Mynd: Birgir Þór

Loftslagsmarkmið nást ekki nema gripið verði til aðgerða

Markmið um 40% minni losun árið 2030 er fjarlægur draumur ef Íslendingar gerast ekki róttækari í loftslagsmálum. Umhverfisráðherra kynnir stöðumat í ríkisstjórn í þessum mánuði.

Skýrsla Hag­fræða­stofn­unar Háskóla Íslands um Ísland og lofts­lags­mál dregur upp mun dekkri mynd af stöðu Íslands í mál­efnum lofts­lags­ins og sýnir Íslend­inga í verri stöðu gagn­vart mark­miðum Par­ís­ar­samn­ings­ins en áður var talið. Bryn­hildur Dav­íðs­dótt­ir, pró­fessor í umhverf­is- og auð­linda­fræðum við Háskóla Íslands, kynnti skýrsl­una á mánu­dag­inn var. Björt Ólafs­dótt­ir, umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, segir nið­ur­stöður skýrsl­unnar hafa komið sér á óvart.

Jafn­vel þó nið­ur­stöður skýrsl­unnar um stöð­una Íslands séu nei­kvæðar þá lýsir skýrslan einnig tæki­færum fyrir Íslend­inga til fram­tíðar á sviði lofts­lags­mála. Fyrir lofts­lags­ráð­stefn­una í París í des­em­ber í fyrra lögðu öll aðild­ar­ríki að Ramma­samn­ingi Sam­ein­uðu þjóð­anna um lofts­lags­mál fram sín eigin mark­mið í lofts­lags­mál­um. Var það meðal ann­ars talið til þeirra atriða sem gerðu far­sæla ráð­stefnu að mögu­leika í Par­ís.

Ísland ákvað að fylgja Evr­ópu­sam­band­inu (ESB) og hengja sig á mark­mið sam­bands­ins um 40 pró­sent minni losun árið 2030 miðað við árið losun árs­ins 1990. Í mark­miði Íslands er talað um að stjórn­völd hér á landi ætli að skuld­binda sig til ábyrgðar á „rétt­látum hluta“ (e. fair share) í mark­miði ESB.

Nýr umhverf­is­ráð­herra hissa á stöð­unni

Björt segir skýrsl­una hafa slegið sig vegna þess að hún sýni aðra og dekkri stöðu lofts­lags­mála en hún hafi búist við. Hún tók við emb­ætti umhverf­is­ráð­herra í síð­asta mán­uði. „Að óbreyttu munum við ekki standa við Par­ís­ar­sam­komu­lagið nema við hysjum upp um okkur bux­urn­ar,“ sagði hún í Kast­ljósi RÚV á mánu­dag.

Björt Ólafsdóttir varð umhverfis- og auðlindaráðherra í síðasta mánuði. Í stjórnarsáttmála er aðgerðum í takt við markmið Íslands gagnvart Parísarsamkomulagið. Talsvert þarf að gerast áður en þau markmið nást.
Mynd: Birgir Þór

Á árunum 1990 til 2014 jókst útstreymi gróð­ur­húsa­loft­teg­unda á Íslandi um 26 pró­sent, ef frá­skilin er bind­ing vegna land­notk­un­ar. Ef nettó­bind­ing með land­græðslu og skóg­rækt væri tekin með var aukn­ingin 15 pró­sent. Í útblást­urs­mæl­ingum á Íslandi er sam­fé­lag­inu skipt í sjö flokka. Það eru raf­magn og hiti, sam­göng­ur, sjáv­ar­út­veg­ur, iðn­aður og efna­notk­un, land­bún­að­ur, með­ferð úrgangs og síð­ast land­notkun sem getur nýst sem mót­væg­is­að­gerð.

Mest var aukn­ingin í útstreymi frá iðn­aði frá árinu 1990 til 2014. Aukn­ingin nam 79 pró­sent­um. Útstreymi jókst einnig frá orku­fram­leiðslu um 69 pró­sent, frá úrgangi um 52 pró­sent og sam­göngum um 39 pró­sent. Útstreymi frá sjáv­ar­út­vegi dróst hins vegar saman um 43 pró­sent og útstreymi frá land­bún­aði minnk­aði um fjögur pró­sent. Íslend­ingum tókst jafn­framt að binda meira af gróð­ur­húsa­loft­teg­undum með land­græðslu og skóg­rækt; um 429 þús­und tonn árið 2014. Heild­ar­út­streymi árs­ins 2014 var um 4.600 tonn koldí­oxíðs.

Allt að 99 pró­sent meira útstreymi 2030

Þegar spáð er fyrir um fram­tíð­ar­út­streymi til árs­ins 2030 eru gerðar tvær spár; þ.e. háspá og grunn­spá. Í grunn­spá er reiknað með venju­bund­inni þró­un, þe. ef við hegðum okkur eins og við gerum nú þeg­ar. Sam­kvæmt háspánni má gera ráð fyrir að heild­ar­út­streymi frá Íslandi verði 99 pró­sent meira en það var árið 1990. Grunn­spáin gerir ráð fyrir að útstreymið verði 53 pró­sent meira en árið 1990.

Hér skiptir stór­iðjan enn og aftur sköpum en í skýrsl­unni er því spáð að aukn­ingin gæti orðið mest vegna auk­inna umsvifa í stór­iðju. Í grunn­til­viki gæti aukn­ing útstreymis vegna stór­iðju auk­ist um 161 pró­sent í grunn­til­viki upp í 290 pró­sent í hátil­viki.

Í þessum háspám og lág­spám er útstreymi frá stór­iðju talið með. Stór­iðjan fellur hins vegar ekki undir mark­mið Íslands í Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu vegna þess að los­un­ar­heim­ildir frá stjór­iðju eru fram­selj­an­legar á mark­aði Evr­ópu­sam­bands­ins með los­un­ar­heim­ild­ir. Það kann að skjóta skökku við að stærsti meng­un­ar­vald­ur­inn hér á landi falli ekki undir mark­miðin í lofts­lags­mál­um. Mark­að­ur­inn með los­un­ar­heim­ild­irnar var hins vegar skap­aður til þess að „jafna skell­inn“ á milli ríkja sem reka mis­mikla stór­iðju.

Stóriðja mengar lang mest allra samfélagsþátta á Íslandi. „Græn“ raforka fer þar til spillis, ef svo má að orði komast.
Mynd: Birgir Þór

Þess vegna er útstreymið einnig reiknað fram til árs­ins 2030 án stór­iðj­unn­ar. Þar breyt­ist myndin tals­vert. Án bind­ingar (og að stór­iðju und­an­skil­inni) gæti heild­ar­út­streymi orðið tíu pró­sent meira árið 2030 en árið 1990 í grunn­til­viki. Hátil­vikið er 16 pró­sent aukn­ing frá 1990. Bind­ing breytir mynd­inni enn frekar: 18 pró­sent minna útstreymi árið 2030 í grunn­til­viki og 12 pró­sent minna í hátil­viki.

Bryn­hildur segir að það væri þungur róður fyrir Ísland að ná mark­mið­unum ef stór­iðjan yrði ekki und­an­skil­in. „Það eru aðgerðir í hverjum ein­asta geira sem hægt er að ráð­ast í og eru tækni­lega mögu­legar í dag. Nema í stór­iðj­unni, það er að segja,“ segir Bryn­hildur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Tækni­lega mögu­legt

Í skýrsl­unni eru listaðar leiðir til þess að draga úr losun sem eru tækni­lega mögu­leg­ar. Miklar tækni­fram­farir hafa átt sér stað síðan sam­bæri­leg skýrsla var gerð síð­ast. Nær­tæk­asta dæmið eru full­komn­ari raf­magns­bíl­ar, sem nú eru lang­dræg­ari og ódýr­ari og þar af leið­andi aðgengi­legri en þeir voru fyrir ára­tug. Þá var því spáð að aðrir aflgjafar á borð við metan og vetni yrðu lík­legri til þess að hljóta hylli neyt­enda.

Rafbílavæðing er mjög ábatasöm loftslagsaðgerð.
Mynd: EPA

Minnstu tæki­færin eru hins vegar í tækni­legum lausnum á því að draga úr útstreymi frá stór­iðju. Þar er ekki að eygja eins miklar tækni­fram­farir sem yrðu þess vald­andi að hægt væri að minnka útstreymi nema um fáein pró­sentu­stig.

Yfir­lýst mark­mið er 40 pró­sent minni losun en árið 1990

Aug­ljóst er að íslensk stjórn­völd verða að taka til hend­inni í þessum mála­flokki ef standa á við yfir­lýst mark­mið Íslands gagn­vart Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu. Í stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórnar Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartar fram­tíðar er klausa um umhverf­is- og auð­linda­mál. Þar segir að ekki verði efnt til nýrra íviln­andi fjár­fest­ing­ar­samn­inga vegna upp­bygg­ingar meng­andi stór­iðju.

Enn fremur er því lofað í stjórn­ar­sátt­mál­anum að gerð verði aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum í sam­ræmi við Par­ís­ar­sam­komu­lag­ið. Björt Ólafs­dótt­ir, umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra, hygg­ist leggja fyrir rík­is­stjórn og Alþingi skýrslu um stöðu mála­flokks­ins í þessum mán­uði. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum frá ráðu­neyt­inu verður um eins­konar stöðu­mat að ræða, þar sem tæki­færi verða listuð og helstu ógn­ir. Ný aðgerða­á­ætlun stjórn­valda í lofts­lags­málum verður svo unnin á þessu ári og kynnt síðar á árinu. Um þessa áætlun er sagt í stjórn­ar­sátt­mál­anum að hún „feli meðal ann­ars í sér græna hvata, skóg­rækt, land­græðslu og orku­skipti í sam­göng­um“.

Ekki er hægt að fjöl­yrða um hverjar áhersl­urnar verða í þeirri áætl­un, enda er skýrsla Háskól­ans nýkomin út og und­ir­bún­ingur innan ráðu­neyt­is­ins stutt á veg kom­inn.

Vinna við aðgerða­á­ætlun íslenskra stjórn­valda í lofts­lags­málum fór síð­ast fram eftir að sam­bæri­leg skýrsla og hér er fjallað um var kynnt árið 2009. Ári síðar var aðgerða­á­ætlun í lofts­lags­málum sam­þykkt af rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar­innar og Vinstri grænna – í umhverf­is­ráð­herra­tíð Svan­dísar Svav­ars­dóttur – þar sem stefnt var að því að draga úr nettólosun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda um allt að 30 pró­sent til árs­ins 2020 með tíu lyk­il­að­gerð­um. Eftir þeirri aðgerða­á­ætlun er enn unnið opin­ber­lega. Atriðin tíu eru kunn­ug­leg stef umræð­unni um lofts­lags­mál:

  1. Inn­leið­ing við­skipta­kerfis með los­un­ar­heim­ild­ir.
  2. Kolefn­is­gjald.
  3. Breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og elds­neyti.
  4. Notkun ríkis og sveit­ar­fé­laga á spar­neytnum og vist­vænum öku­tækj­um.
  5. Efl­ing göngu, hjól­reiða og almenn­ings­sam­gangna sem val­kost í sam­göng­um.
  6. Notkun líf­elds­neytis á fiski­skipa­flot­an­um.
  7. Raf­væð­ing fiski­mjöls­verk­smiðja.
  8. Aukin skóg­rækt og land­græðsla.
  9. End­ur­heimt vot­lend­is.
  10. Efldar rann­sóknir og nýsköpun í lofts­lags­mál­um.

Ekki verður lagt mat á það hér hversu vel á veg þessi verk­efni eru kom­in. Ljóst er hins vegar að mörg þess­ara verk­efna krefj­ast auk­innar þver­fag­legrar vinnu milli ráðu­neyta og þvert á alla stjórn­sýsl­una, hvort sem það er í ráðu­neyt­um, und­ir­stofn­unum eða meðal sveit­ar­fé­laga. Auk þess er gert ráð fyrir að fjár­fest sé í innvið­um, svo sem raf­orku­flutn­ingi og sam­göngu­leiðum svo aðeins tvö aug­ljós atriði séu nefnd.

Sigrún Magnúsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, kynna sóknaráætlun í loftslagsmálum í nóvember 2015.
Mynd: Birgir Þór

Í tíð rík­is­stjórnar Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­sonar var lögð fram sókn­ar­á­ætlun í lofts­lags­málum í nóv­em­ber 2015. Þar voru nokkur verk­efni skil­greind sem myndu fá mest vægi meðal stjórn­valda hér á landi. Nokkur þeirra verk­efna hafa þegar verið sett af stað en þau treysta að miklu leyti á fram­lög einka­að­ila. Árlega er 250 millj­ónum króna veitt til verk­efn­anna í sókn­ar­á­ætl­un­inni á meðan hún gildir til árs­ins 2018.* Sig­rún Magn­ús­dótt­ir, þáver­andi umhverf­is­ráð­herra, sagð­ist í sam­tali við Kjarn­ann í kjöl­far kynn­ingar á sókn­ar­á­ætl­un­inni, vera frá­hverf því að ríkið myndi setja upp skatta­lega eða aðra tækni­lega hvata fyrir almenn­ing til þess að stunda „lofts­lagsvænni“ lífstíl. Hvatar í þeim til­gangi litu heldur ekki dags­ins ljós.

Í skýrsl­unni sem kynnt var á mánu­dag­inn er sviðs­mynd stillt upp þar sem völdum mót­væg­is­að­gerðum er beitt sam­an, án bind­ing­ar, og nið­ur­staðan er að hugs­an­lega mætti draga úr útstreymi um 1.716 þús­und tonn. Ofan á það bæt­ist svo væntur jafn mik­ill kraftur í land­græðslu og skóg­rækt. Fram­reiknað gæti bind­ingin því numið um 2.460 þús­und tonna koldí­oxíðs.

Bryn­hildur Dav­íðs­dóttir segir í sam­tali við Frétta­blaðið að aðgerðir stjórn­valda í lofts­lags­málum geti skilað þjóð­hags­legum ábata til lengri tíma, jafn­vel þó kostn­að­ur­inn sé mik­ill til að byrja með. „Þetta er eins og með hita­veitu­væð­ing­una sem var dýr – en það má líta raf­bíla­væð­ing­una sömu aug­um,“ er haft eftir Bryn­hildi í Frétta­blað­inu þriðju­dag­inn 14. febr­úar.

Hitaveituvæðingin veitir Íslendingum forskot

Hvort sem rætt er við stjórnmálamenn eða sérfræðinga í loftslagsmálum er það mat fólks að hitaveituvæðing helstu þéttbýla á Íslandi veiti Íslendingum ákveðið forskot þegar kemur að loftslagsmálum. Með hitaveituvæðingunni á seinni hluta 20. aldar, sem var dýr framkvæmd, komst fólk undan því að kynda hús sín með dýrri mengandi olíu eða öðru jarðefnaeldsneyti. Það hefur jafnframt sparað þjóðarbúið innflutning á öllu því eldsneyti sem hefði annars þurft til þess að kynda híbýli fólks.

Ef hitaveitunnar nyti ekki myndu Íslendingar að öllum líkindum kynda hús sín með rafmagni en slík lausn er mun dýrari en jarðhitaveitan, auk þess að minna framboð væri af raforku til annara nota.

Mögu­leik­arnir miklir ef póli­tískur vilji er fyrir hendi

Af þeim aðgerðum sem óhjá­kvæmi­lega þarf að ráð­ast í til þess að ná mark­miði Íslands gagn­vart Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu eru nokkur sem gætu skilað þjóða­hags­legum ábata, sam­kvæmt skýrsl­unni. Hér er ekki síst rætt um jákvæð ytri áhrif af aðgerð­un­um. Kolefn­is­hlut­leysi á Íslandi gæti hins vegar verið fjar­lægur draumur ef útstreymið frá stór­iðj­unni stendur í stað.

Í skýrsl­unni segir orð­rétt: „Ljóst er að mögu­leikar Íslands eru miklir þegar kemur að sam­drætti í útstreymi gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Mögu­legt er að ná fram þeim sam­drætti í útstreymi sem Íslend­ingar hafa ásett sér að ná undir Par­ís­ar­sam­komu­lag­inu, ef útstreymi frá þeim geirum sem falla undir við­skipta­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins um los­un­ar­heim­ildir eru und­an­skild­ir. Erfitt gæti reynst að ná kolefn­is­hlut­leysi ef útstreymi frá stór­iðju stendur í stað eða eykst.“

Í skýrsl­unni er einnig minnt á að mót­væg­is­að­gerð­irnar séu marg­vís­legar og að mik­il­vægt sé að valdar verði þær stjórn­valds­að­gerðir sem skili mestum mögu­lega árangri í sam­drætti í útstreymi með sem minnstum þjóð­hags­legum kostn­aði.

Aug­ljóst er að aðgerð­ar­á­ætlun Bjartar Ólafs­dóttur þarf að ganga lengra en aðgerða­á­ætlun Svan­dísar Svav­ars­dóttur frá árinu 2010. Og það mun þurfa að fylgja henni eft­ir, innan allra ráðu­neyta og efla sam­starf milli deilda rík­is­ins ef við­un­andi árangur á að nást.

„Við verðum að bregð­ast við því sem áður hefur verið gert. Og við verðum að gera það strax því tím­inn er að hlaupa frá okk­ur,“ sagði umhverf­is­ráð­herra í sam­tali á RÚV.


*Leið­rétt: Upp­haf­lega var full­yrt í text­anum hér að ofan að ekki hafi verið skil­greint hversu miklum fjár­munum verði varið í sókn­ar­á­ætl­un­ina. Það er rangt því 250 millj­ónum verður veitt til verk­efna sókn­ar­á­ætl­un­ar­innar í fjár­lögum hvers árs til árs­ins 2018. Það hefur verið leið­rétt í text­anum hér að ofan.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirgir Þór Harðarson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar