Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, segir bresk yfirvöld hafa ákveðið að senda tvö glæný flugmóðurskip breska sjóhersins í Suður-Kínahaf þar sem mörg ríki deila um yfirráð hafsvæðisins. Breska dagblaðið The Guardian greinir frá þessu á vef sínum.
Kínverjar hafa búið til eyjar á skerjum í Suður-Kínahafi til þess að geta gert tilkall til hafréttinda á þessu alþjóðahafsvæði. Á sumar eyjurnar hefur kínverski herinn komið fyrir herstöðvum, hvort sem það er fyrir skipaflota eða loftherinn.
Þessu hefur verið harðlega mótmælt af stjórnvöldum í nágrannaríkjum Suður-Kínahafs sem eiga lögsögu að þessu hafsvæði, enda er um mikilvæga siglingaleið að ræða auk verðmætra fiskimiða sem ríkin vilja deila með sér. Talið er að flutningaskip flytji varning að verðmæti um það bil 5 biljón Bandaríkjadala á hverju ári um hafsvæðið.
Bandaríkin hafa ítrekað ögrað Kínverjum í Suður-Kínahafi með því að sigla herskipum og fljúga herþotum inn fyrir og nærri lögsögunni sem Kínverjar skilgreina sem sína.
Bretar bætast nú í lið með Bandaríkjunum og þreifa fyrir sér hversu mikil þolinmæði Kínverja er fyrir auknum umsvifum annara herja í Suður-Kínahafi. Johnson utanríkisráðherra segir fyrsta verkefni nýrra flugmóðurskipa verða að sigla rakleiðis til Asíu.
„Eitt af því fyrsta sem við ætlum að gera með þessi risaflugmóðurskip sem við höfum nýlokið smíði á, er að senda þau í Suður-Kínahaf til að undirstrika siglingafrelsi þar,“ sagði Johnson í opinberri heimsókn í Sydney í morgun. „Það verður til þess að sanna réttmæti reglna í alþjóðasamfélaginu.“
„Siglingafrelsi um þetta hafsvæði er algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir heimsverslun.“
Skipin sem Bretar senda eru þau stærstu sem smíðuð hafa verið fyrir breska herinn. HMS Queen Elizabeth er 280 metra langt og vegur 65.000 tonn. Verið er að prófa skipið um þessar mundir undan ströndum Skotlands og verður það tekið formlega í notkun í lok árs.
Kínverjar byggja á 600 ára gömlum heimildum
Kínverjar hafa byggt kröfu sína um yfirráð yfir hafsvæðinu á eld gömlum siglingabókum. Svæðið sem Kína telur sitt eigið markast af hinni svokölluðu níu strika línu (e. nine dash line).
Þessi lína er, eins og lesendur hafa kannski getið sér til, teiknuð með níu strikum utan um smáeyjur í Suður-Kínahafi, og byggir hún á réttindum sem mörkuð voru í 600 ára gömlum siglingabókum.
Suður-Kínahaf og níu strika línan
Í andstöðu við nágrannaríki sín hefur Kína krafist yfirráða yfir eyjunum í hinu alþjóðlega skilgreinda hafi. Þar hafa Kínverjar einnig byggt upp eyjur með landfyllingum á skerjum og rifum.
Gerðardómur í Haag komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Kínverjar hefðu engin lagaleg réttindi til þess vísa í 600 ára gamlar heimildir fyrir yfirráðum á þessu svæði. Kínverjar urðu æfir og höfnuðu ákvörðun dómsins.