Framtíðarskipulag Reykjavíkurborgar gerir ekki ráð fyrir flugvelli í göngufjarlægð frá miðborginni. Þar sem flugvöllurinn stendur nú í Vatnsmýrinni á að rísa blönduð byggð íbúða, þjónustu og skrifstofubygginga.
Fyrsta skrefið í brotthvarfi Reykjavíkurflugvallar hefur þegar verið tekið með lokun norðaustur-suðvestur flugbrautarinnar – sem í umræðunni um flugvöllinn hefur fengið nafnið neyðarbrautin. Tvær flugbrautir standa eftir, eins og íbúar og gestir miðborgarinnar, eru oft minntir á enda er aðflug að norður-suður flugbrautinni yfir miðbænum í norðri.
Þegar farþegar hafa gengið frá borði má jafnan gera ráð fyrir að farþegarnir panti sér leigubíl eða velji sér vélknúinn ferðamáta til þess að komast á leiðarenda. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt í Reykjavík enda er Lækjartorg aðeins í um tveggja kílómetra fjarlægð frá flugstöðinni í Vatnsmýri. Slíka göngu setja fáar hraustar manneskjur fyrir sig.
Undanfarna daga hafa verið fluttar fréttir af því að breska flugfélagið British Airways hyggist hefja beint flug milli Keflavíkur og London City-flugvallarins austan við London.
Jafnvel þó London City sé staðsettur innan borgarmarka London er hann fjarri því að vera nærri miðborginni. Það eru tæpir 14 kílómetrar þar á milli. Þar er jafnframt aðeins ein flugbraut, en ekki tvær eins og í Reykjavík, auk þess að ríkar kröfur eru gerðar um aðflug að vellinum svo takmarka megi hljóðmengun frá flugvélum í aðflugi.
Tíu flugvellir í göngufjarlægð
Hér að neðan eru 10 flugvellir innan borgarmarka og áætluð göngufjarlægð frá þeim í miðbæ borganna. Listinn er að miklu leyti byggður á samantekt breska dagblaðsins The Telegraph. Við byrjum á Reykjavík.
Reykjavíkurflugvöllur
- Fjarlægð frá miðborg: 2,1 km.
- Áætlaður göngutími: 26 mín.
London City
- Fjarlægð frá miðborg: 13,9 km.
- Áætlaður göngutími: 2 klst. og 54 mín.
Rio de Janeiro Santos Dumont
- Fjarlægð frá miðborg: 2,0 km.
- Áætlaður göngutími 27 mín.
Alþjóðaflugvöllurinn í Gíbraltar
- Fjarlægð frá miðborg: 2,1 km.
- Áætlaður göngutími: 27 mín.
Alþjóðaflugvöllurinn í Pisa
- Fjarlægð frá miðborg: 4,3 km.
- Áætlaður göngutími: 54 mín.
Boston Logan
- Fjarlægð frá miðborg: 5,0 km.
- Áætlaður göngutími: 55 mín. (með ferjusiglingu)
Belfast George Best
- Fjarlægð frá miðborg: 4,6 km.
- Áætlaður göngutími: 56 mín.
Tallinn
- Fjarlægð frá miðborg: 6,1 km.
- Áætlaður göngutími: 1 klst. og 18 mín.
Lisbon Portela
- Fjarlægð frá miðborg: 7,9 km.
- Áætlaður göngutími: 1 klst. og 37 mín.
Nice Cote d'Azur
- Fjarlægð frá miðborg: 6,9 km.
- Áætlaður göngutími: 1 klst. og 24 mín.
*Göngutími er áætlaður miðað við niðurstöður úr Google Maps.