Recep Tayyip Erdoğan hefur um árabil lagt grunninn að stjórnarskrárbreytingunum sem samþykktar voru í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðustu viku. Stjórnskipan landsins hefur verið breytt með afgerandi hætti; embætti forsætisráðherra hefur verið afnumið og hefur framkvæmdavald færst að fullu til embætti forseta sem mun einnig hafa fullt vald yfir gerð fjármálaáætlana, og hafa völd forseta yfir dómsvaldinu aukist til muna og stjórnar hann nú skipan dómara. Forseta landsins er ekki lengur skylt að rjúfa tengsl sín við stjórnmálaflokka og munu þingmenn ekki lengur geta beint spurningum til forsetans. Þá hafa reglur varðandi vantrauststillaga til forsetans verið hertar og þurfa núna 60% þingmanna að samþykkja hana en lokaákvörðun verður í höndum stjórnarskrárréttar sem er að mestu leyti skipaður af dómurum útnefndum af forsetanum sjálfum. Það má segja að stjórnarskrárbreytingarnar geri Erdogan að einræðisherra og mun hann tæknilega séð geta gegnt embætti forseta fram til ársins 2034.
Á tæpasta vaði
Stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar með 51,3% atkvæða og var kjörsókn
yfir 80%. Kjósendur í þremur stærstu borgum landsins, Istanbúl, Ankara og Izmir, flestum hafnarborgum landsins, ásamt stórum meirihluta Kúrda, kusu gegn breytingunum og gefa niðurstöður atkvæðagreiðslunnar í skyn að þjóðin er mjög tvískipt gagnvart Erdogan. Sá naumi sigur sem Erdogan bar úr býtum sýnir takmarkaðan hljómgrunn fyrir afdrifaríkustu breytingar á stjórnskipan í landinu í áratugi.
Pólitískar kringumstæður atkvæðagreiðslunnar hölluðu mjög á stjórnarandstöðuna og var framkvæmd kosningabaráttunnar og atkvæðagreiðslunnar ekki í takt við það sem búast má við í lýðræðisríkjum. Í fyrsta lagi ríkir enn neyðarástand í Tyrklandi eftir misheppnaða valdaránstilraun síðasta sumar. Eftir að neyðarástandinu var komið á hefur Erdogan staðið í ströngu við að fjarlægja þúsundir stjórnarandstæðinga, blaðamanna og fræðimanna úr embættum. 179 fjölmiðlum hefur verið lokað á síðustu mánuðum og var kosningabaráttan einkennd af nánast algjörum takmörkunum á fjölmiðlaumfjöllun andstæðinga breytinganna. Samkvæmt ÖSE gerði neyðarástandið að verkum að atkvæðagreiðslan fór fram við aðstæður þar sem pólitísk grundvallarréttindi voru skert og fjölmiðlafrelsi lítið sem ekkert.
Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Cumhuriyet Halk Partisi (CHP), bað strax í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um að niðurstöður þeirra yrðu dæmdar ógildar en kosningaráð landsins hefur tilkynnt að svo verði ekki. CHP hefur þó eitthvað til síns máls; kosningaráðið ákvað á síðustu stundu að leyfa talningu ómerktra kjörseðla og hefur einn kosningaeftirlitsmaður Evrópuráðsins tjáð að allt að tvær og hálf milljónir atkvæða gætu hafa verið fölsuð sem er næstum tvöfalt fleiri atkvæði en munurinn var í atkvæðagreiðslunni.
Viðbrögð „George“ og „Hans“
Í kjölfar gagnrýni erlendra kosningaeftirlitsmanna sagði Erdogan að tyrkneskum stjórnvöldum „væri sama um skoðanir 'George' og 'Hans'“ því þjóðin hefði tekið skýra ákvörðun. Dræmar undirtektir alþjóðasamfélagsins við atkvæðagreiðsluna lýstu sér í að einungis örfá lönd á borð við Katar, Gíneu, Azerbaijan og Barein hefðu haft samband við Erdogan til að óska honum til hamingju með sigurinn. Þessi gæðastimpill batnaði vart af því þegar kom í ljós að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hafði hringt til Erdogan til að óska honum til hamingju þrátt fyrir að utanríkisráðuneyti landsins hafði veitt heldur dræmari viðbrögð. Þá hefur forseti Rússlands, Vladimir Putin, gert slíkt hið sama samkvæmt heimildum Reuters.
Undirtektir í Evrópu hafa verið með öðru sniði. Talsmaður Jean-Claude Juncker, forseta Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), sagði að stjórnvöld í Tyrklandi ættu að rannsaka ásakanir um kosningasvindl og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti Erdogan til að hefja viðræður við stjórnarandstöðu og ESB til þess að ræða afleiðingar niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar því þær sýndu að tyrkneska þjóðin væri langt frá því að vera sammála um stjórnarskrárbreytingarnar. Erdogan hefur ekki reynt að komast til móts við áhyggjur leiðtoga Evrópuríkja og sagði í ræðu sinni eftir sigurinn í atkvæðagreiðslunni að hann gæti teflt fram annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um innleiðingu dauðarefsingar í landinu en ef rætist úr því yrðu líkur Tyrklands á aðild að ESB orðnar að engu.
Sigur og ósigur
Erdogan er vafalaust með pálmann í höndunum eftir atkvæðagreiðsluna sem markar kaflaskipti í tyrkneskum stjórnmálum. Aukin völd Erdogan munu gera honum kleift að styrkja enn frekar áhrif sín á tyrkneskt samfélag og stjórna landinu eftir eiginn geðþótta. Hins leiða niðurstöður atkvæðagreiðslunnar að sama skapi í ljós eins konar ósigur. Úr því að næstum því helmingur þjóðarinnar kaus gegn breytingunum þrátt fyrir erfiðar aðstæður stjórnarandstæðunnar má segja að erfitt sé að túlka atkvæðagreiðsluna sem stuðningsyfirlýsingu við stjórnarflokk Erdogan, Adalet ve Kalkınma Partisi (AKP). Andstaða við breytingarnar í stærstu borgum landsins, og í mörgum kjördæmum þar sem AKP hefur haft mikið fylgi, sýndi að stuðningur við Erdogan var minni en hann hefði vonast eftir. Aukin völd forsetaembættisins munu hins vegar gera honum kleift að stjórna landinu með sterkri hendi sama hvort hljómgrunnur sé fyrir stefnum hans meðal Tyrkja. Atkvæðagreiðslan hefur borið með sér kostnað sem og ávinning fyrir Erdogan og mun hann þurfa að takast á við aukna spennu innanlands og aukna jaðarsetningu utanlands.