Nýlega kynnti Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnu um nánari samvinnu í öryggis- og varnarmálum. Þar eru stigin ákveðin skref í átt að aukinni samhæfingu á framlagi ríkjanna til hermála, rannsókna, hergagnaframleiðslu og þjálfunar mannafla. Þetta kann að hljóma ógnvænlega í hugum einhverra; er nú verið að stofna Evrópuherinn sem ungt fólk verður skyldað í? Er Evrópusambandið búið að missa sjónar á markmiðum sínum um frið í Evrópu og að breytast í hernaðarbandalag?
Stutta svarið við þessum spurningum er nei þótt vissulega sé verið að auka það sem mætti kalla hernaðarleg umsvif ESB. Málið snýst annars vegar um hinar svokölluðu hraðliðssveitir sem komið var á fót fyrir nokkrum árum, en sjaldan eða aldrei hefur verið gripið til m.a. vegna ósættis um fjármögnun þeirra. Nú verður breyting á, þar sem sú fjármögnun er komin inn á fjárhagsáætlun sambandsins og því ekki lengur háð framlagi ríkjanna í hvert og eitt sinn. Hins vegar snýst þetta um almenna uppbyggingu eigin varnargetu Evrópuríkja, bæði ríkjanna sem slíkra sem og sameiginlega. Þessi aukna samvinna mun nýtast í þeim öryggis- og varnartengdu verkefnum sem unnin eru undir merkjum ESB, en einnig NATO.
Evrópa hefur dregið lappirnar – Bandaríkjamenn við stjórn
Gjarnan er nefnt að Evrópuríki séu vanmáttug þegar kemur að hernaðaraðgerðum, sem endi á því að Bandaríkjamenn þurfi koma til bjargar. Það má til sanns vegar færa og kom ágætlega fram í aðgerðunum í Líbýu þegar Gaddafi var komið frá völdum. Hvað sem segja má um gildi þeirra aðgerða sýndi það sig að Evrópuríki voru og eru vanbúin til hernaðaraðgerða svo Bandaríkjamenn, sem höfðu ætlað að fylgjast með og styðja við, neyddust til að taka yfir stjórn aðgerða. Þó er rétt að hafa í huga að ESB rekur nokkrar friðargæsluaðgerðir undir eigin merkjum – fyrst og fremst í Afríku – en einnig á Balkanskaga. Þar eru hermenn oft í hlutverki eftirlitsmanna eða hluti þjálfunarteyma.
Á það ber að líta að nokkur Evrópuríki leggja talsvert fjármagn til NATO þar sem Bandaríkjamenn hafa tögl og hagldir. Þó er óhætt að fullyrða að eftir lok Kalda stríðsins og í ljósi breyttar heimsmyndar, hefur mikilvægi þess aukist að Evrópa láti til sín taka á sviði öryggis- og varnarmála á eigin forsendum.
Sameiginleg öryggis- og varnarstefna hefur ekki verið í forgrunni Evrópusamrunans lengst af, sem hefur haft ákveðna kosti – en einnig nokkra galla. Samstarfs í öryggis- og varnarmálum hefur þó verið að taka á sig ákveðnari mynd með árunum. Það var tilgreint í Maastrict- og Amsterdam-sáttmálunum 1992 og 1999 en skriður komst fyrst samstarfið á leiðtogafundi Breta og Frakka árið 1999, þegar leiðtogar ríkjanna hvöttu ESB til þess að komið yrði á sameiginlegri öryggis- og varnarmálastefnu.
Ráðamenn í Washington hafa um langt skeið þrýst á Evrópuríki um varnarframlög upp á tvö prósent af landsframleiðslu og að taka þannig meiri ábyrgð á eigin vörnum. Var það m.a. samþykkt sem almennt markmið á leiðtogafundi NATO í Wales í september 2014. Yfirlýsingar Trumps og félaga um að beinlínis sé verið að féfletta bandaríska skattgreiðendur, og að þau ríki sem ekki muni leggja til sinn skerf til varnarmála muni síður njóta verndar Bandaríkjamanna, eru þó nýjar af nálinni. Þær hafa augsýnilega valdið ákveðnu uppnámi í samstarfi innan bandalagsins, en hins vegar hefur verið bent á að þetta tveggja prósenta viðmið sé afvegaleiðandi. Má auðveldlega túlka þennan málflutning bandarískra ráðamanna sem dæmigerða pólitíska sýndarmennsku á heimavelli.
Donald Trump hefur talað niður Evrópusamvinnu, fagnað Brexit og tekið undir með fólki eins og Marine Le Pen sem vill sundra Evrópu fremur en sameina. En sé einhver raunveruleg meining að baki orða Trumps, um að Bandaríkin þurfi að losna undan þeirri ábyrgð sem þau hafa borið á vörnum Evrópuríkja, þá ætti sameinuð sterk Evrópa að vera forgangsmál fyrir Bandaríkin.
Áður en hlaupið er til við aukna hervæðingu í Evrópu er mikilvægt að átta sig á því hvaðan ógnirnar koma. Helsta sýnilega hernaðarlega ógn Evrópu kemur úr austri, frá Rússum. Hafa ber í huga að Evrópubúar eru fjórum sinnum fleiri en Rússar og samanlögð landsframleiðsla Evrópuríkja er tólfföld sú rússneska. Jafnframt er mikilvæg sú staðreynd að framlög Evrópuríkja innan NATO til varnarmála eru fimm sinnum meiri en framlög Rússa.
Vandamálið er því ekki að Evrópuríki leggi ekki nóg til varnarmála heldur hvernig fjármununum er varið – og jú, viljinn til þess að beita þeirri varnar- og hernaðargetu sem ríkin búa yfir. Þar hefur augljós vilji Rússa til slíks auk þess sem beiting þeirra á svokölluðum „hybrid“, eða duldum aðgerðum, sín áhrif. Það gefur augaleið að bætt sameiginleg og samhæfð varnarstefna, með samnýtingu fjármagns, mannafla og búnaðar er hagkvæmur og rökréttur kostur. Slíkt gæti gert Evrópu kleyft að verða býsna öflugt herveldi, það annað stærsta í heimi. En er það endilega eftirsóknarvert?
Kostir veikrar öryggis- og varnarstefnu
Óhætt er að fullyrða að það fylgi því margir kostir að búa ekki yfir og þurfa að beita öflugum herafla í líkingu við þann sem Bandaríkjamenn búa yfir. Hlutverk ESB hefur fyrst og fremst varðað hið svokallaða borgarlega öryggi – eða hina mjúku hlið öryggismála – og sambandið að mestu látið NATO um hina hefðbundnu og hernaðarlegu – eða hörðu – hlið mála. Þó getur ESB beitt sér á vígstöðvum þar sem NATO á óhægt um vik af pólitískum ástæðum. ESB getur til dæmis blandað sér í átök í Líbanon og Palestínu eða sýnt gott fordæmi um hnattræna ábyrgð með íhlutun.
Á sama hátt er ESB ekki eins ógnandi og NATO og Bandaríkin gagnvart Rússum láti sambandið til sín taka í fyrrum Sovétlýðveldum, þó vissulega hafi ESB verið þeim þar þyrnir í augum. Sameiginleg varnarstefna og aukinn hernaðarmáttur gæti því hugsanlega gert sambandið meira ógnandi út á við og erfiðara um vik að beita sér þar sem „mýkri“ aðferðir eru áhrifaríkari. Þannig má rökstyðja að veik sameiginleg varnarstefna ESB sé um leið ákveðinn styrkur.
Evrópuríkin hafa þannig getað einbeitt sér að því að stuðla að lýðræðisumbótum, blómlegum viðskiptum og bættu mannlífi almennt meðal Evrópubúa. Samkeppni um jafn viðkvæm mál og vígbúnað og hervarnir innan ESB gæti möguleg valdið áður óþekktri innbyrðis spennu, m.a. vegna misvægis í framlagi ríkjanna, að ógleymdri þeirri staðreynd að innan ESB eru ríki sem eru stolt af hlutleysisarfleifð sinni (þó ekkert þeirra sé herlaust). Evrópusambandið sem öflugt herveldi kann jafnframt að raska ákveðnu valdajafnvægi sem byggir á yfirburðum Bandaríkjamanna. Í því samhengi er varhugavert að fara í samkeppni og þaðan af síður vígbúnaðarkapphlaup við Bandaríkin, enda ekkert sem gefur tilefni til slíks.
Ókostir veikrar og ómarkvissrar öryggis- og varnarstefnu
Ókostir ómarkvissrar og ósamhæfðar öryggis- og varnarstefnu eru þó nokkrir. Þótt vel hafi farið um Evrópu undir handleiðslu Bandaríkjanna (og NATO) í kjölfar tveggja blóðugra styrjalda er ýmislegt sem rennir stoðum undir að það fyrirkomulag geti ekki gengið til lengdar. Evrópumenn hljóta að ókyrrast og hugsa sinn gang þegar leiðtogi helsta bandamanns þeirra er algerlega vanhæfur til að fást við utanríkismál, auk þess sem hann virðist lifa í einhverjum hliðarveruleika sem m.a. virðist búinn til af Fox-fréttum og Breitbart-miðlinum.
En burtséð frá því hver gegnir embætti Bandaríkjaforseta er það beinlínis óeðlilegt að heil heimsálfa, með fimm hundruð milljón íbúa og fimmtung allrar framleiðslu í heiminum, skuli stóla á Bandaríkin þegar kemur að hervörnum. Geti Evrópumenn byggt á eigin verðleikum hvað varðar hervarnir, án Bandaríkjamanna í bílstjórasætinu, má t.d. rökstyðja að auðveldara yrði að þróa heilbrigðara samband við Rússa.
Öryggis- og varnarmál eru af margvíslegum toga
Ekki má gleyma þeirri staðreynd að öryggis- og varnarmál snúast langt í frá eingöngu um byssur og skriðdreka. Sameiginleg stefna Evrópusambandsins snýst um öryggismál í stóru samhengi, m.a. hryðjuverkaógn og netöryggismál. Þó skref séu tekin sem varði hin hörðu svið öryggismála, vopn og hernaðaruppbyggingu, þá er einnig nauðsynlegt að skoða málið í því stóra samhengi.
Heildrænni nálgun á öryggis- og varnarmál í sem víðustum skilningi er kannski það sem Evrópa – með Evrópusambandið í broddi fylkingar – hefur fram að færa umfram NATO, og þá afstöðu og aðferðafræði sem Bandaríkin standa fyrir, sérstaklega undir núverandi forseta.
Hér er t.d. vert að hafa í huga að Evrópa – og Evrópusambandsríkin sérstaklega – veitir mun meira fé til þróunarmála og efnahagsaðstoðar í þriðja heiminum en Bandaríkin. Trump stefnir beinlínis að verulegum samdrætti í þeim efnum. Bandarísk framlög til þróunarmála nema um 0,25% af þjóðarframleiðslu á meðan að ESB-ríki leggja til tæplega 0,5% af sameiginlegri þjóðarframleiðslu. Öll ESB-ríkin eru hins vegar búin að skuldbinda sig til þess að greiða 0,7% þjóðarframleiðslu til þróunarmála, og þriðjungur aðildarríkjanna hefur þegar náð því markmiði eða er kominn fram úr því.
Lausn þeirra stóru vandamála – annarra en ógnandi og óútreiknanlegrar hegðunar Rússa – sem Evrópa stendur frammi fyrir, eins og hryðjuverkaógn, flóttamannavandi og félagslegur og efnahagslegur óstöðugleiki suður og austur af álfunni, felst ekki í vopnaskaki og fælingarmætti einum saman. Þau vandamál kalla á umtalsvert betri samþættingu hefðbundinna varnarmála, þróunaraðstoðar og efnahagsuppbyggingar. Í þeim efnum ætti Evrópusambandið að geta lagt enn frekar til málanna með samhæfðum hætti. Eflingu varnar- og öryggisgetu sambandsins ætti því einnig að skoða í því ljósi.