Sænska þingið hefur samþykkt lagalega bindandi markmið um kolefnishlutleysi landsins árið 2045. Þetta er fyrsta loftslagslöggjöfin í Svíþjóð og fyrsta allsherjarlöggjöfin sem sett er um loftslagsmál í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París 2015.
Frá þessu er greint á vef sænskra stjórnvalda en ríkisþingið greiddi atkvæði um þau 15. júní síðastliðinn. 254 þingmenn greiddu atkvæði með nýju lögunum en 41 þingmaður Svíþjóðardemókrata kaus gegn þeim, samkvæmt Climate Home.
Svíþjóð er aðildarríki að Evrópusambandinu og partur af sameiginlegu markmiði Evrópuríkja gagnvart Parísarsamkomulaginu um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við árið 1990. Ísland er einnig aðili að þessu sameiginlega markmiði.
Lögin munu taka gildi á fyrsta degi næsta árs. Í þeim eru þrjár meginstoðir sem eiga að stuðla að því að loftslagsmarkmiðin náist, sama hvaða flokkar eða stjórnmálamenn eru við völd.
Verða að meta stöðuna á hverju ári
Fyrir það fyrsta þá skylda lögin sænsk stjórnvöld til þess að byggja áætlanir sínar á markmiðunum í loftslagsmálum. Stjórnvöld verða jafnframt að útlista hvernig þessum markmiðum verði náð.
Gagnaöflunar- og upplýsingaskylda sænsku stjórnarinnar er einnig skýr: á hverju ári verða stjórnvöld að kynna sérstaka loftslagsskýrslu í fjárlagafrumvarpi sínu og fjórða hvert ár verður að uppfæra stefnumótunaráætlanir um hvernig markmiðunum verði náð.
Þannig eru fjárútlát ríkisins borin saman við áfanga og áætlanir í loftslagsmálum á hverju ári og áætlanir uppfærðar í samræmi við það.
Kolefnishlutleysi 2024
Loftslagsmarkmiðin eru önnur stoð laganna en þar segir að árið 2045 ætli Svíþjóð að vera kolefnishlutlaust, þe. losa jafn mikið eða minna af gróðurhúsalofttegundum en bundið er í jörðu. Eftir árið 2045 er markmiðið að losunin verði neikvæð, þe. meira bundið í jörðu en sett er út í andrúmsloftið.
Þetta verður gert með því að draga úr losun en einnig með því að binda meira af kolefni í jörðu. Þá hyggjast stjórnvöld fjárfesta í ræktun skóga utan Svíþjóðar, með svokallaðri kolefnisuppbót. Á endanum er gert ráð fyrir að útblástur frá Svíþjóð verði um 85 prósent minni en árið 1990.
Í lögunum er einnig kveðið á um markmið til skemmri tíma og eru þau ekki síður metnaðarfull. Árið 2030 á útblástur frá þeim geirum sem falla undir sameiginlegt markmið Evrópuríkja að vera 63 prósent minni en árið 1990 og 75 prósent minni árið 2040.
Loftslagsstefnuráð til ráðgjafar
Þriðja stoð nýju loftslagslaganna í Svíþjóð er sérstakt sjálfstætt loftslagsstefnuráð sem á að veita stjórnvöldum aðhald. Ráðið á að meta stefnumörkun stjórnvalda og upplýsa um hversu líklegt sé að stefnan skili árangri miðað við sett markmið.
Loftslagslögin hafa verið í undirbúningi undanfarin ár. Sérstök þverpólitísk nefnd um umhverfisverkefni hefur unnið að lagarammanum og að mótun loftlagsáætlunar fyrir Svíþjóð.
Í Svíþjóð ríkir nú samsteypustjórn sósíaldemókrata og græningja. Varaforsætisráðherra Svíþjóðar, græninginn Isabella Lövin, afgreiddi málið frá ríkisstjórninni í febrúar og þingið tók afstöðu til þess um miðjan mánuðinn.
Íslensk loftslagslög síðan 2012
Á Íslandi er í gildi lagarammi um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum. Loftslagslögin voru samþykkt árið 2012 en þar er fjallað um hlutverk ríkisstofnana gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum, fjallað um gerð aðgerðaáætlana og þau tól sem fyrir eru til mótvægis útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Lögin voru ekki síst gerð og samþykkt til þess að setja einn hatt á loftslagsaðgerðir og -verkefni íslenskra stjórnvalda. Árið 2012 hafði Ísland gengið í samstarfið um
Markmið Íslands eru hins vegar ekki bundin í íslensk lög og ekki er kveðið á um að stjórnvöld eða almenningur séu upplýst um árangur stefnumótunarinnar. Umhverfisstofnun hefur, samkvæmt lögunum, það hlutverk að uppfæra losunarbókhald Íslands og skila til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar á hverju ári. Það verkefni kemur til vegna þátttöku Íslands í Kýóto-samkomulaginu.
Breiðari samstaða innan stjórnarráðsins
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur undirritað sérstaka samstarfsyfirlýsingu milli ráðuneyta um breiðari samstöðu innan stjórnarráðsins um aðgerðir í loftslagsmálum í maí síðastliðnum. Það eru þess vegna sex ráðuneyti sem munu standa að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Sú áætlun sem er nú í gildi er síðan 2010.
Það eru nýmæli að svo mörg ráðuneyti standi formlega á bak við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum en hingað til hafa loftslagsmál verið á könnu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Umhverfisráðuneytið hefur svo óskað eftir samstarfi við önnur ráðuneyti.
Í fyrra samþykkti Ísland Parísarsamninginn og undir honum er Ísland í samfloti með Evrópusambandsríkjum með markmið um að minnka losun um 40 prósent árið 2030 miðað við losun ársins 1990.
Áætlað er að endanlegar skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu verði á bilinu 35-40 prósent minnkun útstreymis. Enn hafa formlegar viðræður ekki hafist milli Íslands og ESB. Yfirvöld í Brussel vilja ekki hefja þær viðræður fyrr en regluverkið í kringum þessi sameiginlegu markmið hefur verið frágengið og samþykkt. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur íslenskum stjórnvöldum verið sagt að sú vinna eigi að klárast fyrir árslok.