Emmanuel Macron hefur tekist að umbreyta frönskum stjórnmálum á ótrúlega skömmum tíma. Eftir að hafa náð kjöri sem forseti Frakklands – unnið þar popúlistaöfl og steypt hefðbundnu flokkunum í kaos – bauð flokkur hans fram í þingkosningunum sem lauk í gær.
Kosningabandalag flokks hans, En Marche!, og Lýðræðishreyfingarinnar (f. Mouvement Democrate) tryggði sér 350 þingsæti af 577 á franska þinginu í kosningunum. Það þýðir að nýkjörinn forseti hefur 60 prósent þingmeirihluta yfir að ráða. Hann og samflokksfólk hans hefur þess vegna frjálst umboð til þess að koma loforðum sínum í framkvæmd.
Macron hefur til dæmis lofað að bylta verkamannalögum í Frakklandi, taka atvinnuleysisbótakerfið í gegn auk þess að breyta lífeyriskerfinu.
Það sem skyggði hins vegar á glæsilegan sigur Macrons var ofboðslega dræm kosningaþátttaka. Aðeins 43 prósent kjörgengra tóku þátt í kosningunum. Í fátækustu kjördæmum Frakklands skiluðu mun fleiri auðum seðlum en annars staðar, sem hefur vakið spurningar um félagslegan ójöfnuð á nýjan leik.
Kosningarnar marka hins vegar nokkur tímamót í frönskum stjórnmálum fyrir margar sakir.
Nýr flokkur á þingi með meirihluta
Flokkur Macrons, La République en Marche (í lauslegri íslenskri þýðingu: „Lýðveldi á hreyfingu“, oftast kallaður En Marche), kom nýr inn á franska þingið í kosningunum og hlaut 308 þingsæti og hefur einn og sér 53,38 prósent allra þingsæta.
Fyrir kosningarnar myndaði flokkurinn kosningabandalag með Lýðræðishreyfingunni sem fékk 42 fulltrúa kjörna. Samanlagður þingstyrkur kosningabandalags Emmanuel Macron er þess vegna 350 sæti, rétt rúmlega 60 prósent.
Næst stærsti flokkurinn er rótgróni hægriflokkurinn Les Républicains sem hlaut 113 þingmenn. Sá flokkur, sem hét þá Union pour un mouvement popularaire, hafði meirihluta á þingi fyrir kosningarnar. Hægriflokkurinn er rótgróinn í frönskum stjórnmálum og úr hans röðum hafa margir forsetar og forsætisráðherrar komið.
Það sama gildir um Sósíalistaflokkinn, rótgróna flokkinn á vinstri væng franskra stjórnmála. Sósíalistar biðu afhroð í þingkosningunum um helgina og fengu aðeins 30 þingsæti. Sá flokkur hafði hins vegar 186 sæti fyrir kosningarnar og stjórnaði forsetaembættinu með Francois Hollande.
Þjóðfylkingin (f. Front National), þjóðernisflokkur Marine Le Pen, hlaut átta þingsæti í kosningunum og bætti við sig sex sætum síðan fyrir fimm árum. Þjóðfylkingin er jafnframt minnsti flokkurinn á þinginu. Le Pen tekur sæti á þingi í fyrsta sinn eftir að hafa reynt fjórum sinnum að vinna sætið í Pas-de-Calais, kolanámuhéraði nyrst í Frakklandi.
Hvaðan fékk Macron stuðning?
Flokkur Macrons hlaut þingsæti í kjördæmum vítt og breitt um Frakkland. Kosningaspár gerðu hins vegar ráð fyrir að flokkurinn fengi enn fleiri þingsæti en komu upp úr kjörkössunum.
Vestur-Frakkland gaf Macron sérstaklega mörg þingsæti eins og stærstu borgir Frakklands. Flokkur Macrons fékk góða kosningu í París, Nantes og Toulouse. Kjósendur erlendis höfðu einnig mestar mætur á En Marche.
Hægriflokkurinn Les Républicains hlaut góða kosningu í norðaustanverðu og austanverðu Frakklandi.
Hvað ætlar Macron að gera?
Forsætisráðherrann í ríkisstjórn Emmanuel Macron, Edouard Philippe, lét hafa eftir sér þegar úrslitin væru ljós að franska þjóðin hefði sýnt að hún kýs „von fram yfir reiði“ og „bjartsýni yfir bölsýni“. Philippe mun biðjast lausnar fyrir ráðuneyti sitt í dag og Macron mun svo skipa nýtt ráðuneyti á næstu dögum. Líklegt þykir að Philippe verði áfram forsætisráðherra.
Christophe Castaner, talsmaður ríkisstjórnarinnar og nýkjörinn þingmaður, sagði fjölmiðlum að „franska þjóðin hefur gefið okkur skýran meirihluta, en hún hefur ekki viljað gefa okkur lausan tauminn. Því fylgir ábyrgð. Hinn raunverulegi sigur verður eftir fimm ár þegar hlutirnir hafa raunverulega breyst“.
Í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar í vor hét Macron því að ráðist yrði í breytingar á grunnkerfi franskra stjórnmála. Hann hyggist breyta atvinnulöggjöfinni áður en hann ræðst á fyrirferðamikið lífeyriskerfið á næsta ári.
Hann ætlar að lækka fyrirtækjaskatta úr 33% í 25% og fjárfesta 50 milljörðum evra úr almannasjóðum í orkuinnviði, starfs- og iðnþjálfun Frakka og samgönguinnviði.
Macron þarf hins vegar einnig að huga að rekstrarhalla franska ríkissjóðsins. Seðlabanki Frakklands spáir því að tekjuhallinn fari enn og aftur fram úr þriggja prósenta hámarkinu sem Evrópusambandið setur á aðildarríki sín.
Dræm kjörsókn gerir það flóknara fyrir Macron að fylgja stefnumálum sínum. Hann mun þurfa að stíga varlega til jarðar í endurbótum á rótgrónum kerfum. Í Frakklandi eru mörg dæmi um að fjöldamótmæli hafi leitt til þess að stjórnvöld þynni út nýja og róttæka löggjöf.
75 prósent nýir þingmenn
Í þessum kosningum til löggjafarvaldsins í Frakklandi varð gríðarlega mikil endurnýjun á þinginu. 75 prósent kjörinna fulltrúa taka þar sæti í fyrsta sinn eftir kosningarnar.
Þetta er nýtt met í frönskum stjórnmálum, samkvæmt franska dagblaðinu Le Monde. Af þeim 577 fulltrúum sem kjörnir voru í kosningunum um helgina, voru 432 ekki í kjöri árið 2012. Það þýðir að aðeins 145 þingmenn voru endurkjörnir. Í kosningunum 2012 var endurnýjunin aðeins 40 prósent og árið 2007 var hún enn minni, eða 25 prósent.
Til samanburðar má rifja upp Alþingiskosningarnar hér á landi síðastliðið haust þegar metfjöldi nýrra þingmanna tók sæti á þingi. Af 63 þingmönnum náðu 32 fulltrúar kjöri sem aldrei höfðu tekið sæti áður. Það er rétt rúmlega helmingur þingmanna, um 51 prósent.
Aldrei fleiri konur
Aldrei hafa fleiri konur tekið sæti á franska þinginu. Nú eru þær 223 eða 38,65 prósent þingmanna. Flestir kvenkyns fulltrúar koma úr röðum miðjuflokka og vinstriflokka.