Það kemst fátt annað að í breskum fjölmiðlum í dag annað en orðrómur um að forsætisráðuneytið breska ætli að fresta drottningarræðunni, „the queen's speech“, um óákveðinn tima. Ráðgert hafði verið að halda drottningarræðuna eftir rétta viku, mánudaginn 19. júní en það verður æ ólíklegra eftir því sem nær dregur.
En hvað er drottningarræðan og hvers vegna er hún mikilvæg? Á vef breska ríkisútvarpsins má lesa eftirfarandi um ræðuna.
Drottningin flytur ræðu
Drottningarræðan er ekkert annað en stefnuræða ríkisstjórnarinnar sem vanalega er flutt í upphafi hvers nýs þings í Westminster í London. Á Alþingi Íslendinga flytja ráðamenn einnig slíka stefnuræðu, en þá er það æðsti maður ríkisstjórnarinnar sem flytur ræðuna. Nú síðast var það Bjarni Benediktsson sem flutti slíka ræðu sem forsætisráðherra.
Í Bretlandi er hins vegar hefð fyrir því að drottningin – eða eftir atvikum kóngurinn – flytji þessa ræðu. Um er að ræða ofboðslega formfastan viðburð þar sem hver táknræna athöfnin rekur aðra. Hefðina fyrir því að þjóðhöfðinginn kynni stefnu stjórnvalda í upphafi þings er hægt að rekja aftur til sextándu aldar.
Allt heila gillið hefst á því að drottningin fær stefnuræðuna senda til staðfestingar. Ræðan er oftar en ekki stutt, aðeins um 10 mínútna löng. Drottningunni er svo ekið í fylgd riddaraliðssveita úr hirð drottningarinnar úr Buckingham-höll í þinghúsið í Westminster. Gríðarlegur fjöldi almennings fylgist vanalega með skrúðgöngunni úr höllinni.
Þegar drottningin hefur gengið inn um sérstakan landsherrainngang þinghússins, klædd skikkju og með kórónu á höfði, gengur hún sérstaka leið í þingsal efri deildarinnar.
Áður en fulltrúum úr lávarðadeild breska þingsins er hleypt í þingsal neðri deildarinnar er hurðunum skellt á trýnið á þeim. Það er táknræn athöfn sem á að undirstrika sjálfstæði neðri deildarinnar. Lávörðunum er svo hleypt inn þar sem þeir boða þingmenn til fundar í sölum efri deildarinnar.
Um hvað er ræðan?
Ræðan er vanalega í grunninn upptalning á þeim lögum og málefnum sem stjórnvöld hyggjast koma til leiðar á nýju þingi. Ræðan hefur yfirleitt meira vægi eftir að ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum, enda eru þar sett fram helstu stefnumál nýrra stjórnvalda.
Það er ekki þar með sagt að allt sem lofað er í stefnuræðunni verði að veruleika. Það þekkist í Bretlandi eins og á Íslandi að stjórnmálamenn lofa yfirleitt meira en þeir geta á endanum efnt.
Ræðan sem Elísabet II Englandsdrottning mun flytja fyrir nýja ríkisstjórn Theresu May verður mjög áhugaverð fyrir magar sakir. Þar verða áherslumál minnihlutastjórnarinnar lögð fram. Þar verða einnig vísbendingar um hversu mikinn þrýsting norðurírski flokkur lýðræðislegra sambandssinna hefur sett á íhaldsflokk Theresu May í samstarfsviðræðum í kjölfar kosninganna.
Hvers vegna er ræðunni frestað?
Það geta sjálfsagt verið margar skýringar á því hvers vegna drottningarræðunni verður frestað. Ástæða þess að næsti mánudagur var valinn fyrir ræðuna er til marks um hversu vongóð Theresa May hefur verið um að viðræðurnar við norðurírska flokkinn myndu ganga vel.
Nú er hins vegar sterkur orðrómur um að viðræðurnar gangi ekki nógu vel og að lýðræðislegi sambandsflokkurinn setji strangari skilyrði fyrir stuðningi sínum við minnihlutastjórn íhaldsmanna en gefið hafði verið í skyn.
Fregnir hafa borist af því að íhaldsmenn í Bretlandi kvíði jafnvel fyrir því að vinna með íhaldssamara stjórnmálaafli í breskum stjórnmálum en þeir sjálfir. Í samstarfi lýðræðislega sambandsflokksins og íhaldsflokksins eru þeir síðarnefndu klárlega frjálslyndara afl.
May gæti þess vegna þurft að gefa mun meira eftir af stefnumálum íhaldsflokksins en hún hafði vonað. Það mun að öllum líkindum gera stöðu hennar sem leiðtogi flokksins erfiðari. Nú þegar hafa áhrifamenn innan íhaldsins talað opinberlega um veika stöðu forsætisráðherrans og telja hana ekki geta setið lengur, í það minnsta ekki mikið lengur.
Hvað gerist eftir ræðuna?
Ef Theresu May tekst að komast að endanlegu samkomulagi við norðurírska flokkinn þá er aðeins hálfur sigur unninn. Eftir að drottningin flytur stefnuræðu stjórnvalda er yfirleitt gert þinghlé þar til þingmenn snúa aftur í þingsalinn og takast á um nýja stefnu stjórnvalda. Sú rökræða tekur yfirleitt fimm daga og lýkur með táknrænni atkvæðagreiðslu.
Ef May tekst að koma minnihlutastjórn sinni klakklaust í gegnum þessi próf á hún eflaust möguleika á að sitja áfram, jafnvel þó pólitískir andstæðingar haldi áfram að benda á takmarkaðan þingstyrk hennar.