Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur verið tíðrætt á undanförnum mánuðum um framlög aðildarríkja að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Honum hefur fundist að bandalagsþjóðirnar leggi ekki nógu mikið til varnarmála.
Á fundi sínum með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ítrekaði hann þessi skilaboð og sagði aðildarþjóðirnar skulda NATO og Bandaríkjunum fyrir vangoldnar greiðslur undanfarin ár. Samkvæmt sáttmála NATO skuldbinda allar bandalagsþjóðirnar sig til þess að eyða tveimur prósentum af ríkisútgjöldum til varnarmála til ársins 2024.
Daginn eftir að Merkel hafði flogið heim til Berlínar skrifaði Trump á Twitter að, þrátt fyrir að fundur þeirra hafi verið frábær þá skuldi Þýskaland enn háar fjárhæðir til NATO og Bandaríkjanna.
Þessu hafa Þjóðverjar hafnað. Í yfirlýsingu Ursulu von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir að það sé álit Þjóðverja að það sé rangt að aðildarríkin séu skyldug til að eyða tveimur prósentum af heildarútgjöldum til hernaðarmála eingöngu vegna NATO.
„Útgjöld til varnarmála renna einnig til friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, evrópsk verkefni og í framlög til baráttunnar gegn hryðjuverkum Íslamska ríkisins,“ segir í yfirlýsingunni.
Þjóðverjar munu á næstunni auka útgjöld til varnarmála, að því er fjármálaráðherrann Wolfgang Schaeuble hefur látið eftir sér. Hlutfall útgjalda Þýskalands verður þá orðið 1,26 prósent, miðað við 1,18 prósent árið 2016.
Bandaríkin eyða mest, Ísland minnst
Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949 í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar. Ísland er eitt þeirra ríkja sem eru stofnaðilar að NATO en síðan hefur bandalagið stækkað nokkuð.
Frá 1999 hefur mörgum af ríkjum Austur-Evrópu verið veitt aðild að NATO; mörg þeirra voru hluti af Varsjárbandalaginu sem var svar austantjaldslanda við Atlantshafsbandalaginu.
Samkvæmt nýjasta yfirlitinu yfir útgjöld til bandalagsins sem gefið var út á vef NATO 13. mars síðastliðinn kemur fram að miðgildi hlutfallsins sem aðildarríkin eyða í varnarmál árið 2016 hafi verið 1,21 prósent.
Af ríkjunum 28 þá eyða Bandaríkin lang mestu eða 3,61 prósent af vergri landsframleiðslu. Sé hlutfall þess fés sem eytt er í varnarmál meðal ríkja NATO borið saman þá sést greinilega að Bandaríkin eyða lang mestu. Af þeim rúmlega 921 milljörðum Bandaríkjadala sem ríkin eyða í varnarmál eyða Bandaríkin um 664 milljörðum. Það er sem sagt 72 prósent af heildarútgjöldunum.
Þá er hins vegar ekki þar með sagt að Bandaríkin standi undir 72 prósent alls kostnaðarins sem fylgir starfsemi NATO, rekstri höfuðstöðvanna í Brussel eða þeim verkefnum sem NATO ræðst í.
Útgjöld til varnarmála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (%)
Þau fimm ríki sem eyða meira en tveimur prósent af heildarútgjöldum eru Bandaríkin, Bretland, Grikkland, Eistland og Pólland. Samanborið við árið 2009 þá hafa þau aðildarríki sem eiga landamæri að Rússlandi aukið varnarmálaútgjöld sín mest. Það eru Pólland, Eistland, Lettland og Litháen.
Ísland er eina aðildarríkið sem ekki er talið með í töflum útgjaldayfirlitsins enda hefur Ísland engan her. Hér á landi fer utanríkisráðuneytið með varnarmál og samskipti við NATO. Á fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir að utanríkisráðuneytið fái fjárheimildir til samstarfs um öryggis- og varnarmál. Heildargjöld ríkisins vegna þeirra eru 1.549,7 milljónir króna. Það er fjármagnað með rekstrartekjum sem munu nema að upphæð 109,4 milljónum króna og restin, 1.440,3 milljónir, koma úr ríkissjóði.
„Það er engin millifærsla“
„Fyrirgefðu, herra forseti, svona virkar NATO ekki,“ skrifaði Ivo Daadler, fyrrverandi fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá NATO árin 2009 til 2013, á Twitter. Tíst hans voru svör við færslum Donalds Trump um að Þýskaland skuldi NATO og Bandaríkjunum enn peninga.
„Bandaríkin ákveða sjálf hversu mikið þau leggja til varna NATO. Það er engin millifærsla fjár þar sem aðildarríkin borga Bandaríkjunum til að verja sig. Þetta er hluti af þeim skuldbindingum sem við höfum gert í sáttmálanum,“ skrifar Daadler.
„Öll NATO-ríkin, Þýskaland þar með talið, hafa skuldbundið sig til að eyða 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála til ársins 2024. Nú eru fimm af 28 NATO-löndum sem gera það. Þau sem eru ekki að greiða svo háa fjárhæð í dag eru að auka útgjöld til varnarmála. Það er gott.“
Skuldbindingarnar sem Daadler talar um eru þær sem aðildarríkin gengust við á NATO-ráðstefnunni í Wales sumarið 2014. Þar var tvennt ákveðið:
- Bandalagsþjóðir sem þegar eyða meira en 2% til varnarmála munu halda áfram að gera slíkt;
- Bandalagsþjóðir sem ekki mæta þessum skilyrðum skulu koma í veg fyrir að hlutfall til varnarmála minnki og stefna að því að auka útgjöld til varnarmála í takt við aukna verga landsframleiðslu, og ná 2% innan áratugs.
Daadler heldur áfram að útskýra varnarsamstarfið fyrir forsetanum og það hvers vegna Bandaríkin eru að taka þátt í vörnum í Evrópu. „Það er mikilvægt fyrir okkar eigið öryggi,“ skrifar hann, að Evrópa sé örugg. „Við börðumst í tveimur heimsstyrjöldum í Evrópu, og einu Köldu stríði. Heil, frjáls og friðsæl Evrópa eru mikilvægir hagsmunir fyrir Bandaríkin.“
Gagnrýni Trumps á NATO hefur ávalt verið, að hans eigin sögn, tvíþætt. „Ég hef lengi sagt að NATO ætti við vanda stríða. Í fyrsta lagi þá er það úrelt því það var hannað fyrir mörgum, mörgum árum. Í öðru lagi þá hafa löndin ekki borgað það sem þau áttu að borga.“