Á dögunum var kynnt skýrsla um Ísland og loftslagsmál þar sem dregin er upp mun dekkri mynd af horfum í loftslagsmálum, miðað við yfirlýst markmið Íslands í þessum málaflokki. Eins og Kjarninn greindi frá sagðist Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafa verið slegin yfir þeim dómi sem skýrslan kveður um stöðu Íslands í þessu tilliti.
„Að óbreyttu munum við ekki standa við Parísarsamkomulagið nema við hysjum upp um okkur buxurnar, sagði hún í viðtali í Kastljósþætti, daginn sem skýrslan var kynnt. Björt hefur verið umhverfisráðherra síðan 11. janúar síðastliðinn þegar ný ríkisstjórn tók við eftir kosningarnar í haust.
En jafnvel þó skýrslan lýsi því að ef ekkert verið að gert muni Ísland vera fjarri því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, þá er einnig dregin upp bjartari mynd. Sú mynd verður að veruleika ef gripið verður til mótvægisaðgerða gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Hér að neðan verður farið stuttlega yfir þau atriði sem skýrsluhöfundar leggja til og nota í þá sviðsmynd þar sem niðurstaðan er jákvæð fyrir Ísland og markmiðin.
En fyrst um markmiðin.
Einföld markmið
Markmið Íslands í loftslagsmálum er einfalt fljótt á litið. Gagnvart Parísarsamkomulaginu hefur Ísland hengt sig á Evrópusambandið og tekur þátt í sameiginlegu markmiði aðildarríkja Evrópusambandsins um að vera búið að minnka losun frá Íslandi um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
Í markmiði Íslands segir enn fremur að stjórnvöld hér á landi skuldbindi sig til ábyrgðar á „réttlátum hluta“ (e. fair share) í markmiði ESB. Enn hefur ekki fengist niðurstaða í viðræður við Evrópusambandið um hvað þessi „réttláti hluti“ felur í sér. Þangað til hefur verið gengið út frá því að Ísland hafi skuldbundið sig til að minnka losun um 40 prósent. Það hafa ráðamenn jafnvel sagt á opinberum vettvangi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lýsti því yfir á erlendum vettvangi að Ísland myndi minnka losun um þessi 40 prósent árið 2030, en gat svo ekki staðfest það við íslenska fjölmiðla.
Miðað við framreiknaðar tölur þá er ljóst að ef ekki verður gripið til aukinna mótvægisaðgerða í loftslagsmálum þá muni heildarútstreymi frá Íslandi verða á bilinu 53 til 99 prósent meira en árið 1990 árið 2030.
% breyting frá 1990 | Grunntilvik % breyting frá 1990 | Miðtilvik % breyting frá 1990 | Hátilvik % breyting frá 1990 | |
---|---|---|---|---|
2014 | 2030 | 2030 | 2030 | |
Rafmagn og hiti | 69% | 146% | 164% | 272% |
Samgöngur | 39% | 11% | 11% | 11% |
Iðnaður og efnanotkun | 79% | 163% | 215% | 292% |
Sjávarútvegur | -42% | -35% | -35% | -35% |
Landbúnaður | -4% | 7% | 7% | 7% |
Úrgangur | 52% | 15% | 15% | 15% |
Samtals án landnotkun | 26% | 53% | 71% | 99% |
Samtals með landnotkun | 15% | 33% | 51% | 79% |
Þungur róður með stóriðjunni
Í þessum háspám og lágspám er útstreymi frá stóriðju talið með. Stóriðjan fellur hins vegar ekki undir markmið Íslands í Parísarsamkomulaginu vegna þess að losunarheimildir frá stóriðju eru framseljanlegar á markaði Evrópusambandsins með losunarheimildir. Það kann að skjóta skökku við að stærsti mengunarvaldurinn hér á landi falli ekki undir markmiðin í loftslagsmálum. Markaðurinn með losunarheimildirnar var hins vegar skapaður til þess að „jafna skellinn“ á milli ríkja sem reka mismikla stóriðju.
Þess vegna er útstreymið einnig reiknað fram til ársins 2030 án stóriðjunnar. Þar breytist myndin talsvert. Án bindingar (og að stóriðju undanskilinni) gæti heildarútstreymi orðið tíu prósent meira árið 2030 en árið 1990 í grunntilviki. Hátilvikið er 16 prósent aukning frá 1990. Binding breytir myndinni enn frekar: 18 prósent minna útstreymi árið 2030 í grunntilviki og 12 prósent minna í hátilviki.
Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands sem ritstýrði skýrslunni, segir að það yrði þungur róður fyrir Ísland að ná markmiðunum ef stóriðjan yrði ekki undanskilin. „Það eru aðgerðir í hverjum einasta geira sem hægt er að ráðast í og eru tæknilega mögulegar í dag. Nema í stóriðjunni, það er að segja,“ segir Brynhildur í samtali við Fréttablaðið.
Hvaða lausnir eru í boði?
Í skýslunni um Ísland og loftslagsmál er samfélaginu skipt í sjö geira, líkt og hefð er fyrir hér á landi. Geirarnir eru svo greindir sérstaklega, en undir hvern þeirra falla jafnvel fjölbreyttur iðnaður eða starfsemi. Geirarnir sjö eru:
- Rafmagn og hiti
- Samgöngur
- Sjávarútvegur
- Iðnaður og efnanotkun
- Landbúnaður
- Meðferð úrgangs
- Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt
Hlutfall geiranna í heildarlosun Íslands
Í skýrslunni er fjallað um þær mótvægisaðgerðir sem raunhæft er að ráðast í á næstu árum til þess að stemma stigu við aukna losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Eðli málsins samkvæmt eru úrræðin mis áhrifarík. Þar geta ýmsir þættir ráðið för; til dæmis má nefna stöðu tækniþróunar, kostnað við verkefni og innleiðingarhraða auk illmælanlegra þátta á borð við það hvað almenningur er móttækilegur fyrir vissar nýjungar.
Smelltu á flokkana hér að neðan til að sjá útlistanir í hverjum flokki fyrir sig.
Rafmagn og hiti
Útstreymi vegna orkuframleiðslu á Íslandi er með minnsta móti í Evrópu eða fimm prósent af öllum útblæstri Íslands. Nær öll raforkuframleiðsla fer fram með endurnýjanlegum orkugjöfum á borð við jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir. Enn eru þó til dæmi um að rafmagn sé framleitt með dísilrafstöðvum.
Þær leiðir sem nefndar eru í skýrslunni til að minnka losun í þessum geira eru nokkuð dýrar og fela aðallega í sér minna útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og framleiðslu lífmassa eða eldsneytis úr því sem fangað er. „Kostnaður við aðgerðirnar er nokkur eða frá 2.800 kr/tonn CO2 ígildi við föngun og bindingu til 5.430 kr/tonn CO2 ígildi fyrir föngun og framleiðslu,“ segir í skýrslunni.
Samgöngur
Samgöngur eru uppruni 19 prósent allrar losunar Íslands. Auk vegasamganga (sem eru ábyrgar fyrir 93% geirans) fellur innanlandsflug og strandsiglingar hér undir.
Aðgerðum sem beita má til mótvægis í samgöngugeiranum er skipt í fjóra hluta: Aðgerðir sem styrja almenningssamöngukerfið auk þess að fólk gangi frekar og hjóli, möguleikar á blöndun eldsneytis til þess að draga úr losun, aðgerðir til að bæta orkunýtingu og innleiðing nýrrar tækni á borð við metanbíla, rafmagnsbíla og vetnisbíla.
Í skýrslunni segir orðrétt: „Niðurstöður sýna að vetnis- og rafbílavæðing skilar mestum árangri í samdrætti á útstreymi gróðurhúsalofttegunda.“ Uppbygging fyrir göngu og hjólreiðar og hraðvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu koma þar á eftir innleiðing bifreiða sem ganga fyrir bensínblönduðu etanóli (E85). Ef horft er enn lengra fram í tímann, til ársins 2050 þá hafa vetnis- eða rafbílar langmest áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Það er hins vegar mikill kostnaðarmunur á þessum leiðum: nettókostnaður rafbílavæðingar er 15.300 kr/tonn CO2, en nettókostnaður vetnisvæðingar er 203.900 kr/tonn CO2. Við meiri göngu og hjólreiðar verður nettósparnaður upp á 23.000 kr/tonn CO2-ígilda. Nettókostnaður við uppbyggingu hraðvagnakerfis er metinn 35.400 kr/tonn CO2-ígilda.
Sjávarútvegur
Tíu prósent af heildarútstreymi Íslands árið 2014 má rekja til sjávarútvegs. Losun í sjávarútvegi dóst saman síðan árið 1990. Fiskiskip eru ábyrg fyrir um 84 prósent útstreymis en fiskimjölsverksmiðjur um 16 prósent.
Til að minnka úr útstreymi flotans má grípa til margvíslegra aðgerða sem miða að því að spara eldsneyti, auka nýtingu loftslagsvænni orkugjafa eða auka notkun landrafmagns við landlegur. Mestan árangur má fá ef jurtaolía verður notuð í stað gasolíu og er sá valkostur ódýrastur þeirra kosta sem lagðir eru til.
Til að takmarka útstreymi frá fiskimjölsverksmiðjum er lagt til að rafmagn verði notað til gufuframleiðslu og mjölþurkun, en í dag er olía notuð til orkugjafar. Nokkurrar innviðafjárfestingar er þörf til þess að þetta megi verða að veruleika, en leggja þarf raflínur og byggja tengivirki að verksmiðjunum sem anna eftirspurninni.
Iðnaður og efnanotkun
Iðnaður og efnanotkun er stærsti flokkurinn af þeim sjö sem stuðst er við í skýrslunni. Iðnaður og efnanotkun bera ábyrgð á 45 prósent af losun Íslands. Frá 1990 hefur hlutur þessa geira vaxið nokkuð; var 32 prósent árið 1990 og var aukningin til 2014 því um 79 prósent. Undir þennan flokk fellur til dæmis stóriðja, byggingarstarfsemi og efnanotkun. Stóriðjan fellur undir viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir og er því undanskilin í Parísarsamkomulaginu.
Árið 2014 skiptist útstreymið þannig að álframleiðsla var ábyrg fyrir 67 prósent útstreymisins, járnblendi var 18 prósent, byggingarstarfsemi sjö prósent og efnanotkun átta prósent.
Síðan árið 1990 hefur framleiðsla á áli á Íslandi aukist margfalt; árið 1990 voru framleidd 88 þúsund tonn en árið 2014 voru framleidd 839 þúsund tonn. Framleiðsluaukingin á sama tímabili í járnblendi var 76 prósent. Losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn af áli hefur minnkað umtalsvert á þessum tíma og er með því minnsta í heiminum í dag.
Í skýrslunni er reiknað með að heildarútstreymi geti orðið 215 prósent meira árið 2030 en það var árið 1990, eða um 59 prósent af heildarútstreymi Íslands í grunntilviki. Hásviðsmynd sýnir að útstreymið gæti orðið 292 prósent meira og iðnaður þá ábyrgur fyrir 63 prósent af heildarútstreymi Íslands.
Ekki er útlit fyrir að miklar tækniframfarir verði í bindingu og takmörkun útstreymis frá orkufrekum iðnaði á borð við þann sem starfræktur er á Íslandi fyrr en eftir 2030, þegar gert er ráð fyrir að eðalrafskaut muni hugsanlega ryðja sér til rúms í álframleiðslu. Nú þegar eru íslensk álver „nálægt tæknilegu lágmarki útstreymis miðað við núverandi framleiðslutækni,“ ef vitnað er beint í skýrsluna.
Talið er að samdráttur árið 2030 gæti hins vegar orðið tíu prósent með meiri umbótum og framleiðslustýringu í álverum.
Landbúnaður
Útstreymi frá landbúnaði var 16 prósent af heildarútstreymi frá Íslandi árið 2014. Skiptingin innan þessa flokks er á milli dýrahalds, sem ber ábyrgð á 52 prósent útstreymisins, og túnræktar, sem ber ábyrgð á 48 prósent útstreymisins.
Helstu leiðir sem nefndar eru skýrslunni til þess að draga úr útstreymi frá landbúnaði eru bætt fóðrun búfénaðar til að draga úr framleiðslu metans, loftþétt geymsla búfjáráburðar, metangasgerð úr mykju og aukin notkun búfjáráburðar á kostnað tilbúins köfnunarefnisáburðar. Talið er að notkun búfjáráburðar á landbúnaðarlandi geti haft í för með sér nokkurn sparnað, meðal annars vegna minni innflutnings tilbúins áburðar og hins vegar vegna metangasgerðar.
Með þessum aðgerðum mætti dragar úr útstreymi frá landbúnaði um allt að 27 prósent miðað við árið 1990.
Úrgangur
Þessi geiri er ábyrgur fyrir sex prósent af heildarútstreymi Íslands. Undir þennan flokk fellur frárennsli (5%), urðun (92%) og brennsla úrgangs (3%). Í heildina jókst útstreymið um 52 prósent á tímabilinu 1990 til 2014 og breytir þar aukning vegna urðunar og frárennslis mestu.
Hægt er að minnka heildarútstreymi vegna meðhöndlunar úrgangs verði 24 prósent lægra árið 2030 en það var árið 1990. Til þess eru þrjár meginleiðir færar: að draga úr myndun úrgangs, að fanga hauggas á urðunarstöðvum og dragar úr urðun lífræns úrgangs með því að beina honum í endurvinnslu, jarðgerð, gasgerð eða í brennslu.
Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt
Þessi flokkur kemur til frádráttar frá annari losun landsins, ólíkt hinum flokkunum sex. Það er vegna þess að hér á binding sér stað. Á tímabilinu 1990 til 2014 hefur binding vegna skógræktar og landgræðslu aukist jafnt og þétt. Árið 2014 var nettóbinding ársins um 429 þúsund tonn CO2.
Nákvæmir útreikningar á því hversu vel landnotkun bindur eða losar af gróðurhúsalofttegundum eru gríðarlega flóknir en stuðst er við ýmsa stuðla og viðmið við kortlagningu og áætlanir. Helstu aðgerðir sem hægt er að ráðast í til að draga úr útstreymi eða til að binda gróðurhúsalofttegundir eru aukin landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis.
Umfjöllun Kjarnans um loftslagsmál
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind