Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hittust í fyrsta sinn, báðir sem forsetar, á sérstökum hliðarfundi á ráðstefnu G20-ríkjanna í Hamborg í dag.
Leiðtogarnir ávörpuðu fjölmiðla stuttlega eftir að hafa rætt saman í stutta stund og áður en fundur þeirra hófst. „Við höfum átt gott spjall, og það mun halda áfram. Það eru fullt af spennandi hlutum fram undan fyrir bæði Bandaríkin og Rússland. Það er heiður að vera með þér hérna, herra Pútín,“ sagði Trump.
Pútín átti líka falleg orð handa Trump: „Við höfum átt nokkur símtöl um mörg mikilvæg alþjóðamál og um samband Rússlands og Bandaríkjanna. Símtöl eru hins vegar aldrei nægileg. Ég er ánægður með að fá að hitta þig loksins, herra Trump.“
Sem forseti hefur Donald Trump sagst vilja bæta samskiptin milli Bandaríkjanna og Rússlands. Hann langar að finna leiðir til þess að vinna með Pútín en það hefur reynst erfitt vegna ágreinings um afskipti Rússa af stríðinu í Sýrlandi og átökunum í Úkraínu. Þá hafa bandarísk löggæsluyfirvöld komist að niðurstöðu um að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum í fyrra, þegar Trump var kjörinn forseti. Þá hefur Rússland stillt sér upp með Kína í aðgerðum gegn Norður-Kóreu, þvert á vilja Bandaríkjanna.
Trump svaraði ekki spurningu blaðamanns um afskipti Rússa af kosningunum í Bandaríkjunum.
Stærstu fjölmiðlar heims hafa fjallað mikið um fyrsta handaband leiðtogana fyrir fyrsta sameiginlega fund G20-ríkjanna í morgun. Það var óformlegur hittingur. Á myndbandsupptöku af handabandi leiðtogana sést hvernig Trump treystir handabandið með því að klappa létt á handlegg Pútíns.
Síðar í sama myndskeiði sést Trump klappa Pútín á bakið á meðan báðir brosa.
Forsetar og utanríkisráðherrar
Í fylgd með Trump og Pútín eru utanríkisráðherrar landanna. Það eru þeir Rex Tillerson og Sergei Lavrov. Saman eru Pútín og Lavrov mun reyndari í diplómatískum samskiptum en þeir Trump og Tillerson.
Pútín hefur gengt embætti forseta Rússlands síðan árið 2000 og Trump er þriðji forseti Bandaríkjanna sem hann fundar með. Þá er Lavrov talinn vera einn brögðóttasti utanríkisráðherra heimsins.
Tillerson fundaði síðast með Pútín í apríl. Eftir þann fund sagði Tillerson að það væri lítið traust milli ríkisstjórna landanna tveggja. Þetta verður í annað sinn sem Tillerson sest niður með Pútín, frá því að hafa tekið við embætti í janúar.
Umræðuefni leiðtogana á fundinum í dag munu að öllum líkindum fjalla um helstu ágreiningsefni þessara þjóða:
- Stríðið í Sýrlandi og aðgerðir beggja ríkja þar.
- Ógnina frá Norður-Kóreu og viðbrögð við henni.
- Átökin í Úkraínu og óþægilega nærveru Rússlands við landamæri nágranna sinna.
Þá er ekki ólíklegt að Pútín og Trump ræði aðgerðir í loftslagsmálum og norðurslóðamál. Jafnvel þó að Rússland sé einn stærsti söluaðili jarðgass í heiminum þá hafa stjórnvöld í Kreml ákveðið að standa við Parísarsamkomulagið.
Það er hægt að lesa margt um fund Donalds Trump og Vladimírs Pútín á samfélagsmiðlum. Þetta er þó ekki fyrsti eiginlegi fundur þeirra, heldur aðeins fyrsti formlegi fundurinn sem þeir eiga augliti til auglitis sem forsetar Bandaríkjanna og Rússlands.
Loftslagsmál til umræðu í dag
Áður en fundur Pútín og Trump var áætlaður hófst vinnusmiðja leiðtoganna í ráðstefnusalnum. Þar er rætt um sjálfbæra þróun, loftslags- og orkumál.
Trump hefur sagst ætla að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og hlotið gagnrýni fyrir frá nær öllum þeim ríkjum sem eiga sæti á G20-ráðstefnunni. Gestgjafinn Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur verið sérlega gagnrýnin á þessa ákvörðun Trumps. Það hefur Emmanuel Macron, nýr forseti Frakklands, einnig verið.
Saman eru leiðtogar G20-ríkjanna fulltrúar landa heims þar sem 2/3 jarðarbúa lifa. Í þessum löndum verður 4/5 af allri landsframleiðslu heimsins til og verslun á milli þessara landa nemur 3/4 af allri milliríkjaverslun í heiminum.