Gengi krónunnar hefur sveiflast umtalsvert undanfarnar vikur, en hún styrktist mikið rétt eftir afléttingu haftanna. Síðustu sex viku hefur gengið þó veikst nær samfellt, en greiningaraðilar hafa bent á að innflæðishöft Seðlabankans ættu líklega þátt í gengisveikingunni. Undanfarna daga hefur borið nokkuð á styrkingu, en aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur líklegt að Seðlabankinn hafi unnið gegn henni með því að kaupa erlendan gjaldeyri.
Gagnrýna innflæðishöft
Á þriðjudaginn ítrekuðu Samtök atvinnulífsins gagnrýni sína á innflæðishöftum Seðlabankans, en samtökin sögðu höftin vera skaðleg og þeim bæri að aflétta. Því til rökstuðnings benda þau á umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland, en í henni segir að engin rök séu fyrir innflæðishöftum vegna lækkandi nafnvaxta hérlendis og hækkandi vaxta erlendis. Í því samhengi megi minna á að fjárfestingar erlendra aðila í ríkisskuldabréfum námu um þriðjungi af landsframleiðslu þegar mest lét á árunum fyrir 2008, en nú sé hlutur þeirra 4%.
Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma, sagði sömuleiðis í viðtali við Viðskiptamoggann á fimmtudaginn að höft á innflæði erlends fjármagns leiði til þess að krónan sveiflist meira en efni standa til. Með þeim eigi erlent fjármagn ekki greiða leið inn á meðan innlendir aðilar horfa í auknum mæli til erlendra fjárfestinga.
Styrking og mögulegt inngrip SÍ
Mynd hér að neðan er skjáskot af Keldunni, en hún sýnir um 2% gengisveikingu allra helstu gjaldmiðla á tímabilinu 13:00-14:00 á fimmtudaginn. Í gær átti sér stað svipuð hreyfing á gjaldmiðlunum, en þá veiktust þeir allir gagnvart krónunni um 2% milli 13:00 og 15:00.
Samkvæmt Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, er líklegt að Seðlabankinn hafi gripið inn í gjaldeyrismarkaðinn á fimmtudaginn til þess að sporna við styrkingu krónunnar. Seðlabankinn hafi gefið það út að hann myndi kaupa eða selja erlendan gjaldeyri ef hætta væri á svokallaðri „spíralmyndun“ á markaðnum.
Upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans birtast með nokkurra daga töf, en Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, vildi ekki gefa upplýsingar um viðskipti fimmtudagsins þegar Kjarninn bað um þær.