NPA, eða notendastýrð persónuleg aðstoð, er í stuttu máli þjónustuform sem tryggir fötluðu fólki sjálfstæði í eigin lífi. Aðstoð sem þeim er veitt er á þeirra eigin forsendum, þ.e. fatlað fólk ræður því sjálft hvaða þjónusta er veitt, hvernig þjónustunni er háttað, hver veitir hana og hvenær hún er veitt.
Frumvarp Þorsteins Víglundssonar um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir var sett fram á þingi í byrjun apríl síðastliðnum en í því er NPA og fyrirkomulag þeirrar þjónustu sveitarfélaga lögfest. Margir þingmenn hafa lýst yfir vilja til að afgreiða þann lið sem snýr að notendastýrðri aðstoð áður en kosið verður á ný þann 28. október.
Hægt að semja við sveitarfélagið
Á vefsíðu NPA miðstöðvarinnar kemur fram að fatlað fólk geti samið við sitt sveitafélag um að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð. Einstaklingurinn og sveitarfélagið gera þá svokallaðan NPA samning sín á milli. Við gerð NPA samninga þarf einstaklingurinn að meta sínar þarfir og væntingar, enda er sjálfsmat mikilvægt atriði í hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf.
Síðan koma sveitarfélagið og einstaklingurinn sér saman um þjónustuþörf einstaklingsins, þar sem sjálfsmatið er lagt til grundvallar. Út frá því er svo áætlað mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélagsins til einstaklingsins svo að hann geti séð um og skipulagt þjónustuna sjálfur eftir sínum þörfum og hentisemi.
Fjármagnið sem einstaklingurinn fær skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi 85% laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks. Í öðru lagi 10% umsýslukostnaður sem fer til umsýsluaðila og þriðja lagi 5% vegna útlagðs kostnaðar við aðstoðarfólk.
Einstaklingurinn fær völd og ábyrgð
Þegar einstaklingur er kominn með NPA er hann í hlutverki verkstjórnanda aðstoðarfólks síns og fær þar af leiðandi völd og ábyrgð. Einnig hefur hann val um að sjá alfarið um umsýsluna sjálfur eða leita til umsýsluaðila eins og NPA miðstöðvarinnar.
Ætli einstaklingurinn ætlar að taka að sér umsýsluna sjálfur þá fylgja því mörg verkefni og mikil ábyrgð, enda gerist hann vinnuveitandi aðstoðarfólks síns. Hann þarft að kynna sér ítarlega lög og reglur um vinnuvernd, skattamál, tryggingamál, kjaramál og annað sem vinnuveitandi þarf að vera með á hreinu.
Verkstjórnandahlutverkinu fylgir að einstaklingurinn velur sér aðstoðarfólk sem hentar lífstíl og kröfum hans með því að útbúa auglýsingu og taka viðtöl við umsækjendur. Aðstoðarfólk vinnur svo samkvæmt starfslýsingu og/eða leiðbeiningum sem hann semur sjálfur.
Frelsið aukið til muna með NPA
Ákvarðanir um hvaða verk eru unnin eru algjörlega í höndum einstaklingsins sjálfs, hvaða aðstoð er veitt og við hvaða athafnir. Hann ákveður hvar hjálpin fer fram, heima eða hvað sem hann gerir í lífinu og hefur þannig frelsi til að ákveða hvar hann býr, hvert hann ferðast og hvað hann gerir.
Hann stýrir því hvenær hann fer á fætur, að versla, í bað, elda mat, í vinnu eða skóla, stunda áhugamál o.s.frv. Þannig skipuleggur hann aðstoðina eftir sínum eigin lífsstíl með því að skipuleggja vinnufyrirkomulag og vaktaplan ásamt því að stýra því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir.
Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu NPA miðstöðvarinnar.
Verkefnisstjórn þróaði leiðir til að taka upp NPA
Á vefsíðu Velferðarráðuneytisins kemur fram að verkefnisstjórn, sem skipuð var af velferðarráðherra, hafi leitt samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks. Það miðaði að því að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk á markvissan og árangursríkan hátt.
Verkefnisstjórnin er skipuð í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks sem tók gildi 1. janúar 2012, samhliða ýmsum öðrum breytingum á lögunum vegna ákvörðunar um flutning ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.
Hlutverk verkefnisstjórnar var að móta ramma um fyrirkomulag NPA. Í því skyni áttu sveitarfélög, í samráði við verkefnisstjórnina, að leitast við að bjóða fólki með fatlanir notendastýrða persónulega aðstoð til reynslu í tiltekinn tíma.
Allir ættu að eiga rétt á NPA
Tabú, femíníska fötlunarhreyfingin, fagnar því að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest. Hreyfingin gerði þó nokkrar athugasemdir þegar frumvarpið leit dagsins ljós við þann lið sem snéri að NPA. Í fyrsta lagi mælti Tabú gegn því að einstaklingur eigi einungis rétt á þessum þjónustulið ef að hann hefur miklar og viðvarandi þjónustuþarfir. Notendastýrð persónuleg aðstoð sé frábært tæki til þess að veita þjónustu til fólks óháð því hver skerðing þess er, hversu mikla aðstoð það þarf, hvar það býr, með hverjum og hvernig það lifir lífi sínu.
Sumar skerðingar eru breytilegar og stundum sívaxandi, segir í umsögninni. Jafnframt sé sumt fatlað fólk með minni stuðnings- og þjónustuþarfir en vilji augljóslega stjórna lífi sínu sjálft og þeirri aðstoð sem að það fær. Hefðbundin félagsþjónusta sem er í boði, til dæmis félagsleg heimaþjónusta, liðveisla og heimahjúkrun, sé mjög takmarkandi að mörgu leyti. Þessi þjónusta takmarkist við ákveðnar klukkustundir, sé einungis veitt á ákveðnum tímum og veiti einungis aðstoð við ákveðna þætti.
Í umsögninni kemur fram:
„Það fólk sem hefur barist hvað mest fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð, bæði hér á landi og erlendis, leggur þunga áherslu á að fötluðu fólki sé ekki mismunað á grundvelli tegundar skerðingar þegar það sækir um notendastýrða persónulega aðstoð. Að takmarka aðgengi þessa hóps fatlaðs fólks að NPA endar oft með því að aðstandendur þurfa að hlaupa til síendurtekið að bjarga málunum.
Heimili fatlaðs fólks, líkt og önnur heimili í landinu, eru griðarstaðir, staðir þar sem friðhelgi á að ríkja. Því er ekki sæmandi að bjóða einungis upp á þjónustu sem neyðir fólk til að opna heimili sín fyrir einum í dag og öðrum í næstu viku, fólki sem það nær aldrei að kynnast persónulega. Persónuleg aðstoð er augljóslega mikilvægt val fyrir þennan hóp fólks.“
Mikilvægt að nýta vinnu verkefnastjórnar
Tabú veltir fyrir einnig fyrir sér hvers vegna ekki sé gerð krafa um að þær leiðbeiningar og handbók sem ráðherra á að gera skuli byggja á þeirri vinnu sem nú þegar hefur verið unnin af verkefnastjórn um notendastýrða persónulega aðstoð. Mikil vinna hefi verið lögð í að skapa ramma utan um þessa þjónustuleið síðustu sex árin, þar sem í upphafi var mikið samráð haft við fatlað fólk. Mikilvægt sé að nýta þá vinnu, í stað þess að finna upp hjólið á ný.
Heyfingin bendir á að búið sé að vera að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð frá árinu 2011. Mikil grunnvinna liggi fyrir og rannsókn hafi verið unnin á framgangi verkefnisins. Eru þær því orðnar langþreyttar á því að ekki sé búið að lögfesta þessa þjónustuleið og stöðugt sé verið að koma sveitarfélögum undan því að veita þjónustuna með því að fjalla um tilraunaverkefni og innleiðingaverkefni.
Hvetja ríkisstjórnina til að ganga alla leið
Tabú gerir einnig athugasemd við að skammta eigi samninga næstu fimm árin enda muni það viðhalda þeirri gjá sem skapast hefur á milli fólks með NPA og ekki, ásamt því að þeir sem hafa sterkasta baklandið og bestu forsendurnar til þess að berjast fá samninga en ekki hinir.
Einnig hvetja þær ríkisstjórnina til þess að ganga alla leið og lögfesta NPA sem jafnréttháa þjónustuleið og allar aðrar. Í umsögninni segir að á Norðurlöndunum sé ásókn í NPA hægvaxandi og því sé engin ástæða til þess að halda að annað gildi á Íslandi.