Gögn sýna að framleiðslusamdráttur OPEC-ríkjanna, samtaka olíuframleiðsluríkja, á hráolíu hefur haft áhrif á framboð af olíu í heiminum.
Samkvæmt gögnum Vortexa, nýs fyrirtækis sem fylgist með flutningi olíu á sjó í heiminum, sýna að magn olíunnar sem flutt er með skipum hefur minnkað um allt að 16 prósent síðan í upphafi ársins. Financial Times fjallar um þetta í dag.
Ákvörðun OPEC-ríkjanna um að takmarka framleiðslumagnið var söguleg fyrir þær sækir að það var í fyrsta sinn í átta ár sem þessi ríki náðu samkomulagi um að draga úr framleiðslu.
Salvar Þór Sigurðarson er einn þeirra sem starfar hjá fyrirtækinu sem útbýr gögnin sem sýna fram á þetta. Fyrirtækið Vortexa er sprotafyrirtæki þar sem, ásamt Salvari, starfa fyrrverandi stjórnendur hjá breska olíurisanum British Petrolium, BP og bandaríska bankanum JPMorgan.
„Þeir sem eru að kaupa og selja olíu hafa hingað til haft mjög lélega yfirsýn yfir hvað er í gangi,“ segir Salvar Þór í samtali við Kjarnann. Hann á sérstaklega við um þá sem eru að kaupa heilu skipsfarmana af hráolíu sem verður síðan að bensíni á bíla og flugvélaeldsneyti. „Þetta er ekki eins og fjármálaheimurinn þar sem þú getur fylgst með öllu í rauntíma og hvaða vísitölur eru að fara hingað og þangað.“
Vilja nútímavæða gamaldags markað
Salvar segir að nýsköpunarfyrirtækið Vortexa hafi orðið til fyrir tilstuðlan mun betri aðgengis að gervihnattaupplýsingum úr ótrúlega mörgum gervihnöttum. Þetta hafi skapað tækifæri til þess að taka allar þessar upplýsingar saman og selja áfram til þeirra sem versla með hráolíu. „Tólið sem er lang mest notað til að kaupa og selja olíu í heiminum er Yahoo-messenger og sími, án djóks,“ segir Salvar Þór.
„Það gerist ekkert í rauntíma í þessum heimi. Menn skoða skýrslur fyrir síðasta mánuð eða síðustu tvær vikur. Ef þú vilt vita hvað hefur gerst síðan þá, þá hringir þú í aðra svona olíubraskara og spilar þennan upplýsingapóker. Þú vilt samt ekki segja hvað þig vantar því þá ertu búinn að missa samningsstöðuna.“
Með tólinu sem Vortex kynnti á ráðstefnu á vegum Financial Times í Sviss á dögunum býðst þeim sem kaupa aðgang að gagnabankanum að fylgjast með framboði og eftirspurn á hráolíu í rauntíma.
Næstu skref verða að víkka út sjónarsviðið og reyna að birta sambærilegar og nothæfar upplýsingar um unna olíuvöru, svo sem bensín, dísil og aðrar afurðir olíuvinnslustöðva. „Síðan þurfum við að finna leið til þess að leysa vandamál við að fylgjast með öllu því sem er ekki flutt með skipum,“ segir Salvar Þór.
Jafnvel þó olíudreifing á landi komi hvergi við sögu í gögnunum sem Vortexa veitir þá gefa gögnin nokkuð góða mynd af framboðinu. Fyrirtækið greinir nokkuð stórt hlutfall markaðarins. Sem dæmi má nefna Sádi-arabíu sem er stærsti einstaki framleiðandi olíu innan OPEC-ríkjanna. Þrír fjórðu olíunnar sem kemur upp úr jörðinni þar er dælt á skip og flutt sjóleiðina þangað sem olían er brennd.
Salvar segir markmið Vortexa vera skýrt: „Við ætlum að reyna að ná heildaryfirsýn yfir framboð og eftirspurn eftir orku í heiminum og birta það í rauntíma.“
Bandaríkin halda olíuverðinu niðri
Þrátt fyrir framleiðslutakmarkanir OPEC-ríkjanna, sem gerðar voru til þess að hækka fallandi heimsmarkaðsverð með olíu, þá hefur fatið af olíu ekki kostað mikið meira en 50 dollara á þessu ári. Það er að hluta til talið vegna aukinnar framleiðslu Bandaríkjanna á olíu sem hefur öfug áhrif á markaðinn; aukið framboð leiðir til lægra verðs.
Þetta hefur ollið því að markaðsrýnar hafa áhyggjur af því að framleiðslutakmörkunin verði afnumin. Samningurinn um takmörkunina hefur þegar verið framlengdur einu sinni og rennur út 1. janúar 2018.