Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnti í gær niðurstöður tveggja starfshópa um aðgerðir gegn skattaundanskotum og svarta hagkerfinu. Tillögur starfshópanna fela í sér stórtækar aðgerðir, en meðal þeirra er eftirlit með milliverðlagningu, lögfesting á reglur um keðjuábyrgð og takmörkun reiðufjárnotkunar. Samkvæmt fréttatilkynningu ráðuneytisins átti öllum tillögum hópanna að vera hrundið í framkvæmd.
Milliverðlagning
Fyrri starfshópurinn fjallaði um skaðleg áhrif milliverðlagningar og faktúrufölsunar. Anna Borgþórsdóttir Olsen, formaður starfshópsins, sagði árlegt tekjutap ríkissjóðs vegna óeðlilegrar milliverðlagningar vera líklega á bilinu 1-6 milljarða króna. Milliverðlagning vísar til þess hvernig tengdir lögaðilar verðleggja viðskipti sín á milli, en þau teljast óeðlileg ef þau eru ekki verðlögð á sama hátt og viðskipti ótengdra aðila.
Veigamestu tillögur starfshópsins fólust því í að leggja af stað í átak í eftirliti á slíkri starfsemi að fordæmi annarra Danmerkur og Noregs. Einnig ætti meðal annars að tryggja virkt eftirlit með skjölunarskyldu stærri fyrirtækja og innri viðskipti.
Peningaþvætti, kennitöluflakk og skattaundanskot
Seinni starfshópnum var gert að greina þjóðhagsleg áhrif skattaundanskota og skattsvika ásamt því að gera tillögur um það hvernig minnka megi svarta hagkerfið. Var það mat hópsins að skattaundanskot á Íslandi gætu verið á bilinu 3-5% af vergri landsframleiðslu. Ljóst er því að um miklar fjárhæðir er að ræða, en 4% af VLF jafngildir 100 milljörðum króna.
Tillögur hópsins til takmörkunar á skattsvikum fólu meðal annars í sér fækkun á virðisaukaskattsþrepum, lögfestingu keðjuábyrgðar og heimild til að setja kennitöluflakkara í atvinnurekstrarbann.
Var það mat starfshópsins að mismunandi virðisaukaskattsþrep sé meðal þess sem auki hvata til undanskota. Með fækkun á undanþágum og skattþrepum væri því hægt að eyða þeim hvata.
Einnig lagði hópurinn til að lögfesta reglur um keðjuábyrgð, en þannig myndu verktakar bera meiri ábyrgð á skilum opinberra gjalda undirverktaka. Ásamt því mældi starfshópurinn með því að heimilt verði að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann sem sýnt hafa af sér grófa og óverjandi viðskiptahætti sem stjórnendur félaga. Þessar hugmyndir eru svipaðar tillögum SA og ASÍ sem kynntar voru fyrr í vikunni, en samtökin vildu einnig heimila þriggja ára rekstrarbann fyrir kennitöluflakkara.
10.000 króna seðillinn tekinn úr umferð
Að lokum benti seinni starfshópurinn á mikilvægi takmörkunar á reiðufjárnotkun til að torvelda möguleika til skattaundanskota og peningaþvættis. Í því skyni lagði hópurinn til að 10.000 króna seðillinn verði tekinn úr umferð sem fyrst, en í náinni framtíð verði 5.000 króna seðillinn einnig fjarlægður.
Aðrar tillögur til þess að draga úr peningamagni í umferð fela meðal annars í sér hámark á greiðslur með reiðufé, auk skyldu vinnuveitenda að greiða laun með rafrænu og rekjanlegu greiðslufyrirkomulagi.
Til þess að vega á móti minnkun reiðufjár í umferð vildi hópurinn að hugað væri að því hvort almenningur þurfi að hafa aðgang að rafeyri eða ígildi debetkorts með lágmarkskostnaði, til dæmis með innistæðureikningi hjá Seðlabankanum. Seðlabankinn velti einmitt þessum möguleika fyrir sér fyrir tveimur vikum síðan, eins og kom fram á Kjarnanum.
Öllu hrundið í framkvæmd
Skattamál virðast vera fjármálaráðherra hugleikin, en á dögunum undirritaði hann alþjóðlegan samning gegn skattaundanskotum og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga. Benedikt ætlar líka að láta kné fylgja kviði hjá tillögum hópanna tveggja, en hann segir að þeim verði öllum hrundið í framkvæmd af ráðuneytinu og stofnunum þess.