangabúðir
George Takei fæddist í Los Angeles í Bandaríkjunum árið 1937 en hann átti japanskan föður og japanskættaða móður. Þegar hann var fimm ára gamall var fjölskyldan neydd til að búa í fangabúðum sérútbúnum fyrir Japani í seinni heimstyrjöldinni, fyrst í Kaliforníu og síðar í Arkansas. Yfir hundrað þúsund Japanir í Bandaríkjunum voru á þessum tíma neyddir í slíkar búðir á meðan styrjöldin stóð yfir en flestir voru bandarískir ríkisborgarar.
Eftir árásirnar á Perluhöfn, flotastöð Bandaríkjamanna á Havaí, árinu áður fór hatursalda um Bandaríkin sem lýsti sér í mikilli andúð á fólki ættuðu frá Japan eða eins og George orðar það „fólki sem leit út eins og ég.“ Frankin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna gaf þá skipun í febrúar 1942 að öllum japönskum Ameríkönum á vesturströndinni skyldi vera safnað saman án nokkurrar ástæðu, ákæru eða réttarhalda. Fólkinu var safnað saman í tíu víggirtar fangabúðir á afskekktum stöðum í Bandaríkjunum.
George hefur lýst atburðarásinni í viðtölum og í TED-fyrirlestri. Hann segir að tveir hermenn, vopnaðir að fullu, hafi bankað upp á hjá þeim og skipað þeim að fylgja sér. Faðir hans hafi farið með hann og litla bróður hans út á stétt og þegar móðir hans hafi komið út á eftir þeim með litlu systur hans í fanginu hafi tárin runnið niður andlit hennar. Hann segir að hann muni aldrei gleyma þessari minningu svo lengi sem hann lifi. Eftir þetta hafi þeim verið fylgt af hermönnum, ásamt öðrum ættuðum frá Japan, í lest sem kom þeim á áfangastað. Þetta tók þrjár nætur og fjóra daga.
Úr öskunni í eldinn
George segist ennþá muna eftir gaddavírnum sem umkringdi búðirnar og turninum þar sem vélbyssum var beint að þeim. Hann segir að vegna síns unga aldurs hafi hann verið fljótur að aðlagast lífinu í fangabúðunum. Að vera í fangelsi umkringdu gaddavír varð honum hversdagslegt og að stilla sér upp í röð þrisvar á dag til að borða vondan mat í háværum sal og að fara með föður sínum í sturtu með fjölda annarra manna.
Fjölskyldan var í fangabúðunum í heil fjögur ár en eftir að þeim var sleppt fóru þau aftur til Los Angeles þar sem þau fengu ekki góðar viðtökur. George segir að á þessum tíma hafi þau verið allslaus enda hafi allt verið tekið af þeim og að fjandskapurinn hafi verið mikill. Þau neyddust til að lifa í versta hverfi Los Angeles-borgar þar sem fátæktin var mikil og aðstæður slæmar. Hann lýsir því þannig að þau hafi í raun farið úr öskunni í eldinn.
Foreldrar Georges náðu að vinna fyrir sér og að lokum, mörgum árum seinna, gátu þau keypt litla íbúð í betra hverfi. Þá var hann orðinn unglingur og átti hann margar samræður við föður sinn um fangelsunina og hvað það þýddi að vera Bandaríkjamaður. Hann segist hafa verið ráðviltur um þá þýðingu en að hann hafi síðan komist að því að til þess að bandarískar hugsjónir nái að blómstra þá þurfi gott fólk að fylgja þeim eftir.
Reynslan í fangabúðunum sem barn átti eftir að fylgja honum allar götur síðan. Því þrátt fyrir að vera þekktur fyrir mikla kímnigáfu, jákvæðni og brosmildi þá hefur hann lýst þessari erfiðu reynslu að vera útlokaður á þennan máta fyrir þjóðerni og uppruna. En þrátt fyrir allt mótlæti virðist George verða einstaklega bjartsýnn maður og segist hann meðal annars í heimildamyndinni To Be Takei frá árinu 2014 að hann hafni neikvæðni og trúi að hver ákveði örlög sín.
Líf eftir Star Trek
George fór í leikslistarnám og útskrifaðist með B.A.-próf og síðan M.A.-próf frá Háskólanum í Kaliforníu árið 1964. Hann birtist í ýmsum kvikmyndum og þáttum á 6. og 7. áratugnum en hann skaust upp á stjörnuhimininn fyrir fyrrnefnt hlutverk í sjónvarpsþáttunum Star Trek í hlutverki Sulu. Hann hefur verið iðinn við að mæta á ráðstefnur um vísindaskáldskap og ljáð rödd sína tölvuleikjum.
En það var líf eftir Star Trek og hefur George ekki setið auðum höndum þrátt fyrir að vera frægastur fyrir hlutverk sitt sem Sulu. Hann hefur verið virkur í stjórnmálaumræðu og verið aðgerðasinni í gegnum tíðina. Hann hætti ekki alveg að leika og hefur verið gestaleikari í þáttum á borð við Scrubs og Heroes.
Farsæll á samfélagsmiðlum
Samfélagsmiðlar eiga stóran þátt í velgengni Georges nú á dögum. Tæplega 10.000.000 manns líkar við síðuna hans á Facebook og tæpar 2.000.000 fylgja honum á Twitter. Hann nýtir iðulega athyglina til að koma á framfæri málefnum sem honum finnast brýn á borð við kynþátta- og jafnréttismál og málefni samkynhneigðra.
Hann setti upp Facebook-síðuna árið 2011 og var fljótur að safna fylgjendum. Hann segir í viðtali við Forbes að viðhald þessarar síðu sé mjög tímafrek og fær hann stundum manninn sinn til að hjálpa sér til að fara yfir bréf frá aðdáendum og athugasemdir. Hann telur að samfélagsmiðlar hafi breytt landslagi fyrir aðgerðasinna enda þurfi þeir síður að treysta á hefðbundna miðla til að koma málefnum sínum á framfæri.
Samkynhneigðin opinbert leyndarmál
Samstarfsfólk Georges í Star Trek vissi flest að hann væri samkynhneigður enda var það opinbert leyndarmál. Hann kom þó ekki út úr skápnum fyrr en árið 2005 en þá hafði hann verið í sambandi með Brad Altman í ein 18 ár. Þeir giftu sig þremur árum síðar og voru fyrsta samkynhneigða parið til að giftast í Vestur-Hollywood.