Innflytjendur frá Afríku og Mið-Austurlöndum hafa haft gríðarleg áhrif á norska menningu, en margir vinsælustu tónlistarmanna Norðmanna eiga rætur sínar að rekja þaðan. Tónlistarmennirnir eru afsprengi hip-hop menningar í Austur-Osló, en margir þeirra hafa orðið kyndilberar fjölmenningarstefnu í Skandinavíu þar sem þeir gagnrýna útskúfun innflytjenda og áróður þjóðernisflokka þar í landi.
Afleiðing fjölmenningar
Hip-hop meðal innflytjenda í Noregi er með áhugaverðari menningarkimum í Skandinavíu síðustu ára. Upphaf tónlistarstefnunnar má rekja til stóraukningar innflytjenda frá Afríku og Mið-Austurlöndum til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar á níunda og tíunda áratugnum, en þannig breyttust þessi tiltölulega einsleitu lönd í fjölmenningarríki á skömmum tíma.
Samhliða opnun landanna jukust vinsældir hip-hop tónlistar í Evrópu, en hún hafði þá verið áberandi í Bandaríkjunum í tæpa tvo áratugi. Tónlistarstefnan sem var málgagn svartra Bandaríkjamanna gegn jaðarsetningu og félagslegri útilokun fann nýjan hljómgrunn meðal innflytjenda í Skandinavíu.
Kebabnorska
Áhrif fjölmenningarinnar í Noregi gætti mest í Osló, sér í lagi í austurhluta borgarinnar þar sem húsnæðisverð er mun lægra. Til urðu sérstök innflytjendahverfi, en í sumum grunnskólum í Austur-Osló eru 80-90% nemendanna af erlendum uppruna. Samkvæmt fræðigrein sem birt var við Háskólann í Osló leiddi samþjöppun innflytjenda í Noregi til sterkrar sjálfsmyndar þeirra sem endurspeglaðist í hip-hop tónlist á þessum árum.
Svo sterk er sjálfsmynd innflytjenda frá Mið-Austurlöndum og Afríku að þeir hafa skapað sína eigin mállýsku, sem fræðimenn kalla „kebabnorsku.“ Litið var niður á mállýskuna í fyrstu, en með árunum hefur hún skapað sér fastan sess í norska tungumálinu og er nú kennd í gagnfræðaskólum.
Hip-hop menning innflytjenda í Noregi hefur alið af sér marga af þekktustu tónlistarmönnum landsins síðustu ára. Til dæmis náði smáskífa norska rappdúettsins Madcon, „Beggin’,“ fyrsta sætið í vinsældalistum um allan heim árið 2008, og Nico & Vinz náðu svipuðum árangri með „Am I Wrong“ árið 2014. Hljómsveitirnar eru báðar afsprengi norskrar innflytjendamenningar, en þær samanstanda af börnum innflytjenda frá Afríku sem ólust upp í Austur-Osló. Nýlega hefur hinn 19 ára gamli Austur-Oslóarbúi Hkeem svo toppað vinsældalistann í Noregi með lagið sitt „Fy Faen“, en lagið náði alþjóðlegri útbreiðslu þegar það var spilað í sjónvarpsþáttunum SKAM.
Pólitísk áhrif
Samhliða auknum vinsældum hafa norskir hip-hop tónlistarmenn einnig látið að sér kveða í pólitískum hitamálum, en gagnrýni á jaðarsetningu innflytjenda kemur víða fram í lögum þeirra. Rapphljómsveitin Karpe Diem eru einna mest áberandi í þeim málaflokki, en í nýju lagi þeirra, „Lett å være rebell i kjellerleiligheten din,“ fékk þáverandi dómsmálaráðherra Noregs, Anders Anundsen, á baukinn vegna fjandsamlegra ummæla í garð hælisleitenda. Þremur vikum eftir að lagið var gefið út sagði Anundsen af sér sem ráðherra. Myndbandið af laginu má sjá hér að ofan.
Víðar í Skandinavíu
Áhrif innflytjenda hefur virkað sem vítamínsprauta í norskt menningarlíf, en svipuð þróun hefur átt sér stað bæði í Svíþjóð og Danmörku. Áhrifin hafa hins vegar ekki verið jafnaugljós á Íslandi, ef til vill vegna þess hve fáum innflytjendum landið hefur tekið á móti miðað við önnur Norðurlönd. Þó er búist við fjölgun Íslendinga af erlendum uppruna næstu árin, en áhugavert verður að sjá hvort íslenskt tónlistarlíf muni njóta góðs af því, eins og gerst hefur í Noregi.