Lifir íslenskan snjalltækjaöldina af?

Endalokum íslenskunnar hefur lengi verið spáð en sjaldan hefur hún verið í jafnmikilli hættu og nú. Eða hvað? Sérfræðingar í íslenskri málfræði kynntu á dögunum rannsóknarverkefni sitt sem gengur út á að kanna áhrif ensku á íslensku í stafrænum heimi.

Mörg snjalltæki bjóða upp á stýrikerfi á íslensku. Það á þó ekki við um Apple-vörur.
Mörg snjalltæki bjóða upp á stýrikerfi á íslensku. Það á þó ekki við um Apple-vörur.
Auglýsing

Skiptar skoðanir eru á því hver framtíð íslenskunnar er og hvort hún muni lifa af þær miklu tækni- og samfélagsbreytingar sem orðið hafa á undanförnum árum. Þessar breytingar fela meðal annars í sér aukna notkun á snjalltækjum, áhorf á efni sem ekki er þýtt og svo mætti lengi telja. Einnig má velta fyrir sér hvort íslenskan þoli alþjóðavæðinguna og hvort vinsældir ensku meðal barna og ungmenna hafi sín áhrif. 

Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessorar í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, kynntu 1. febrúar síðastliðinn verkefni sitt, Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis, sem fjallar um íslensku á tölvuöld. Í kynningunni greindu þau frá hugsanlegum afleiðingum þess að enska sé notuð í auknum mæli og veltu fyrir sér hvort snjalltækjabylting undanfarinna ára veiki íslenskuna. 

Staðan brothætt

Eiríkur Rögnvaldsson Mynd: Háskóli ÍslandsEiríkur segir að því sé oft haldið fram að íslenska standi sterkt í málsamfélaginu. Menn nefni það oft að staða tungumálsins fari ekki fyrst og fremst eftir fjölda málnotenda heldur eftir því hver staða málsins er í því samfélagi sem það er notað. „Vissulega er það þannig að mestu leyti að íslenska er notuð á öllum sviðum samfélagsins. Hún er notuð í stjórnkerfinu, menntakerfinu, verslun og viðskiptum, fjölmiðlum, menningarlífinu, á netinu og í öllum daglegum samskiptum fólks. Og þá spyr maður: Hlýtur hún þá ekki að standa mjög sterkt?“ segir hann.

Auglýsing

Það er ástæða til að ætla að íslenska verði fyrir mjög auknu álagi eða þrýstingi núna á allra síðustu árum, að mati Eiríks. Hann segir að þótt staðan virðist góð á yfirborðinu þá sé hún brothætt og að kannski þurfi ekki mikið til að veikja undirstöðurnar. 

Eiríkur telur að aðstæður og umhverfi tungumálsins hafi breyst mikið á ótrúlega stuttum tíma. Þar af leiðandi hafi álagið aukist og muni aukast á næstu árum. Hann segir að ástæður þess séu utanaðkomandi og óviðráðanlegar og tengist ýmsum þjóðfélags- og tæknibreytingum. 

Við erum flest sítengd við þennan enska menningarheim, sem við erum með í lófanum, frá morgni til kvölds

Ung börn sett fyrir framan skjáinn

Margt hefur breyst í samfélaginu á undanförnum árum. Eiríkur segir að í fyrsta lagi megi nefna snjalltækjabyltinguna. „Við erum flest sítengd við þennan enska menningarheim, sem við erum með í lófanum, frá morgni til kvölds,“ segir hann og bætir við að það að horfa á myndir á ensku geti dregið úr venjulegum samskiptum á móðurmálinu. 

Hann segir að einnig megi nefna gagnvirka tölvuleiki. Yngra fólk spili mikið af tölvuleikjum sem eru undantekningarlaust á ensku og að þeir séu margir spilaðir á netinu með þátttakendur víða um heim. Og leikirnir krefjist iðulega gagnvirkra samskipta á ensku. 

Barn í snjalltæki Mynd: Wikimedia Commons

Í þriðja lagi er vert að tala um, að mati Eiríks, YouTube og Netflix-væðinguna. „Við vitum að jafnvel mjög ung börn eru sett fyrir framan sjónvarp og settir af stað þættir á YouTube eða Netflix á ensku og óþýddir,“ segir hann. Einnig telur hann að ferðamannastraumurinn skipti miklu máli. Það þurfi ekki annað en að fara niður í bæ til að sjá að allt er stílað upp á ferðamenn. Verðmerkningar í búðum, skilti fyrir utan veitingastaði og svo framvegis. Og alls konar viðburðir, tónleikar, sýningar og annað slíkt, miðist meira og meira við ferðamenn og enskan sé því orðin mikilvægari en áður. 

Enskan má ekki valta yfir

Fólki með annað móðurmál fer fjölgandi og heldur sú þróun áfram á næstu árum. Eiríkur bendir á að háskólanám fari meira fram á ensku en áður og að nú sé meiri þrýstingur að bjóða upp á námsleiðir og kennslu á ensku vegna skiptinema. Þá sé spurning hvort upprennandi fræðimenn fái næga þjálfun í að tala og skrifa um viðfangsefni sín á íslensku. 

Að sögn Eiríks leikur alþjóðavæðingin einnig stórt hlutverk. Hann segir að breytt heimsmynd geri það að verkum að fólk er hreyfanlegra en áður og íslenskir unglingar sjái ekki framtíð sína endilega á Íslandi. Þeir sjái margir hverjir fyrir sér að læra, búa og starfa erlendis. Þá nýtist íslenskan þeim ekki mikið utan landsins og þá vakni sú spurning hvaða áhrif það hafi á viðhorf þeirra til íslenskunnar. 

Síðast en ekki síst talar Eiríkur um talstýringu tækja. Hann segir að mörg tæki séu orðin tölvustýrð og verði á næstunni stjórnað með tungumálastýringu. Þannig verði hægt að tala við þau og að annaðhvort þurfi að kenna tækjunum íslensku eða fólkinu ensku.

En allt þetta getur leitt til þess að ensk áhrif komi fram í orðaforða, setningagerð, beygingum og framburði

Allar þessar breytingar eru í eðli sínu meira og minna jákvæðar, að mati Eiríks. Hann segir að þetta séu framfarir að flestu leyti og að ágætt sé að fólk læri ensku sem best. „Það er ekkert að því, nema ef það verður til þess að enskan valti yfir íslenskuna. En allt þetta getur leitt til þess að ensk áhrif komi fram í orðaforða, setningagerð, beygingum og framburði,“ segir hann. Þess vegna veltir hann því fyrir sér hvort hætta sé á að íslensk börn hafi ekki nógu mikla íslensku í kringum sig til að þeim takist að byggja upp sterkt og öflugt íslenskt málkerfi.

Áreitið meira en áður

Eiríkur segir að búið sé að spá íslenskunni dauða í 200 ár og spyr sig hvers vegna hún ætti þá að vera í meiri hættu nú en áður. Hann tekur sem dæmi þegar kanasjónvarpið kom upp úr 1960 en þá voru menn margir hverjir þess fullvissir að íslenskan væri á síðasta snúningi. Þannig hafi þó ekki farið. 

Eiríki sýnist að nokkur atriði gætu skipt máli núna og valdið því að tungumálið sé í meiri hættu en fyrr. Hann nefnir í fyrsta lagi að áreitið sé meira og víðtækara en áður og að enskan sé meira áberandi á fleiri sviðum en nokkru sinni fyrr. Hann segir í öðru lagi að þetta enska máláreiti nái til yngri barna en áður í gegnum snjalltæki, sjónvarpsáhorf og fleira. Í þriðja lagi sé gagnvirknin meiri sem margir telja að skipti máli. Enskunotkun barna og unglinga sé þannig orðin mikið gagnvirkari og þau noti enskuna í samskiptum í tölvuleikjum og svo framvegis. 

Íslenskan örugg – eða hvað?

Samkvæmt kvarða UNESCO frá 2003 er íslenskan talin örugg. Tungumálið er talað af öllum kynslóðum og flutningur málsins milli kynslóða er ótruflaður. Eiríkur veltir því fyrir sér hvort eitthvað sé að gerast núna sem gæti breytt því. „Og svo má velta því fyrir sér hvort þessir kvarðar taki tillit til tækni- og samfélagsbreytinga sem eiga sér stað um þessar mundir,“ segir hann.

En þrátt fyrir að vera talin örugg þá er vert að spyrja hvort íslenskan eigi möguleika á stafrænu lífi og hvort hún muni lifa af í stafrænum heimi. Til þess verður að vera hægt að nota hana í rafrænum samskiptum. Eiríkur segir að ekki sé vitað hver tengsl svokallaðs stafræns dauða og raunverulegs dauða tungumáls séu.

Hann bendir aftur á móti á nokkrar vísbendingar þess. Í fyrsta lagi sé það hættumerki þegar önnur mál taka yfir heilt svið í tungumálinu, til dæmis í viðskiptum. Í öðru lagi skipti máli að borin sé virðing fyrir tungumálinu en þetta kemur sérstaklega fram í viðhorfum yngri kynslóðanna. Í þriðja lagi þegar fólk skilur eldri kynslóðina en notar sjálft mjög einfaldað málkerfi, setningagerð og minni beygingar.

Samskipti skipta öllu máli

Sigríður Sigurjónsdóttir Mynd: Úr einkasafniFólk er sérstaklega næmt fyrir máltöku á unga aldri og lýkur því tímabili við kynþroskaaldurinn. Þetta segir Sigríður Sigurjónsdóttir, annar forsvarsmaður verkefnisins, og bendir hún einnig á að máltaka gerist ósjálfrátt á þessu tímabili en sá hæfileiki hverfi síðan við kynþroska. Hún segir að lítil börn geti ekki annað, ef þau eru heilbrigð og umhverfi eðlilegt, en að taka mál. Eftir kynþroskaaldurinn sé miklu erfiðara að læra tungumál og fólk þurfi virkilega að leggja sig fram. Hún segir einnig að börn virðist vera móttækilegust fyrir máli í upphafi máltökuskeiðsins og til þess að ná fullu valdi á móðurmáli eða öðru máli þá þurfi máltakan yfirleitt að fara fram fyrir sex til níu ára aldur. 

Við vitum að móðurmál og annað mál þróast hjá börnum á máltökualdri í samskiptum við foreldra og aðra í nánasta umhverfi

Að sögn Sigríðar byggist þetta þó ekki eingöngu á líffræðilegum þáttum því umhverfið skiptir einnig máli. „Því læra börnin málið að það er fyrir þeim haft“ segir máltækið og á vel við hér, að hennar mati. „Við vitum að móðurmál og annað mál þróast hjá börnum á máltökualdri í samskiptum við foreldra og aðra í nánasta umhverfi,“ segir hún og bætir við að þess vegna skipti samskipti öllu máli. Hún segir að málið spetti fram sjálfkrafa á þessum aldri en börn verði að skiptast á orðum í samtölum og mynda félagsleg tengsl. Tengslamyndun verði að eiga sér stað til þess að börn myndi sér mál. 

Börn læra ekki málið af sjónvarpi

Gerðar hafa verið rannsóknir á því hvort börn geti lært mál af sjónvarpi og það virðist ekki ganga. Sigríður segir að börn geti hugsanlega bætt við orðaforða sinn en rannsóknir bendi til að á heimilum þar sem kveikt er á sjónvarpinu með talið á allan daginn séu börn seinni til máls. Það hægi á máltöku miðað við börn sem alast ekki upp við slíkt. „Skýringin er sú að samskiptin eru minni þar sem horft og hlustað er mikið á sjónvarp og fólk talar síður saman,“ segir hún.

Mannleg samskipti og málörvun eru því mjög mikilvæg fyrir máltöku, að mati Sigríðar. Hún segir að innihaldsrík mannleg samskipti á fyrstu æviárunum séu nauðsynleg forsenda þess að börn nái valdi á máli. Og fyrstu sex árin séu mjög mikilvæg til að efla málþroska og málskilning barna. Þá sé gott að börn hafi góðar málfyrirmyndir og fái nauðsynlega málörvun. Heilbrigð börn sem alist upp við góðar aðstæður læri málið sjálfkrafa en hún segir að málkenndin mótist í æsku og erfitt sé að breyta því sem mótað hefur verið síðar meir. Hún telur að gamla máltækið eigi því vel við: Lengi býr að fyrstu gerð.

Snjalltækjanotkun getur hægt á málþroska

Börnin bera íslenskuna áfram til komandi kynslóða. „Það má segja að yngstu börnin séu mikilvægust í þessari keðju því þau eru móttækilegust fyrir málinu,“ segir Sigríður. En hvaða áhrif hafa snjalltæki og stafrænir miðlar á máltöku barna og þróun og framtíð íslenskunnar? Svarið er margþætt og ekki einfalt að mati Sigríðar. Hún segir að margt jákvætt sé við snjalltækjaþróunina, að börn geti til dæmis nýtt og eflt sköpunargáfu sína og öðlast nýja þekkingu í gegnum tækin.

Annars vegar þarf að tala við börn og hlusta á þau til að þau myndi sér mál. Og snjalltækjavæðingin getur truflað máltöku barna ef hún veldur því að fullorðnir og börn tala það lítið saman að börnin fá ekki nauðsynlegt máláreiti

En þróunin hefur líka ákveðnar hættur í för með sér að mati Sigríðar. „Annars vegar þarf að tala við börn og hlusta á þau til að þau myndi sér mál. Og snjalltækjavæðingin getur truflað máltöku barna ef hún veldur því að fullorðnir og börn tala það lítið saman að börnin fá ekki nauðsynlegt máláreiti,“ segir hún. Börn þurfi að heyra íslensku í umhverfinu, eins og áður hefur komið fram, til að byggja upp sterka málkennd. Þess vegna sé ekki gott fyrir málþroska barna að foreldrar séu mikið í snjalltækjum ef það kemur í veg fyrir að þeir tali við börn sín. 

Börn byrja ung að nota netið

Hins vegar er það aukin notkun ensku sem Sigríður hefur áhyggjur af. Hún segir að aukið enskuáreiti á máltökuskeiði barna geti valdið breytingum á gerð og stöðu íslenskunnar. Það geti leitt til ófullkominnar máltöku barna eða jafnvel tvítyngis. Sigríður nefnir að árið 2013 var gerð könnun á því hvenær íslensk börn byrja að nota netið en í henni kom í ljós að flest íslensk börn byrja að nota netið á aldrinum fimm til átta ára. Sum byrja fjögurra ára eða yngri og vekur það athygli í þessari könnun að fleiri börn í fjórða og fimmta bekk en í sjötta til tíunda bekk í grunnskóla byrjuðu þá að nota netið. Þannig að þróunin virðist vera sú að börn byrji fyrr að nota netið nú en áður. 

Sigríður telur að þessi þróun geti verið fyrsta skrefið í tungumáladauða. Breytingar á málkunnáttu eru alvarlegri að hennar mati en breytingar á orðaforða. Hún segir að vegna þess að erfitt sé að breyta málkunnáttu seinna meir geti gerð íslenskunnar breyst og hugsanlega hafi jákvætt viðhorf til ensku þar sitt að segja.

Ef móðurmálið er veikt þá verður kunnátta í öðru máli líka veik. Þetta er allt samtengt

„Það verður að tala við börn svo þau myndi sér mál,“ bendir Sigríður á. Og hún segir einnig að það sé á ábyrgð foreldra og forráðamanna en ekki einungis umönnunaraðila og kennara að gera slíkt. Nauðsynlegt sé einnig að skapa góðan grunn í íslenskunni því án hans sé mun erfiðara að læra önnur tungumál. „Ef móðurmálið er veikt þá verður kunnátta í öðru máli líka veik. Þetta er allt samtengt,“ segir hún að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None