Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi funduðu með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum í dag. Fyrstu kom Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt.
Forsetinn veitti ráðuneyti hans lausn en óskaði eftir því, eins og venja er, að ríkisstjórnin myndi starfa áfram í starfsstjórn. Bjarni varð við því, en óvissa er um þátttöku ráðherra Viðreisnar í starfsstjórninni, enda gaf Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, forsetanum ekki svar. Svarið mun berast eftir helgi, þegar flokkurinn hefur ráðið ráðum sínum.
Allir formenn flokkana sögðust reiðubúnir að samþykkja tillögur um að kosningar verði haldnar 4. nóvember næstkomandi. Þangað til eru 49 dagar, eða sjö vikur. Þess vegna er ljóst að kosningabaráttan verður snörp.
Kosningarnar virtust jafnframt leggjast vel í alla formenn flokkana. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur undirbúningsvinna og hugmyndastarf um mönnun lista og málefnaundirbúningur þegar hafist í kjördæmanefndum flokkana.
Hér að neðan er samantekt úr viðtölum og yfirlýsingum allra formannanna sem funduðu með Guðna í dag. Röð formanna er í þeirri röð sem þeir komu til fundar við forsetan.
Bjarni Benediktsson – Sjálfstæðisflokkurinn
Bjarni Benediktsson gekk á fund forseta Íslands í morgun og baðst lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, féllst á það og óskaði eftir því að ríkisstjórnin myndi starfa í starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn verði mynduð.
Ný ríkisstjorn verður ekki mynduð fyrr en eftir kosningar, sem Bjarni hefur lagt til að fari fram 4. nóvember næstkomandi. Bjarni vonast til þess að geta samið um þá dagsetningu við þingflokka á Alþingi.
Spurður hvort honum sé stætt í ríkisstjórn segir Bjarni að það sé venjan að ráðherrar eru beðnir um að sitja áfram. Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur ályktað um að Viðreisn geti ekki starfað í ríkisstjórn þar sem Bjarni og Sigríður Andersen gegna ráðherraembætti. Bjarni segist ekki sækja umboð sitt til ráðgjafaráðsins.
„Menn verða að rísa undir þeirri skyldu að starfa áfram,“ segir Bjarni. Spurður um hvað þeir Guðni hafi rætt sagði Bjarni: „Við áttum bara mjög fínan fund, ræddum um stjórnmálin og þessa atburði sem hafa verið á undanförnum árum.“
Mín vonbrigði eru ekki persónuleg vonbrigði.Spurður hvort þetta mál hafi haft persónuleg áhrif á Bjarna og fjölskyldu hans, þar sem faðir hans hefur verið til umfjöllunar vegna þess að hann vottaði meðmæli fyrir dæmdan barnaníðing. „Það getur ekkert mál komið upp á milli okkar feðganna, sem truflar okkar trúnað og traust,“ svaraði Bjarni.
„Mín vonbrigði eru ekki persónuleg vonbrigði. Ég er ekki í stjórnmálum til þess að uppfylla persónulegan metnað. Mín vonbrigði eru einfaldlega brostnar vonir fyrir það ráðuneyti sem ég var að skila inn umboði fyrir núna.“
Guðni Th. Jóhannesson – Forseti Íslands
Það er „skylda og ábyrgð þingmanna að bregðast við þessari stöðu“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann ávarpaði blaða- og fréttamenn eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni. „Það er í líka í mínum verkahring,“ sagði hann enn fremur.
„Ég segi engum fyrir verkum í þessum efnum en ég minni á að þegar forsætisráðherra hefur beðist lausnar að þá er venjan sú og hefðin að ráðherrar sinni sínum skyldum í sínum ráðuneytunum þar til ný stjórn hefur verið mynduð. Ef þau telja það ómögulegt þá er að taka því.“
Tilgangurinn með fundi við leiðtoga annara flokka er að fá staðfest sjónarmið þeirra um þingrof og kosningar, útskýrði forsetinn.
„Sé vilji til þess innan þings, að mynda nýja ríkisstjórn, sem getur að minnsta kostið varist vantrausti, þá verður brugðist við því,“ sagði Guðni.
Forsetinn var beðinn um að bregða sér í hlutverk sagnfræðingsins og útskýra þá stöðu sem komin væri upp og hver næstu skref væru. Hann sagði að ætlast væri til þess starfstjórn taki engar stefnumarkandi ákvarðanir. Við slíkt ástand væri ekki að vænta stórra tíðinda af Alþingi, fyrir utan það að forsætisráðherra þarf að leggja fram tillögu um þingrof og forseti þarf að taka afstöðu til þeirra.
Spurður hvort það væru vonbrigði að sjá þessa ríkisstjórn falla sagði Guðni: „Já, vissulega. En þetta er gangur stjórnskipanarinnar í okkar landi.“
Katrín Jakobsdóttir – Vinstri græn
Það kom Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, ekki á óvart að ríkisstjórnin hafi fallið. Hún gekk á fund forseta Íslands eftir hádegið í dag. Katrín sagðist ekki búast við því að þing yrði að störfum fram að kosningum enda sitji starfsstjórn í stjórnarráðinu og flokkarnir farnir að undirbúa sig fyrir kosningar.
Spurð um þá stöðu sem er í stjórnmálunum í dag með það í huga hvernig niðurstöður síðustu kosninga urðu sagðist Katrín vona að stjórnmálamenn hefðu lært af þeirri reynslu. Hún hvatt til þess að breiðara samstarf yrði haft um málefni á Alþingi. Samstarfsviljann hafi skort í þeirri ríkisstjórn sem var að falla, þrátt fyrir að sú stjórn hafi aðeins haft eins manns meirihluta á þingi.
„Flokkarnir verða að gera það upp við sig fyrir kosningar hvaða málamiðlanir þeir eru tilbúnir að gera,“ sagði Katrín eftir fundinn með forsetanum.
Birgitta Jónsdóttir – Píratar
Birgitta Jónsdóttir sagðist hafa átt gott samtal við Guðna forseta. „Það er verið að fara yfir mögulegan kosningadag, þingrof og annað. Það kemur svo í ljós hvort fólk sé að tala saman.“
Hún sagði pírata ekki eiga aðild að neinum þreifingum um nýja ríkisstjórn. Birgitta segist hafa heyrt að einhverjir flokkar séu nú að ræða saman um hugsanlegt stjórnarsamstarf.
Spurð hvort henni hugnist kosningar 4. nóvember segir Birgitta: „Mér finnst það bara fín dagsetning. Ég vona að það verði ekki kosningar á hverju ári því það þýðir að mörg mál munu falla á milli.“
Birgitta hvatti kjósendur til að láta ekki blekkjast af ástandinu og sagðist vilja að hér verði reistar stjórnmálablokkir eins og gerst hefur í löndunum í kringum okkur. Á Birgitta að öllum líkindum við að það verði skýrt fyrir kosningar hver hugsanleg stjórnarmynstur verði að kosningum loknum.
Sigurður Ingi Jóhannsson – Framsóknarflokkurinn
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telur eðlilegt að starfsstjórn sitji við þær aðstæður sem nú er komin upp í íslenskri pólitík. Heppilegast sé að ganga til kosninga sem fyrst.
Hann segist heyra að það sé samhljómur með öllum formönnum stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi að kosningar eigi að fara fram í byrjun nóvember.
Sigurður Ingi sagði algeran einhuga ríkja meðal framsóknarmanna að flokkurinn myndi ekki taka laus sæti í ríkisstjórninni.
Benedikt Jóhannesson – Viðreisn
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist ætla að gefa Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, svar eftir helgi um það hvort ráðherrar flokks hans taki sæti í starfsstjórninni fram að kosningum.
Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur ályktað að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, þau Bjarni Benediktsson og Sigríður Andersen, geti ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan rannsókn málsins stendur. Viðreisn muni ekki starfa í ríkisstjórn þar sem Bjarni og Sigríður starfa einnig.
Guðni félst á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar í hádeginu og óskaði eftir því að ráðherrar í ráðuneyti hans myndi starfa áfram í svokallaðri starfsstjórn fram að kosningum. Benedikt segist ekki hafa gefið svar af eða á um þetta á fundi sínum með forsetanum í dag. Það muni hann gera eftir helgi.
„Við munum taka þátt í starfsstjórninni að minnsta kosti um helgina. Það þarf að vega og meta þetta. Starfsstjórn er allt annað en venjuleg ríkisstjórn. Starfstjórn felst í því að manna ráðuneytin,“ sagði Benedikt og ítrekaði að pólitísku samstarfi þessarar ríkisstjórnar væri lokið. „Þessu meirihlutasamstarfi er lokið. Það verða ekki einu sinni haldnir ríkisstjórnarfundir á þessu tímabili [fram að kosningum]. Við verðum að gera þennan skýra greinarmun.“
Ráðgjafaráð Viðreisnar er skipað stjórn Viðreisnar, þingflokknum, formönnum málefnanefnda og stjórnum landshlutaráða. Ráðið var kallað saman í dag. Í ljósi „þeirrar alvarlegu stöðu og trúnaðarbrests sem kominn er upp,“ telur ráðgjafaráðið farsælast fyrir þjóðina að þing sé rofið og gengið sé til kosninga að nýju.
Óttarr Proppé – Björt framtíð
Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar, segir það skrýtna tilfinningu að sitja í starfsstjórn eftir að hafa gert tilraunir til að láta ríkisstjórnarsamstarfið ganga upp við erfiðar aðstæður.
Björt framtíð ætlar að taka þátt í starfsstjórn. „Við gerum það að beiðni forseta Íslands að það sé skylda okkar að manna þessa pósta fram að kosningum,“ sagði Óttarr þegar hann gekk af fundi forsetans.
Spurður hvort það kæmi til greina fyrir Bjarta framtíð að taka aftur þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum sagði Óttarr það ekki koma til greina eins og stendur.
Logi Már Einarsson – Samfylkingin
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var síðasti formaðurinn sem gekk á fund forseta á Bessastöðum í dag. Hann sagði forsetann hafa spurt um afstöðu hans til kosninga og hvort hægt væri að mynda meirihluta á því þingi sem nú situr.
Logi sagðist vera tilbúinn í kosningar 4. nóvember, eini gallinn á þeirri dagsetningu væri að það væri sama helgi og Iceland Airwaves-tónlistahátíðin færi fram í Reykjavík.
Samfylkingin fyrirhugar að halda landsfund flokksins í lok október. Logi segir framkvæmdastjórn flokksins ætla að koma saman á morgun og ákveða hvort landsfundinum verði flýtt vegna snemmbúinna kosninga.
„Ég er ágætlega stefndur,“ sagði Logi um skoðun sína á kosningunum sem fram undan eru. Hann telur mörg sóknarfæri vera fyrir Samfylkinguna fyrir kosningar.
Logi sagðist „ekki ætla að hafa stór orð“ um starfsstjórnina sem mun að óbreyttu sitja fram að kosningum. Um það hvort Logi útiloki samstarf með einhverjum flokkum að loknum nýjum kosningum og hvort Samfylkingin verði í kosningabandalagi með nokkrum flokki sagðist Logi ekki vera tilbúinn að tjá sig um það núna.
„Við munum hins vegar ekki fara í stjórn með flokkum sem setja á oddinn mannfjandsamleg viðhorf,“ sagði hann og bætti við að hjarta hans slægi til vinstri. Hann segist frekar vilja starfa í ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur en nokkurs annars.