Yfirvöld vita ekki hvaðan gögn um hlutabréfaeign dómara við Hæstarétt, sem greint var frá í fjölmiðlum í desember 2016, komu. Málið er nú til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara á grundvelli kæru frá bæði Íslandsbanka og Fjármálaeftirlitinu.
Í fréttum fréttastofu 365 á sínum tíma var greint frá því að gögnin væru frá slitastjórn Glitnis. Kjarninn greindi frá því 6. desember að Steinunn Guðbjartsdóttir, fyrrverandi formaður slitastjórnar Glitnis, segði það af og frá að gögnin hefðu komið frá henni. Þá hafa gögn um fjármál hæstaréttardómaranna aldrei verið hluti af þeim málum sem rannsökuð hafa verið af embætti héraðssaksóknara vegna gjörninga sem áttu sér stað innan Glitnis. Því eru gögnin ekki komin þaðan heldur né eru þau hluti af málsgögnum sem lögð hafa verið fram í sakamálum sem höfðuð hafa verið vegna þeirra rannsókna. Kjarninn hefur áður greint frá því að gögnin virðist hafa verið lengi í umferð og hafi m.a. verið boðin tveimur viðmælendum Kjarnans til sölu sumarið 2016. Þeir viðmælendur hafa ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem buðu gögnin til sölu.
RÚV greindi frá því á föstudag að innri endurskoðun Íslandsbanka, sem var reistur á grunni Glitnis eftir að sá banki fór á hliðina, hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til þess að umrædd gögn hefðu komið frá Íslandsbanka eða starfsmönnum hans. Bankinn kærði því gagnalekann til héraðssaksóknara um miðjan desember.
Fjármálaeftirlitið tók málið einnig til rannsóknar vegna þess að grunur sé um að í lekanum felist brot á lögum um bankaleynd. Eftirlitið kærði málið til héraðssaksóknara fyrir um mánuði síðan og nú stendur yfir rannsókn á því þar.
Fimm hæstaréttardómarar áttu í Glitni
Þann 5. desember var greint frá því í fréttum Stöðvar 2 og síðan Kastljósi að Markús Sigurbjörnsson, þá forseti Hæstaréttar, hefði átt hlutabréf í Glitni fyrir hrun og síðar fjárfest um 60 milljónum króna í verðbréfasjóði í rekstri Glitnis. Í Kastljósi var enn fremur greint frá því að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í verðbréfasjóði innan Glitnis. Í Fréttablaðinu daginn eftir var svo sagt frá því að hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson, sem nú er hættur störfum, hafi einnig öll átt hlutabréf í Glitni á árunum 2007 og 2008. Allir dómararnir fimm hafa dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Gögnin sem birt voru í umræddum fréttum sýndu samskipti Markúsar við eignastýringu Glitnis. Á meðal þeirra voru tölvupóstar og skjöl sem hann undirritaði til að veita heimild til fjárfestingar. Gögnin eru bundin bankaleynd og alls ekki aðgengileg mörgum. Starfsmenn slitastjórnar Glitnis eftir hrun hafa þó mögulega getað flett þeim upp í kerfum bankans auk þess sem starfsmenn eignastýringar Glitnis fyrir hrun gátu nálgast þau.
Opinberanirnar vöktu mikla athygli og sköpuðu mikla umræðu um hæfi hæstaréttardómara til að dæma í málum sem tengdust þeim bönkum sem þeir hefðu átt hlutabréf í.
Markús sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir umfjöllunina þar sem hann sagðist hafa tilkynnt nefnd um dómarastörf um sölu á hlutabréfum í sinni eigu þegar viðskiptin áttu sér stað, og hann hafi fengið leyfi nefndarinnar þegar honum áskotnaðist þau. Hann hafi hins vegar ekki þurft að tilkynna um hvernig hann ráðstafaði peningunum eftir söluna. Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, sagði sagði saman dag að ljóst væri að upplýsingum um hlutabréfaeign dómara hafi verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega auka möguleika á því að mál verði endurupptekin. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði blasa við að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í hrunmálum.
Þann 9. desember greindi DV síðan frá því að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson hefðu átt hlut í Landsbankanum við fall bankans. Þeir hefðu báðir verið í fimm manna dómi Hæstaréttar sem dæmdi ýmsa fyrrverandi stjórnendur Landsbanka Íslands seka um markaðsmisnotkun og umboðssvik í Hæstarétti í október 2015 og í febrúar 2016.
Umfjöllunin leiddi til þess að dómarar við Hæstarétt munu héðan i frá birta hagsmunaskráningu sína opinberlega, og hefur það þegar verið gert á heimasíðu réttarins.
Sakborningar kæra til MDE eða krefjast endurupptöku
Þann 9. janúar síðastliðinn var greint frá því að sakborningar í Al Thani-málinu svokallaða hefðu sent bréf um fjármálaumsvif dómara við Hæstarétt Íslands á árunum fyrir fall íslenska bankakerfisins árið 2008 til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Upplýsingarnar eru hluti af málsskjölum sem Ólafur Ólafsson og þrír fyrrverandi stjórnendur Kaupþings banka, þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, sendu MDE vegna umfjöllunar dómstólsins um Al Thani málið svokallaða. Telja þeir að brotið hafi verið á réttindum þeirra, bæði við rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum. Um er að ræða dómara sem dæmdu í Al Thani-málinu, meðal annars Markús Sigurbjörnsson. Áður höfðu mennirnir reynt að fá málið endurupptekið hjá endurupptökunefnd, án árangurs.
Í síðustu viku sagði svo Fréttablaðið frá því að Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefði krafist þess að tvö mál á hendur honum yrðu tekin aftur til meðferðar fyrir dómi. Beiðni um þá endurupptöku hafi verið send inn í september 2016. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Sigurjóns, sagði í samtali við blaðið að byggt væri „fyrst og fremst á þeim fréttum sem hafa komið um hlutabréfaeign dómara í blöðunum. Svo hefur verið að koma í ljós að þeir hafa verið að staðfesta að þeir hafi tapað fjármunum í bankahruninu, sumir dómarar.“ Þær fréttir sem Sigurður vísar í voru sagðar í desember, þremur mánuðum eftir að endurupptöðubeiðni Sigurjóns var send inn.