Samhliða tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að taka 10.000 og 5.000 króna seðla úr umferð (sem síðan var dregin til baka) voru einnig viðraðar þær hugmyndir að rafvæða meirihluta reiðufjár með því að gefa íbúum innistæðureikning hjá Seðlabankanum. Aðrar þjóðir hafa einnig talað um breytingar á reiðufjárkerfi sínu, til að mynda Indland og Svíþjóð. Samkvæmt nýlegum ummælum Seðlabankans er hins vegar ólíklegt að umræddar aðgerðir fjármálaráðuneytisins muni leiða til endaloka reiðufjár, ef af þeim verður.
Reiðufjárbann á Indlandi
Lengst allra hefur Indland gengið í takmörkun á notkun reiðufjár, en þann 8. Nóvember síðastliðinn lýsti Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, óvænt yfir banni á 500 og 1.000 rúpíu seðlum. Með banni á umræddum seðlum, sem jafngildir 800 og 1600 krónum, var 86% alls reiðufjár tekið úr umferð.
Markmið bannsins var að lágmarka umsvif „svarta hagkerfisins“ annars vegar og koma í veg fyrir spillingu embættismanna og fjármögnun hryðjuverkasamtaka hins vegar.
Samkvæmt umfjöllun New York Times um málið lenti bannið sem harðast á tekjulágum sem gera upp flest sín viðskipti með seðlum. Hins vegar virðist sem hagkerfi landsins hafi ekki beðið mikinn hnekki á innsetningu bannsins til langs tíma, áhrif þess hafi byrjað að fjara út á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.
E-krona í Svíþjóð
Í kjölfar seðlabannsins á Indlandi og stöðvunar á framleiðslu á 500 Evru seðlum af Seðlabanka Evrópu hóf Seðlabanki Svíþjóðar, Riksbank, athugun á möguleika þess að rafvæða sænsku krónuna í seinni hluta nóvember 2016. Vægi reiðufjárnotkunar í Svíþjóð hefur, eins og á Íslandi, minnkað mjög á síðustu árum. Til að mynda hafði magn seðla í umferð fallið niður í 1,5% árið 2016 úr 10% árið 1950.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag sænsku krónunnar á rafrænu formi, hinnar svokölluðu e-krona, en búist er við því að hún liggi fyrir innan tveggja ára.
Aðgerðirnar virðast þó ekki munu verða jafnróttækar og þær sem voru keyrðar í gegn á Indlandi. Í verklýsingu sem birtist í mars á þessu ári gaf Riksbank út þá yfirlýsingu að markmið innleiðingar e-krona væri ekki að banna seðlum og mynt í umferð, hún yrði einungis reiðufénu til stuðnings.
Starfshópur settur á fót hjá Seðlabankanum
Orðalagið í skýrslu Riksbank svipar mikið til kafla Seðlabanka Íslands um möguleika þess að veita almenningi aðgang að seðlabankarafeyri í síðasta tölublaði Fjármálainnviða. Einnig kemur þar fram að stofnaður hafi verið starfshópur til þess að kanna möguleikana á útgáfu seðlabankarafeyris, rétt eins og í Svíþjóð. Kjarninn fjallaði um kaflann fyrir stuttu, en í honum segir: „Hver sem niðurstaðan verður mun hefðbundið reiðufé (seðlar og mynt) lifa góðu lífi enn um sinn, eitt og sér eða í návist rafeyris útgefins af seðlabanka.“