Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tók við á miðvikudag er sú ríkisstjórn sem lengstan tíma hefur tekið að mynda síðustu 60 árin í íslenskri stjórnmálasögu. Ráðuneyti Bjarna varð til þegar 74 dagar voru liðnir frá kosningum, rétt eins og ráðuneyti Þorsteins Pálssonar sem tók við 74 dögum eftir kosningarnar 1974.
Afar flókin staða blasti við þeim fulltrúum sem náðu kjöri til Alþingis í haustkosningunum 29. október síðastliðinn. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafði fallið og atkvæðin dreifst nokkuð jafnt, samanborið við fyrri Alþingiskosningar. Engir tveir flokkar gátu myndað meirihluta á þinginu og ljóst var að þrjá eða fleiri flokka þurfti til. Sjálfstæðisflokkurinn var enn stærstur og bætti við sig tveimur þingmönnum síðan í kosningum 2013 og fékk Bjarni umboð til stjórnarmyndunar úr vasa Guðna Th. Jóhannessonar forseta.
Bjarni ræddi fyrst við Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formann Bjartar framtíðar. Þeir Benedikt og Óttarr höfðu tekið höndum saman og gengið í einskonar „stjórnarmyndunarbandalag“ eftir kosningarnar. Í þessari fyrstu tilraun til stjórnarmyndunar tókst Bjarna ekki að leiða Sjálfstæðisflokkinn saman við bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Þá var komið að Vinstri grænum sem reyndu að leiða saman fimm flokka í ríkisstjórn án árangurs. Vinstri græn, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin náðu ekki saman undir verkstjórn Vinstri grænna og heldur ekki undir verkstjórn Pírata. Guðni forseti greip þá í annað sinn til þess ráðs að veita engum sérstökum þingflokki umboð til myndunar meirihluta. Bjarni, Benedikt og Óttarr funduðu þá á ný og úr verður eins manns meirihluti á Alþingi og ríkisstjórnarsamstarf undir forsæti Bjarna Benediktssonar.
Þegar rúmur mánuður var liðinn frá kosningunum tók Kjarninn saman lengd stjórnarmyndunartímabila síðustu 60 árin og rakti helstu ástæður þess að myndun ríkisstjórna hefur dregist í gegnum tíðina.
Meira en tveir flokkar í fyrsta sinn í 28 ár
Síðan Davíð Oddsson varð forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 1991 hafa aðeins tveggja flokka ríkisstjórnir orðið til á Íslandi. Síðast varð til ríkisstjórn fleiri flokka en tveggja á miðju kjörtímabili árið 1989 þegar Steingrímur Hermannsson leiddi saman fjóra flokka (Framsóknarflokkur, Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkur og Borgaraflokkur). Í upphafi kjörtímabilsins hafði Þorsteinn Pálsson, þá formaður Sjálfstæðisflokksins, myndað ríkisstjórn þriggja flokka (Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks) 74 dögum eftir kosningar 1987. Ríkisstjórn Þorsteins var ekki langlíf og „sprakk í beinni útsendingu“ rúmu ári eftir að hún kom fyrst saman á ríkisráðsfundi.
Kosningar | Ríkisráðsfundur | Fjöldi daga | Forsætisráðherra |
---|---|---|---|
25. apríl 1987 | 8. júlí 1987 | 74 | Þorsteinn Pálsson |
29. október 2016 | 11. janúar 2017 | 74 | Bjarni Benediktsson |
25. júní 1978 | 1. september 1978 | 68 | Ólafur Jóhannesson |
3. desember 1979 | 8. febrúar 1980 | 67 | Gunnar Thoroddsen |
30. júní 1974 | 28. ágúst 1974 | 59 | Geir Hallgrímsson |
23. apríl 1983 | 26. maí 1983 | 33 | Steingrímur Hermannson |
13. júní 1971 | 14. júlí 1971 | 31 | Ólafur Jóhannesson |
24. júní 1956 | 24. júlí 1956 | 30 | Hermann Jónasson |
27. apríl 2013 | 23. maí 2013 | 26 | Sigmundur Davíð Gunnlaugsson |
26. október 1959 | 20. nóvember 1959 | 25 | Ólafur Thors |
8. maí 1999 | 28. maí 1999 | 20 | Davíð Oddsson |
25. apríl 2009 | 10. maí 2009 | 15 | Jóhanna Sigurðardóttir |
8. apríl 1995 | 23. apríl 1995 | 15 | Davíð Oddsson |
10. maí 2003 | 23. maí 2003 | 13 | Davíð Oddsson |
12. maí 2007 | 24. maí 2007 | 12 | Geir Haarde |
20. apríl 1991 | 30. apríl 1991 | 10 | Davíð Oddsson |
Meðaltal | 36 | ||
Meðaltal síðustu 20 ára | 17 |
Það eru því um það bil 28 ár síðan ríkisstjórn fleiri flokka en tveggja hefur verið mynduð á Íslandi. Síðan hafa setið ellefu ráðuneyti og sjö sinnum verið kosið. Davíð Oddsson stofnaði fjögur ráðuneyti, Geir Haarde og Jóhanna Sigurðardóttir stofnuðu tvö hvert og Framsóknarmennirnir Halldór Ásgrímsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson fóru fyrir einu hver.
Sé litið til síðustu 60 ára í íslenskri stjórnmálasögu sést að þriggja flokka ríkisstjórnir halda að meðaltali skemur en ríkisstjórnir tveggja flokka. Sé aðeins horft á meðaltöl þá er meðallíftími þriggja flokka stjórnar 2,4 ár en meðallíftími tveggja flokka 2,8 ár. Það eru hins vegar dæmi um að þriggja flokka stjórn hafi haldið í meira en þrjú ár. Gunnar Thoroddssen leiddi sína þriggja flokka ríkisstjórn í 3,3 ár og fyrsta ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar sat í 3,1 ár. Til samanburðar þá hélt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stjórnartaumana í 2,9 ár.
Tíminn á auðvitað eftir að leiða það í ljós hvort fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar bæti þetta þriggja flokka met. Til gamans má geta að áður en ráðuneyti Bjarna Benediktssonar tók við á miðvikudaginn hafði engin ríkisstjórn orðið til í janúar. Ríkisstjórnir hafa orðið til í öllum öðrum mánuðum ársins.
Tveir flokkar síðan 1991
Síðan Ísland varð lýðveldi árið 1944 hafa 18 ráðuneyti verið mynduð með stuðningi aðeins tveggja flokka. Ellefu þessara ráðuneyta hafa verið mynduð síðan 1991. Hér er rétt að taka fram að jafnvel þó að ríkisstjórnir á Íslandi séu skilgreindar og taldar eftir því hver fór með forsætisráðuneytið hverju sinni þá segir það ekki alla söguna. Davíð Oddsson myndaði til dæmis fjórum sinnum ráðuneyti, þrisvar með stuðningi sömu flokka. Það fæst hugsanlega betri mynd ef litið er á fjölda ríkisstjórnarsamstarfa síðan 1991.
Ráðherra | Dagar við völd | Ár | Stjórnarmyndun | # flokkar |
---|---|---|---|---|
Ólafur Thors II | 836 | 2.3 | 1944 | 3 |
Stefán Jóhann Stefánsson | 1036 | 2.8 | 1947 | 3 |
Ólafur Thors III | 98 | 0.3 | 1949 | 1 |
Steingrímur Steinþórsson | 1277 | 3.5 | 1950 | 2 |
Ólafur Thors IV | 1109 | 3.0 | 1953 | 2 |
Hermann Jónasson | 882 | 2.4 | 1956 | 3 |
Emil Jónsson | 332 | 0.9 | 1958 | 1 |
Ólafur Thors V | 1455 | 4.0 | 1959 | 2 |
Bjarni Benediktsson | 2430 | 6.7 | 1963 | 2 |
Jóhann Hafstein | 369 | 1.0 | 1970 | 2 |
Ólafur Jóhannesson I | 1141 | 3.1 | 1971 | 3 |
Geir Hallgrímsson | 1465 | 4.0 | 1974 | 2 |
Ólafur Jóhannesson II | 409 | 1.1 | 1978 | 3 |
Benedikt Gröndal | 116 | 0.3 | 1979 | 1 |
Gunnar Thoroddssen | 1203 | 3.3 | 1980 | 3 |
Steingrímur Hermannson I | 1504 | 4.1 | 1983 | 2 |
Þorsteinn Pálsson | 448 | 1.2 | 1987 | 3 |
Steingrímur Hermannson II | 347 | 1.0 | 1988 | 3 |
Steingrímur Hermannson III | 597 | 1.6 | 1989 | 4 |
Davíð Oddsson I | 1454 | 4.0 | 1991 | 2 |
Davíð Oddsson II | 1496 | 4.1 | 1995 | 2 |
Davíð Oddsson III | 1456 | 4.0 | 1999 | 2 |
Davíð Oddsson IV | 481 | 1.3 | 2003 | 2 |
Halldór Ásgrímsson | 638 | 1.7 | 2004 | 2 |
Geir Haarde I | 343 | 0.9 | 2006 | 2 |
Geir Haarde II | 619 | 1.7 | 2007 | 2 |
Jóhanna Sigurðardóttir I | 98 | 0.3 | 2009 | 2 |
Jóhanna Sigurðardóttir II | 1474 | 4.0 | 2009 | 2 |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson | 1050 | 2.9 | 2013 | 2 |
Sigurður Ingi Jóhannsson | 280 | 0.8 | 2016 | 2 |
Bjarni Benediktsson, jr. | 2017 | 3 | ||
Meðal dagafjöldi | 881 | |||
Meðal árafjöldi | 2.41 |
Ef við gefum okkur að ríkisstjórnarsamstarfi sé sjálfkrafa lokið við kosningar þá hafa orðið til sjö meirihlutasamstörf með tveimur flokkum síðan 1991. Davíð Oddsson var forsætisráðherra í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þrisvar sinnum sinnum frá 1995 til 2004 þegar hann gerðist utanríkisráðherra og fól Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðuneytið. Halldór sat í 638 daga þar til hann hætti í stjórnmálum og Geir Haarde varð forsætisráðherra í 343 daga. Á kjörtímabilinu 2003 til 2007 sátu þess vegna þrjár ríkisstjórnir með stuðningi sömu flokka.
Sé tekið tillit til þess þá er líftími ríkisstjórnarsamstarfa síðustu 25 árin að meðaltali 3,6 ár. Þar til árið 2007 var meðallíftími samstarfanna 4,0 ár, eða jafn lengi og kjörtímabil eru hér á landi. Hér eru tvö samstörf sem draga meðaltalið niður. Eftir aðeins 619 daga baðst annað ráðuneyti Geirs Haarde lausnar og minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við og sat fram að kosningum í apríl árið 2009. Þessir sömu flokkar mynduðu svo meirihluta sem sat í fjögur ár. Þá var kjörtímabilið sem hófst 2013 stytt um um það bil hálft ár eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum í apríl 2016.