Tilraunir til flótta úr hinum og þessum prísundum eru afar vinsælt stef í bókum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, enda er endalaust hægt að spinna góðar sögur í kringum baráttu lítilmagnans gegn ofríki „vondu kallanna“. Þarna má t.d. nefna þættina um Hetjur Hogans og þeirra rimmur við Klink ofursta, snilldarmyndina Raising Arizona og (hina nett ofmetnu en samt fínu) The Shawshank Redemption.
Ein af þeim eftirminnilegustu er The Great Escape frá árinu 1963 þar sem eðaltöffarinn Steve McQueen fór fyrir hópi stórleikara. Myndin er lauslega byggð á sönnum atburðum þar sem mörg hundruð stríðsfanga í búðunum Stalag Luft III skipulögðu flótta um jarðgöng árið 1944.
Stalag Luft III voru staðsettar í Sílesíu, innan landamæra Póllands í dag, og hýstu um 10.000 fanga. Vistin þar var ekkert í líkingu við það sem lesendur þekkja af sögum úr útrýmingarbúðunum, en þrátt fyrir það var lítið varið í vistina þar, og matarskammtarnir voru sérstaklega skornir við nögl.
Á stríðsárunum voru flóttatilraunir stríðsfanga mjög algengar og Stalag Luft III var einmitt valinn staður með afar gljúpum sandríkum jarðvegi sem átti að gera gangnagröft erfiðan. Auk þess voru svefnskálar fanganna um það bil 60 sm frá jörðu og hljóðnemar voru grafnir í jörðu til að greina möguleg hljóð frá gangnagreftri. Loks voru Þjóðverjar með sérstaka hópa manna sem fóru á milli búða til að fletta ofan af tilraunum til að skipuleggja flótta.
Þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir var hópur fanga í Stalag Luft III staðráðinn í að brjótast út í frelsið.
Þegar Roger Bushell, suður-afrískur foringi í RAF, breska flughernum, var fluttur í búðirnar komst ráðbruggið á fullt. Bushell, sem hafði áður flúið tvisvar úr haldi nasista, en náðst aftur, barði kjark í félaga sína á undirbúningsfundi vorið 1943 þar sem hann sagði meðal annars:
„Með réttu ættum við allir að vera dauðir! Eina ástæðan fyrir því að Guð gaf okkur þessa framlengingu lífdaga er svo við getum skapraunað Þýskurunum!“
Hann boðaði gerð þriggja gangna, sem gengu undir heitunum Tom, Dick og Harry. Hugmyndin var að ef ein göngin myndu finnast þá væri hægt að einbeita sér að þeim sem eftir væru. Hann safnaði saman kunnáttumönnum á ýmsum sviðum, meðal annars gangnagerðarmönnum, fölsurum, skröddurum og fleirum.
Áætlun Bushells var gríðarlega metnaðarfull þar sem um 600 fangar tóku þátt í undirbúningnum og yfir 200 fangar áttu að sleppa, með skilríki, dulbúninga og fleira til að auðvelda þeim flóttann eftir að út var komið. Þeir voru meira að segja komnir með tímatöflu fyrir lestarstöð í nágrenninu. Margt af búnaði og hlutum fengu þeir í gegnum fangaverðina sem voru margir ginnkeyptir fyrir mútum eða jafnvel kúgunum.
Á níu metra dýpi
Göngin voru ýmist undir kamínu í skálunum eða undir niðurfalli. Fangarnir grófu sig fyrst um níu metra niður áður en stefnan var tekin út fyrir girðingu. Eins og áður sagði var jarðvegurinn mjög gljúpur þannig að grafararnir þurftu að styrkja göngin. Það gerðu þeir með spýtum sem teknar voru úr rúmum fanganna. Þær voru 60 sm á lengd og voru göngin því ekki breiðari en það.
Eftir því sem göngin lengdust jókst þörf á frekari ráðstöfunum.
Fangarnir höfðu notast við niðursuðudósir til að smíða sér allrahanda verkfæri, en síðar voru þær notaðar til að gera loftræstilagnir. Þeir útbjuggu einnig sérstaka loftdælu sem var knúin handafli, svipað og róðrarvél.
Að sjálfsögðu var ákveðinn hausverkur að losna við jarðveginn sem féll til við gröftinn, en lausnin þeirra er nú orðin klisjuleg. Fangarnir fóru sumsé með sandinn út í sekkjum sem þeir földu í buxnaskálmum og þykkum frökkum og létu renna út svo lítið bar á. Magnið af jarðvegi var þó gríðarlegt, jafnvel rúmir 80 rúmmetrar, sem jafngildir 8.000 lítrum, og því merkilegt hvað gekk lengi að losa sig við hann.
Verðirnir voru ekki alfarið glærir, heldur grunaði þá lengi að eitthvað væri á seyði, en þeim tókst aldrei að standa neinn almennilega að verki til að finna göngin sjálf… það er þangað til að þeir fundu „Tom“. Stuttu síðar féll „Dick“ um sjálfan sig þegar fangabúðirnar voru víkkaðar út yfir staðinn þar sem þau göng áttu að koma upp. Þannig var „Harry“ einn eftir.
4.000 rúmspýtur teknar til handargagns
Þau göng lágu frá skála 104 og voru rúmlega 100 metra löng. Á leiðinni var, eins og áður sagði loftræsting og þrjú svæði þar sem grafnar höfðu verið út eins konar hvelfingar til að athafna sig á leiðinni. Gríðarlega mikið efni þurfti til gangnagerðarinnar og voru fanganir einstaklega úrræðagóðir að bjarga sér í því tilliti. Þar voru mikilvægastar hinar fyrrnefndu rúmspýtur, en talið er að alls hafi um 4.000 spýtur verið notaðar í verkið. Í hverju rúmi voru 20 spýtur, en um átta voru jafnan skildar eftir.
Auk þess tóku þeir sér til handagagns: 1.699 rúmteppi, 161 koddaver, 34 stólar, 52 langborð, 478 skeiðar, 582 gafflar, 3.424 handklæði og 246 vatnsflöskur svo fátt eitt sé nefnt af lista sem yfirstjórn búðanna lét taka saman eftir að upp komst um flóttann.
Örlagadagurinn rennur upp
Þegar komið var fram í mars árið 1944 voru göngin nær tilbúin og því fátt að vanbúnaði. 220 manns voru dregnir út hópi mannanna sem stóðu að gangnagerðinni og áttu þeir að fara út á aðfararnótt hins 25. sama mánaðar.
Babb kom hins vegar í bátinn þar sem þegar sá sem rak hausinn fyrst upp úr gangaendanum langsótta. Enn vantaði um þrjá metra upp á að þeir væru komnir í skjól skógarins handan girðingar og þeir voru innan við 10 metra frá næsta varðturni (sem vissi sem betur fer frekar inn í búðirnar en út á við). Auk þess var snjór á jörðinni þannig að flóttamennirnir áttu eftir að skilja eftir sig slóð fótspora.
Til að auka enn á vandræðin var rafmagnið tekið af öllum búðunum vegna loftárása bandamanna þannig að niðamyrkur var í göngunum.
Allt þetta hægði verulega á straumnum um göngin þannig að það var fljótlega ljóst að 220 menn myndu aldrei komast út.
Svo gerðist það, rétt fyrir kl 5 um nóttina, að vörður varð var við það þegar einn flóttamannanna skaut höfðinu upp úr holunni og allt fór í gang. Þeir ellefu sem voru eftir í göngunum sneru við og ruku aftur upp í skála. Þar var ljóst að upp hafði komist um ráðabruggið og fangaverðirnir voru komnir áður en langt um leið.
Hitler trylltist
Ekki gekk þeim sem sluppu út sem best að komast leiðar sinnar, en sökum tafanna og miskilnings við að rata á brautarstöðina misstu margir af lestinni sem þeir höfðu fyrirhugað að taka og tóku þess vegna bara næstu lestar burt.
Þegar fregnirnar bárust upp um valdastiga þýska hersins voru viðbrögðin snögg. Mikið lið var sent út af örkinni til að handsama flóttamennina, enda var Adolf Hitler frávita af bræði. Foringinn krafðist þess að allir þeir sem næðust, yrðu teknir af lífi umsvifalaust.
Það gekk vitanlega gegn samningum um meðferð stríðsfanga og nokkrir undirmanna Hitlers náðu að róa hann niður, en þó var lendingin sú að Gestapo skildi sjá til þess að 50 sérvaldir menn úr hópi flóttamannanna skyldu vera skotnir.
Það fór því þannig að eftir því sem mennirnir náðust, einn af öðrum, voru þeir látnir í hendur Gestapo. Þeir voru svo teknir, einn og einn eða í stærri hópum, í bílferð út í sveit. Þeim var svo boðið að pissa úti í vegakanti þar sem þeir voru teknir af lífi með byssuskoti.
Jafnan var skýrsla lögreglumannanna samhljóða; mennirnir höfðu hlaupið af stað í pissustoppinu og verið skotnir á flóttanum.
Roger Bushell var einn af þeim sem mættu örlögum sínum með þessum hætti, en alls náðust 73 af 76 flóttamönnunum. Sautján voru fluttir aftur til Stalag Luft III, fjórir í Sachsenhausen útrýmingabúðirnar (þaðan sem þeir sluppu í gegnum göng en náðust aftur) og tveir í búðirnar Oflag IV-C Colditz.
Þrír sluppu, en það voru tveir Norðmenn sem sluppu til Svíþjóðar og einn Hollendingur sem komst til Spánar þar sem hann leitaði skjóls í breskri ræðismannaskrifstofu.
Eftirmálar
Bandamenn voru vitanlega reiðir yfir meðferðinni á föngunum, enda brutu morðin gegn alþjóðasáttmálum um meðferð stríðsfanga, sem Þýskaland hafði skrifað undir.
Bretar hófu, í stríðslok, sína eigin rannsókn á því sem gerðist en það endaði með því að fjölmargir Gestapo-liðar voru dæmdir fyrir morð og teknir af lífi.
Í dag eru aðeins tveir eftirlifandi úr hópi þeirra sem unnu að göngunum, Kanadamaðurinn Gordon King. Hann vann á loftdælunni, en komst aldrei niður í göngin um nóttina örlagaríku. Hér má sjá viðtal við King þar sem hann segir frá undirbúningnum.
Dick Churchill komst hins vegar út, en náðist fljótlega. Talið er líklegt að honum hafi verið þyrmt vegna þess að hann hafði sama eftirnafn og Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands. Hann er 97 ára gamall.
Þar sem Stalag Luft III stóð forðum er nú minnisvarði um göngin og þá flóttamenn sem létu lífið.