Árið 2016 fer í sögubækurnar sem afar jákvætt fyrir íslenska hagkerfið sé mið tekið af köldu mati á hagtölunum. Hagvöxtur verður líklega í hæstu hæðum þegar horft verður yfir árið, yfir fimm prósent. Ferðamannastraumurinn hefur verið stöðugur og knýr hann efnahagsbatann áfram líkt og undanfarin ár.
Gert er ráð fyrir því að 1,7 milljónir erlendra ferðamanna komi til landsins á þessu ári en þeir voru um 1,2 milljónir á síðasta ári. Spár fyrir næsta ár gera ráð fyrir enn einu vaxtarárinu. Um 2,2 milljónir munu þá koma til landsins. Til samanburðar má nefna að tæplega 500 þúsund komu til landsins árið 2010.
Verðbólga mælist nú 1,9 prósent og hefur haldist undir 2,5 prósent markmiðinu í meira en þrjú ár. Það munar um þetta fyrir Íslendinga sem hafa ekki átt svo löngu tímabili að venjast þar sem verðbólgudraugnum er haldið í skefjum.
Uppgjör slitabúa
Þegar kemur að stöðu ríkissjóðs þá munar mestu um kúvendinguna á stöðunni í tengslum við uppgjörið á slitabúum föllnu bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, í byrjun ársins. Íslenska ríkið fékk þá í sinn hlut um 500 milljarða, þegar allt er talið, og skuldastaða þjóðarbússins gagnvart útlöndum snöggbreytist til hins betra.
Frá árið 1960, þegar mælingar hófust á þessari stöðu, hefur staðan sjaldan eða aldrei verið betri. Skuldir ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu verða komnar niður fyrir 40 prósent á næsta ári ef áætlanir ganga eftir.
Íslenska ríkið á nú um 80 prósent af fjármálakerfinu, þar af Íslandsbanka að fullu, Landsbankann 98 prósent og Arion banka 13 prósent. Ríkið er svo einnig eigandi Íbúðalánasjóðs, Byggðastofnunar, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og eignarhluta í sparisjóðakerfinu.
Sigurður Hannesson, sem sæti átti í framkvæmdahópi um afnám hafta, sagði í grein á vef okkar á dögunum, að niðurstaðan hefði verið framar vonum og að Lee Bucheit, ráðgjafi stjórnvalda í málinu, hafi sagt niðurstöðuna hagfellda og fordæmalausa.
Engin óveðurský í augsýn
Hagvísarnir snúa flestir í rétta átt eins og mál standa nú. Atvinnuleysi er ríflega þrjú prósent og mikil vöntun á vinnuafli, einkum í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.
Íslendingar eiga nú meira erlendis en þeir skulda. Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, sagði í grein á vef Kjarnans skömmu fyrir jól, að gott gengi útflutningshliðar hagkerfisins hefði lagt grunninn að sterkri stöðu.
Kastljósið beinist að krónunni
Styrking krónunnar var eitt af því sem einkenndi stöðu mála í hagkerfinu, en hún hjálpaði til við að halda aftur af innfluttri verðbólgu, sem síðan styrkti stöðu heimilanna verulega. Krónan hefur styrkst um rúmlega 15 prósent gagnvart Bandaríkjadal á árinu, 16 prósent gagnvart evru og rúmlega 27 prósent gagnvart pundinu, en eftir að Brexit kosningunni í júní, þá hrapaði pundið í virði gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins.
Styrkingin olli fyrirtækjum í útflutningi áhyggjum, og einnig í ferðaþjónustu. Sjávarútvegurinn á mikilla hagsmuna að gæta og þá sérstaklega á Bretlandsmarkaði sem áratugum saman hefur verið mikilvægasti markaðurinn fyrir þorsk. Um 12 prósent af vöruútflutningi íslenskra fyrirtækja í fyrra var á Bretlandsmarkað og um 19 prósent erlendra ferðamanna komu þaðan. Staða krónunnar gagnvart pundinu hefur við mikil áhrif á viðskiptakjör sem í boði eru milli landanna.
Hlutabréfaverð skráðra félaga lækkaði yfir heildina litið, og munaði þar mikið um mikið verðfall á Icelandair, einkum á seinni helmingi ársins. Frá því um mitt ár hefur markaðsvirði félagsins lækkað um ríflega 70 milljarða króna en það er nú 114 milljarða króna virði.
Margt bendir til þess að gengi krónunnar gæti styrkst enn frekar á komandi ári þar sem gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum ferðamönnum verður mun meira með fjölgun upp á 500 þúsund ferðamenn. Samkvæmt spám greinenda Íslandsbanka er gert ráð fyrir að gjaldeyrisinnstreymi geti numið 500 milljörðum á næsta ári en á þessu ári verði það tæplega 430 milljarðar.
Fasteignir hækka og hækka
Mikil hækkun á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram á árinu og nam hækkunin ríflega tólf prósentum. Á fimm árum hefur hefur raunverð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 50 prósent að meðaltali. Mest hefur hækkunin verið miðsvæðis í Reykjavík og vega áhrifin vegna ferðaþjónustu þar þung, en talið er að um þrjú þúsund íbúðir hafi verið í útleigu til ferðamanna í miðbæ Reykjavíkur á undanförnum árum, meðal annars í gegnum vefinn Airbnb.
Sókn á ný svæði nauðsyn
Þrátt fyrir að byr sé í seglum íslenska hagkerfisins þessi misserin þá getur staðan snúist við á skömmum tíma. Samið varið um ríflegar launahækkanir hjá nær öllum stéttum á árinu 2016 þrátt fyrir að framleiðni hafi lítið sem ekkert aukist. Ef verðbólguhorfur versna, t.d. vegna hækkunar á olíuverði á heimsmörkuðum, þá gætu efnahagshorfur versnað, verðbólga aukist og þar með dregið úr kaupmætti launa. Innistæðulausar launahækkanir gætu þá reynst dýrkeyptar. Ekkert bendir þó til þess að árið 2017 verði ár mikilla kollsteypa, þó ávallt sé vandi um slíkt að spá.
Eins og ávallt verður vafalítið erfitt fyrir fyrirtæki sem starfa á alþjóðamörkuðum að viðhalda sinni markaðshlutdeild. Sérstaklega á þetta við um fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa þurft að laga sig að erfiðum aðstæðum, meðal annars á mikilvægum mörkuðum í Nígeríu, Austur-Evrópu og Suður-Evrópu einnig. Sókn á ný svæði er mikilvæg í þessu árferði og gæti nýja árið ekki síst einkennst af því að útflutningsfyrirtæki reyni að opna dyr að nýjum mörkuðum.